Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Um aldamótin 1900 kölluðust stærstu hús bæjarins á, yfir Bótina; Snorri Jónsson hafði reist veglegt hús við Strandgötuna á Oddeyri og skömmu síðar reisti fyrrum nemi hans í trésmíðum, Bergsteinn Björnsson ámóta hús á uppfyllingu í Bótinni. Hús Bergsteins, sem var lítið eitt stærra að grunnfleti og hærra en hús Snorra, naut þó ekki lengi þess titils, að vera stærsta hús bæjarins. Fjórum árum síðar reis á hinu nýja landi Akureyrarkaupstaðar, uppi á brekkunni nærri Stóra Eyrarlandi, eitt stærsta hús bæjarins og stærsta timburhús fyrr og síðar. (Verið gæti þó, að fjölbýlishús, sem nú rísa úr timbri í Holtahverfi í Glerárþorpi skáki því að rúmtaki). Um ræðir eitt skrautlegasta og tilkomumesta hús bæjarins, sérlegt kennileiti og prýði, Gamli Skóli eða Menntaskólinn. Í gær, 29. apríl 2024, voru liðin nákvæmlega 120 ár síðan Stjórnarráðið samþykkti teikningarnar að húsinu!

Gamli Skóli, sem margir kalla einfaldlega Menntaskólann í daglegu tali, er háreist tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara. Skiptist húsið í þrjár álmur, suður og norðurálmur snúa stöfnum í austur og vestur en miðálma liggur á milli þeirra í norður-suður. Stafnar álmanna mynda tvær endaburstir en fyrir miðju húsinu er ein burst eða kvistur. Burstir þessar skaga 60 cm út fyrir miðálmu. (Ekki ósennilegt, að þar hafi verið miðað við eina alin). Grunnflötur miðálmu er 42,5x8,6m en hliðarálmurnar 10,1x9m. Á hvorri álmu eru einlyftar anddyrisbyggingar, sú á norðurálmu með lágu valmaþaki en sú á suðurálmu með háu risþaki. Kallast sú á suðurálmu Sólbyrgið. Einnig er útskot á bakhlið suðurálmu. Í flestum gluggum eru níu rúðu krosspóstar en mjórri gluggar (sexrúðu) eru m.a. í kjallara, undir rjáfrum og í kvistum. Þá eru vatnsbretti eða bönd undir neðri gluggalínu sem og á hæðarskilum við rishæð. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir og þak og húsið mjög skrauti prýtt; á burstum er útskurður á hanabjálkum og krossskeyttum bjálkum þ.e. hengisúlum. Einnig er útskurður á mænistoppum. Á miðburst rammar útskorið skraut inn fánastöng. Tveir skorsteinar, hlaðnir úr rauðleitum múrsteinum setja einnig svip á bakhlið hússins. Bakhliðin tengist löngum tengigangi sem tengir húsið við Hóla, nýbyggingu frá 1996.

