Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; Sambyggingin

Um framlag Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, til íslenskrar byggingarlistar og byggingasögu þarf vart að fjölyrða. Hann er e.t.v. þekktastur fyrir hinar ýmsu opinberar byggingar, kirkjur og skólahús, og ber þar kannski helst að nefna Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju og aðalbyggingu Háskóla Íslands. En Guðjón er einnig höfundur fyrsta skipulags, sem unnið var fyrir Akureyri, og samþykkt var árið 1927. Miðbær Akureyrar er að miklu leyti byggður eftir þessu skipulagi, sem og gatnaskipulag Oddeyrar og neðri hluti Brekkunnar. Skipulag þetta gerði ráð fyrir miklum randbyggingum; röðum fjölbýlishúsa með görðum og torgum á milli, á Eyrinni. Ekki ósvipað t.d. Vallagötunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Aðeins munu þrjú hús á Oddeyrarsvæðinu sem reist eru beinlínis eftir þessu skipulagi. Tvö þeirra, Gránufélagsgata 43 og Strandgata 37 bera þess merki, að byggja hafi átt beggja vegna við þau (þ.e. gluggalausir stafnar) en eitt er fullbyggt: Gránufélagsgata 39-41, sem greinarhöfundur kallar jafnan „Sambygginguna“. Væntanlega er þar um að ræða fyrsta skipulagða fjölbýlishús Akureyrar. (Lengi framan af voru íbúðarhús almennt hálfgerð fjölbýlishús, þó byggð væru sem einbýli, þar sem margar fjölskyldur bjuggu undir sama þaki. Sjá nánar síðar í greininni).

Gránufélagsgata 39-41 samanstendur af þremur sambyggðum húsum sem mynda eina heild, þrílyft með háu valmaþaki. Neðstu hæðir eru eilítið niðurgrafnar en vart hægt að kalla þær kjallara (í bókunum bygginganefndar eru þær sagðar ofanjarðarkjallari). Á vestasta hluta eru einlyftar bakbyggingar. Veggir eru múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Á risi eru alls sex smáir kvistir að framan og þrír á bakhlið. Auk nokkurra þakglugga. Alls mun húsið um 26x8m á grunnfleti en útbyggingar að norðvestan eru um 4x3m og 5x3m.

Kannski halda einhverjir, að Akureyrarbær, byggingafélag eða verktakar hafi byggt Sambygginguna, en svo var nú ekki. Enda þótt húsið sé þrískipt, hús nr. 39 vestast, 41a í miðjunni og 41 austast reistu tveir einstaklingar húsið. Eystri hlutann, nr. 41, reisti Steinþór Baldvinsson skipasmiður frá Svalbarði, en vestri hluta, nr. 39 reisti Jón Kristjánsson ökumaður frá Landamótaseli í S-Þingeyjarsýslu. Teikningarnar að húsinu, eða húsunum þremur, gerði Halldór Halldórsson. Það var 2. júlí 1928 sem Steinþór fékk lóð og leyfi til byggingar íbúðarhúss við Gránufélagsgötu, á horninu á móti Ólafsfjarðarmúla, norðan við götuna. Umræddur Ólafsfjarðarmúli er húsið Grundargata 7, sem löngum hefur gengið undir því nafni. Það fylgdi sögunni, að þetta væri hornlóð, vestan við „torgið“ en þar er vísað í hið nýja skipulag. Steinþór vildi byggja hús 7,70x10m að stærð en Bygginganefnd krafðist þess, að húsið yrði ekki mjórra en 8m. Það hlýtur að vera fátíðara, að byggjendur séu krafðir um að stækka byggingar sínar, heldur en hitt, að fyrirhugaðar byggingar séu of stórar miðað við skipulag.