Að öllu jöfnu er saga Menntaskólans á Akureyri rakin til stofnunar skóla að Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1880 og raunar allt aftur til stofnunar skóla að Hólum í Hjaltadal árið 1106. Skólinn var starfræktur í veglegu húsi, tvílyftu með háu risi, en það hús brann til ösku veturinn 1902. Var þá skólinn á hrakhólum en næstu tvo vetur var hann til húsa í nýbyggðum Barnaskóla sunnan Barðsnefs (Hafnarstræti 53). Raunar kom til greina, að hann fengi inni í nýreistu húsi Bergsteins Björnssonar, sem nefndur er hér í formála, en það var ekki talið fullnægjandi. Þegar skólahúsið brann voru þá þegar komnar fram hugmyndir um að flytja skólann til Akureyrar. Í ársbyrjun 1898 hafði Jón Hjaltalín lagt það til í bréfi til landshöfðingja, sem annars sneri að lélegu ástandi Möðruvallahússins. Ekki voru menn sammála um þessa hugmynd en bruninn á Möðruvöllum mun þó hafa sameinað menn í þeirri afstöðu, að skólinn yrði endurreistur á Akureyri. Það varð svo úr, að þann 10. nóvember 1903, voru samþykkt lög á Alþingi, um Gagnfræðaskóla á Akureyri og með fylgdi fjármagn; 67.000 krónur úr Landssjóði en byggja átti hús með heimavist fyrir allt að 50 nemendur. Raunar hafði skólameistari, Jón Hjaltalín, falast eftir því við bæjarstjórn, strax í september það ár, að fá lóð í norðausturhorni Eyrarlandstúns undir fyrirhugaðan gagnfræðaskóla. Vildi hann helst eina dagsláttu (u.þ.b. 3600 m2 ). Féllst bæjarstjórn á þetta að öllu leyti (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 894, 1903). Það var svo um vorið 1904, að Jón óskaði eftir stækkun á lóðinni og enn var bæjarstjórn velvildin ein; skólinn fékk alla spilduna milli Breiðastrætis og Bæjarstrætis að austan og milli Vesturstrætis að sunnan og túngarð Eyrarlands að norðan (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 911, 1904). Ef marka má einn elsta uppdrátt sem til er af Brekkunni, virðist Breiðastræti hafa átt að liggja nokkurn veginn þar sem nú er byggingin Hólar, Vesturstræti þar sem nú eru norðurmörk Lystigarðs og Bæjarstræti um það bil þar sem nú er Eyrarlandsvegur. Umræddur túngarður Eyrarlands mun hafa verið á svipuðum slóðum og Hrafnagilsstræti er nú. Síðasta verk Bygginganefndar á árinu 1903 var að bóka álit nefndarinnar á þeim stað, sem afmarkaður hafði verið á Eyrarlandstúni, þar sem kennarar skólans teldu rétt að skólahúsið stæði. Voru nefndarmenn nokkurn veginn sammála en töldu rétt, að skólahúsið yrði fært austar.

Á hinu nýja ári fóru skólayfirvöld að leita tilboða í byggingu skólahúss. Bárust tilboð frá helstu byggingameisturum bæjarins, auk eins tilboðs frá byggingameisturum úr Reykjavík. Öllum var þessum tilboðum hafnað en Klemenz Jónsson leitaði til Sigtryggs Jónssonar, timburmeistara frá Espihóli að gera uppdrátt og verklýsingu. Út frá þeirri teikningu var ákveðið að leita tilboða í byggingu en meðal þeirra sem sendu inn tilboð var Snorri Jónsson. Sendi hann einnig uppdrátt að húsi og lengi vel var raunar talið, að hann hafi verið höfundur hússins. Uppdráttur sem varðveist hefur, tekur af öll tvímæli um þetta; Sigtryggur Jónsson undirritar teikningar, sem dagsettar eru 26. apríl 1904 og samþykktar af Stjórnarráðinu þremur dögum síðar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:198). Svo hófust menn handa: Sigtryggur Jónsson hélt utan til Noregs að velja timbur í bygginguna og þann 11. maí örkuðu Bygginganefndarmenn upp á Eyrarlandstún. Þar „afmarkaði [bygginganefndin] þessa spildu með niðurreknum hælum. Síðan var eftir beiðni J.A. Hjaltalín er var viðstaddur mældur ut grunnur undir skólahúsið á hinum afmarkaða bletti og var ákveðið, að húsið skyldi standa 10 ál. [6,3m] frá Breiðastræti, jafnhliða götunni og 15 ál. [tæpir 10m] í norður frá Vesturstræti“ (Bygg.nefnd. Ak. 1904: nr. 267). Af Noregsferð Sigtryggs segir fremur fátt, nema hvað tilgreint var í verksamningi, að viðurinn mætti ekki vera úr Mandal. Mögulega hefur Sigtryggur haft forskrift og teikningar meðferðis og látið forsmíða húsið ytra. Er það raunar talið líklegra en hitt og það sem styður þá kenningu er kannski einna helst hinn ótrúlegi byggingarhraði: Húsið, það stærsta sem risið hafði á Akureyri, var ekki nema fjóra mánuði í byggingu! Hornsteinn var lagður 4. júní og skóli settur nákvæmlega fjórum mánuðum síðar, þ.e. 4. október 1904. Þrjár kennslustofur voru fullbúnar við skólasetningu en fleiri voru teknar í notkun eftir því sem á leið. Um áramótin 1904-05 átti íbúð skólameistara að verða tilbúin og heimavistin haustið eftir. Og það stóðst að mestu leyti. Heimavistin var með nokkuð nýstárlegu sniði, 2-4 nemendur saman í herbergi og ef fjórir deildu herbergi fengu þeir tvö herbergi, annað til svefns og hitt til lesturs. Fram að þessu var algengast að heimavistir væru einfaldlega svefnsalir eða loft. Á fyrstu áratugum hússins var skipulagið nokkurn veginn þannig, að vesturhluti norðurálmu, báðar hæðir og kjallari, var heimavist auk þess sem risið var lagt undir heimavistina. Íbúð skólameistara var á neðri hæð í suðurálmu. Í kjallara norðurálmu voru herbergi þjónustustúlkna en síðar voru þar gerð heimavistarherbergi. Kennslustofur og skrifstofur voru flestar í miðálmu, á báðum hæðum en smíðastofa var í kjallara. Þá voru ýmsar einkageymslur skólameistara þ.á.m. vínkjallari í kjallara suðurálmu.

Jón Hjaltalín (1840-1908), sem gegnt hafði stöðu skólameistara allt frá stofnum Möðruvallaskóla árið 1880, var kominn á sjötugsaldur þegar skólahúsið nýja reis og var orðinn nokkuð heilsuveill. Hann lést árið 1908 og varð Stefán Stefánsson þá skólameistari. Gagnvart húsnæði skólans einkenndist hans tíð nokkuð af erjum við yfirvöld vegna viðhalds og rekstrarfjár til hins nýja skólahúss. Var það helst að húsið væri óþétt; þiljur og gluggar héldu illa vatni. Kannski var miklum hraða við bygginguna um að kenna? Steininn tók þó úr í sunnan aftakaveðri í árslok 1914 er vatnsflaumur komst inn um veggi og glugga suðurhliðar og þakjárn flettist af. Í kjölfarið voru gerðar endurbætur á húsinu, suðurhlið klædd bárujárni og reist viðbygging á sömu hlið. Er sú bygging kölluð Sólbyrgið.

Árið 1914 tengdist skólahúsið vatnsveitu, þegar hún var tekin í notkun og rafmagn var leitt í húsið 1922, þegar rafveitu var hleypt af stokkunum hér í bæ. Um svipað leyti var sett í húsið miðstöðvarhitun en fram að því var húsið kynt með stökum kolaofnum. Fundist hafa gögn um að skoðuð hafi verið tilboð um miðstöðvarkerfi við byggingu hússins, en ekki náði það lengra en svo að það yrði skoðað. Hefur mögulega þótt of dýrt. Það hefndi sín hins vegar frostaveturinn 1918, þegar vatn í lögnunum frá 1914 fraus og handlaugar sprungu. Þá virðast steypt kjallaragólf hafa frostsprungið, en Stefán Stefánsson skólameistari getur þess, að frostið í skólaherbergjum hafi farið niður í 17 til 18 stig og mest 24 stig á skrifstofu skólameistara! Enda segir hann „Sparnaðurinn við hitunarleysið étur sig því nokkuð upp, þegar á allt er litið“ (Steindór Steindórsson 1980:216). Stefáni Stefánssyni var umhugað um viðhald hússins og góða umgengni. Í æviminningum sínum lýsir Steindór Steindórsson metnaði hans, en þegar Steindór hóf nám í skólanum 1920 var heilsu Stefáns farið að hraka (hann lést í janúar 1921): „Hið vökula auga Stefáns skólameistara hafði vakað yfir allri umgengni utan húss og innan, og með smekkvísi sinni hafði honum tekist að breiða yfir þótt naumt væri skammtað til húsabóta. Hann þoldi engan sóðaskap né ósnyrtimennsku, og sjálfrátt eða ósjálfrátt lærðu nemendur af honum að vanda umgengni sína[...]“ (Steindór Steindórsson 1982:97-98). Stefán Stefánsson stóð einnig fyrir því, að lóð skólans var stækkuð, hann tók land á erfðafestu allt vestur og upp að Þórunnarstræti. Skömmu fyrir andlátið seldi hann Júníusi Jónssyni húsverði skólans túnspilduna, en hann hugðist reisa þar íbúðarhús. Nýr skólameistari, Sigurður Guðmundsson, var ekki alls kostar sáttur við þetta og taldi þessi byggingaráform þrengja að skólanum. Júníus seldi skólanum spilduna aftur en byggði hús austan Eyrarlandsvegar, nánar tiltekið húsið Eyrarlandsveg 29. Sigurður Guðmundsson var heldur ekki hrifinn af því, að byggja ætti austan Eyrarlandsvegar og átti í nokkrum deilum við bæjaryfirvöld þess vegna, enda þótt skipulagsnefnd ríkisins væru á hans máli.