Þremur mánuðum eftir að bygginganefnd afgreiddi byggingarleyfi Steinþórs fékk Jón Kristjánsson leyfi til að reisa hús, 8,8x8m næst austan við hús Jóhannesar Júlínussonar, þ.e. Gránufélagsgötu 27, tvær hæðir úr steinsteypu, á „ofanjarðarkjallara“. (Hvers vegna 27 er við hliðina á nr. 39 er flestum, greinarhöfundi þ.m.t., hulin ráðgáta en þess má geta, að neðan við nr. 43 stendur nr. 29. Númerakerfi Gránufélagsgötu mætti kalla eitt af undrum Akureyrar. Kannski er skýringa á þessu að leita í téðu skipulagi frá 1927?) Hann óskaði einnig eftir því, að reisa aðeins fyrstu tvær hæðirnar, og fékk fimm ára frest til að ljúka við efri hæðirnar. Þarna var aðeins um að ræða vestasta hluta hússins, því í bókuninni stendur, að austurstafninn skuli vera 6m frá vesturstafni húss Steinþórs Baldvinssonar. Í mars 1929 er Jóni leyft að reisa útskot úr norðvesturhorni hússins, 4,4x3,15m að stærð. Jón hefur ekki þurft að nýta fimm ára frestinn til þess að byggja efri hæðir hússins, því árið 1931 er húsið fullklárað. (Sést á ljósmyndum). Það er svo 29. apríl 1929 að bygginganefnd afgreiðir byggingaleyfi Steinþórs Baldvinssonar fyrir húsi, 5,90x8m á lóð hans. Þar er kominn miðhlutinn þ.e. 41a. Í október 1929, þegar tekið er manntal, er flutt inn í hvort tveggja, nr. 39 og 41, og hefur þá miðhlutinn verið í byggingu.

Skömmu fyrir manntalið heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins, þá Jón og Steinþór og lýstu húshlutunum þannig: „Íbúðarhús, þrjár hæðir á lágum grunni með háu risi. Á „neðstagólfi“ 2 stofur, eldhús, búr, þvottahús og forstofa. Á efragólfi 5 stofur, salerni, gangur og forstofa. Efstahæð eins innréttuð. Á efstalofti 2 íbúðarherbergi og geymsla. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. Lítill skúr við bakhlið notaður sem geymsla“ (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 3. sept. 1929).

Nr. 41: „Íbúðarhús 3 hæðir á lágum grunni með háu risi. Á neðstuhæð við framhlið 2 st.[ofur] og forstofa. Við bakhlið þvottahús og 2 geymslur. Á miðhæð við framhlið 2 stofur, forstofa við bakhlið, eldhús, búr og baðherbergi. Efstahæð eins innréttuð, efstaloft óinnréttað. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 13. ágúst 1929).

Þann 6. desember 1929 auglýsir Steinþór Baldvinsson í blaðinu Íslendingi til sölu „hús í byggingu“ og þar hlýtur að vera um að ræða nr. 41a. Kaupandinn hefur líkast til verið Þorsteinn Stefánsson, trésmiður frá Kílakoti (ritað með ý í Manntali) í Kelduhverfi, því hann er skráður eigandi hússins í manntali árið 1930. Það ár búa alls 60 manns í Sambyggingunni. Þrettán manns búa í nr. 39, sautján í 41a og tuttugu í nr. 41. Síðarnefndu húshlutarnir skiptast í fjögur íbúðarrými hvort um sig, þar búa ýmist fjölskyldur eða einstaklingar, sem líklega hafa leigt stök herbergi. Númer 39 virðist hins vegar einbýli, þar eru allavega ekki tilgreind íbúðaskil. Þar búa téður Jón Kristjánsson og Laufey Jónsdóttir, sex börn þeirra, vinnufólk, þrennt að tölu, og tveir leigjendur. Af Steinþóri Baldvinssyni og Soffíu Sigfúsdóttur, konu hans, er það hins vegar að segja, að þau fluttu að Höfn á Svalbarðsströnd árið 1934 (skv. islendingabok.is) og stunduðu þar búskap. Það er svo skemmst frá því að segja, að fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar hafa búið í Gránufélagsgötu 39-41 í lengri eða skemmri tíma, allt frá fáeinum mánuðum til margra áratuga. Sumar íbúðir hafa jafnvel gengið milli kynslóða. Um 1940 bjuggu í nr. 41 Konráð Jóhannsson gullsmiður og Svava Jósteinsdóttir ásamt nokkrum börnum sínum og barnabörnum. Afkomendur þeirra ganga undir nafninu Konnarar, eftir Konráði, sem kallaður var Konni gull. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið breytileg gegnum þessa tæpu öld og ýmist búið í stökum herbergjum eða heilum íbúðum. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu samkvæmt Fasteignaskrá, þrjár í 39 og 41 en miðhluti, 41a, sem er ívið smærri að grunnfleti en hinir hlutarnir, hefur síðustu áratugi verið einbýli.