Árið 1922 skoðaði Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, skólabygginguna og gerði í kjölfarið tillögu að endurbótum. Fólust þær m.a. í ýmissi endurnýjun á innra byrði auk þess sem húsið var raflýst og sett í það miðstöðvarhitun. Um 1925 var húsið svo allt bárujárnsklætt að utan og fékk þá það útlit að mestu sem það enn hefur. Að bárujárnsklæðningunni undanskilinni, er húsið að mestu lítt breytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð. Annað, sem heimavistarnemendum hefur eflaust þótt enn meiri bylting var, að um sama leyti voru sett vatnssalerni í kjallara norðurálmu, í stað útikamra. Grípum niður í minningum Steindórs um innanhússkipulag skólahússins árið 1921: „Við 2. bekkingar vorum til húsa í næst innstu stofu á ganginum en þriðju bekkirnir sinn hvoru megin, A-bekkur að framan en B að innan. Ekki var kennt á efri hæðinni. Salurinn einungis notaður til morgunsöngs, söngkennslu og fundarhalda, en norðan við hann var náttúrugripasafn skólans en bókasafn að sunnanverðu. Smíðastofa var í norðurenda kjallara, en borðstofa heimavistar í suðurenda. Í öllum stofum voru kolaofnar, en gaslampar til ljósa í kennslustofum og á göngum“ (Steindór Steindórsson 1982:98). Það er skemmst frá því að segja, að húsið hefur verið notað til kennslu nokkurn veginn óslitið síðastliðna 120 vetur, frá 4. október 1904. Aðeins um nokkurra mánaða skeið á árinu 1940 var ekki unnt að kenna í húsinu þar sem breska setuliðið hafði komið sér fyrir þar. Gerðust menn þá nokkuð smeykir um að þeir myndu í ógáti brenna húsið til kaldra kola og sagt að þeir fleygðu frá sér sígarettustubbum hvar sem þeir stóðu, jafnvel innandyra í timburhúsinu. En staðreyndin var hins vegar sú, að þessi eldhætta var líkast til ekkert minni flestöll þau ár sem heimavist var í húsinu. Gefum Steindóri Steindórssyni orðið: „Herbergin voru hituð með kolaofnum, og urðu nemendur að sjá um, að kol væru fyrir hendi ásamt uppkveikju, þá lögðu þjónustustúlkur heimavistar í ofnana um leið og þær gerðu herbergin hrein á hverjum morgni. Síðan önnuðust nemendur ofnana sjálfir, og er furða að aldrei skyldi slys hljótast af, þar sem fæstir kunnu með ofna að fara. Stundum skall þó hurð nærri hælum, þannig lá við að ofninn hjá Hermanni [Stefánssyni] og Bernharð Laxdal spryngi er þeir skvettu olíu á kolaglóð, til að skerpa á hitanum“ (Steindór Steindórsson 1980:103). Svona lagað mun ekki hafa verið einsdæmi. Raunar logaði eldur stanslaust í Gamla Skóla í 75 ár, eða allt þar til Árni Friðgeirsson ráðsmaður slökkti á olíukyndingu, sem tók við af kolunum um 1950, og hleypti á húsið heitu vatni frá Hitaveitu Akureyrar. Var það 1. október 1979 (sbr. Tryggvi Gíslason 2009: 171). Alla tíð voru menn hins vegar meðvitaður um eldhættu, næturvörður var í húsinu til ársins 1967 en þá var sett í húsið reykskynjarakerfi, beintengt við slökkvilið. Síðar kom fullkomið viðvörunar- og vatnsúðakerfi. Eins og fyrr segir var íbúð skólameistara í húsinu en síðar bjó þar ráðsmaður, téður Árni Friðgeirsson, allt til ársins 1978.