Er Sambyggingin fyrsta „blokkin“ á Akureyri? Það er alltaf dálítið varasamt að fullyrða, að hús séu fyrst eða elst, þetta eða hitt. Stundum er það skilgreiningaratriði: Vitaskuld eru hærri og margskiptari randbyggingar í Miðbænum t.d. við Skipagötu og Ráðhústorg, sem byggðar eru á svipuðum tíma. Og þegar Sambyggingin var byggð voru til fjölbýlishús t.d. í gamla Hótel Akureyri og Brekkugötu 3, þau hús þá um þrítugt. Miðbæjarhúsin voru raunar verslunar, íbúðar- og skrifstofuhúsnæði og eldri húsin tvö voru annars vegar fyrrum hótel og hins vegar fyrrum einbýli, sem nokkrum sinnum hafði verið byggt við. Þannig er tæpast nokkrum vafa undirorpið, að Gránufélagsgata 39-41 er eitt af allra fyrstu húsum Akureyrar, ef ekki það fyrsta, sem byggt er beinlínis sem „hreinræktað“ fjölbýlishús með þremur stigagöngum. Það var raunar ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratug, að fleiri slíkar blokkir (þrjár hæðir, þrír stigagangar) tóku að rísa, þær fyrstu við Skarðshlíð í Glerárþorpi. En þær byggingar eru reyndar mikið, ef ekki margfalt, stærri en Gránufélagsgata 39-41 að rúmtaki. (En skiptir þetta svo sem nokkru máli?)

Gránufélagsgata 39-41 er í senn traustlegt og reisulegt en um leið látlaust hús. Það setur eðlilega mikinn svip á umhverfið, verandi „nokkrum númerum“ stærri en nærliggjandi hús en er þó til prýði og sérlegt kennileiti í umhverfi sínu. Húsið er í góðri hirðu, á því er t.d. nýlegt þak. Sambyggingin við Gránufélagsgötu 39-41 má segja sérlegan fulltrúa fyrsta Aðalskipulags bæjarins frá 1927, upphafið af stórhuga áformum um mikla torfu randbygginga á Oddeyrinni. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið einmitt miðlungs varðveislugildi sem minnisvarði um fremur „stórtækt skipulag frá 1927“ (Bjarki Jóhannesson 2020:149). Þá er húsið hluti varðveisluverðrar heildar. Þar sem Sambygginguna vantar ekki mörg ár í aldarafmæli og greinarhöfundi er stundum tíðrætt um hina svokölluðu 100 ára reglu, skal þess getið hér, að sú regla var afnumin um sl. áramót. Frá og með áramótum eru aðeins hús byggð 1923 og fyrr aldursfriðuð, en yngri hús (að byggingarári 1940) teljast umsagnarskyld. Sambyggingin verður því ekki aldursfriðuð en varðveislugildi hennar er ótvírætt samkvæmt Húsakönnun.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. júlí 2014 og 26. október 2019.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Akureyrarkaupstað 1922-29. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_3_virdingabok_1922_1929?fr=sMTZmNDQzODI5ODU

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-35. Fundur nr. 614, 2. júlí 1928. Fundur nr. 620, 4. okt. 1928. Fundur nr. 626, 25. mars 1929. Fundur nr. 628, 29. apríl 1929. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns, greinar á timarit.is; islendingabok.is, sjá tengla í texta.

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
08. júní 2024 | kl. 14:50