Um fá hús hafa verið ritaðar nákvæmari viðhaldssögur en Gamla Skóla. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru frá fyrstu áratugum hússins en lesendum er bent á mjög ítarlega kafla í tveimur bindum Sögu Menntaskólans á Akureyri. Annars vegar kafli Steindórs Steindórssonar í 1. bindi (bls. 205-234) og Tryggva Gíslasonar í 4. bindi (bls. 169-244). Þess má geta, að sá síðarnefndi tók við embætti skólameistara af hinum fyrrnefnda árið 1972 og gegndi starfinu fram á nýja öld. Þannig er raunar um að ræða frásagnir frá fyrstu hendi, manna sem samanlagt voru viðloðandi þetta hús í meira en 80 ár.

Síðustu áratugi hefur framkvæmdir og viðhald við Gamla Skóla, utan jafnt sem innan, miðað að því að halda sem mest í upprunalega gerð hússins. Árið 1977 var húsið friðlýst af bæjarstjórn Akureyrar, í hópi fyrstu húsa hér í bæ sem friðlýst voru. Var hann friðaður í B-flokki, sem nær til ytra byrðis. Árið 1969 gerði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt (og stórleikari) uppmælingarteikningar að húsinu og hafa síðan verið gerðar á húsinu ýmsar endurbætur, utan jafnt sem innan, sem líklega væri of langt mál að telja upp hér. En húsið hefur hlotið fyrirtaks viðhald í alla staði. Þrátt fyrir ýmsa vankanta, sem töldust á húsinu á upphafsárum var það engu að síður svo, að um 1970 var það með öllu fúalaust (sbr. Steindór Steindórsson 1980: 211) og því eflaust vel viðað frá upphafi. Sem fyrr segir er enn kennt í Gamla Skóla og þar er einnig kaffistofa starfsfólks og skrifstofur. Þess má geta, að þekkt íslenskt orðtak á uppruna sinn í Gamla Skóla. Þannig var mál með vexti, að á skrifstofu skólameistara stendur verklegt hvalbein. Í meistaratíð Sigurðar Guðmundssonar var talað um „að fara á hvalbeinið“ þegar nemendur voru kallaðir til hans, og hann las þeim pistilinn. Þannig er komið máltækið „að taka einhvern á beinið“ (sbr. Steindór Steindórsson 1993:163).

Af öðrum byggingum á lóð Menntaskólans má nefna Fjósið, sem reist var ári síðar en Gamli Skóli, og var frá upphafi íþróttahús og er enn. Heimavistarhús reis norðvestanmegin á lóðinni 1946 og með tilkomu þess var smám saman farið að breyta heimavistarherbergjum í Gamla Skóla í kennslustofur. Möðruvellir, raungreinahús, beint vestur af Gamla Skóla og Fjósi var tekið í notkun 1969. Árið 1996 var nýjasta bygging skólans, Hólar, tekin í notkun en það hús er nokkurn veginn miðsvæðis. Hólar eru nokkurs konar viðbygging við Möðruvelli en tengjast einnig Gamla Skóla gegnum langan gang. Þannig þrengja nýbyggingar hvergi að gamla húsinu enda þótt innangengt sé á milli. Það er óneitanlega viss stemning yfir því, að ganga eftir hörðum dúklögðum gólfum gangsins úr Hólum og stíga yfir á brakandi, dúandi gólf Gamla skóla. Nýjasta viðbótin við húsaþyrpingu á Menntaskólasvæðinu er ný heimavist, sem reist var árin 2002-03 og er sameiginleg fyrir Menntaskólann og Verkmenntaskólann. Þess má geta, að greinarhöfundur var einmitt í hópi nemenda, sem fylgdust með þáverandi bæjarstjóra, Kristjáni Þór Júlíussyni, taka fyrstu skóflustungu af þeirri byggingu, 2. maí 2002. Fengu þá allir að fara úr tímum að fylgjast með og var greinarhöfundur einmitt í dönskutíma í Gamla Skóla; nánar tiltekið nyrst í kjallara þar sem heitir G1 (sú stofa mun upprunalega hafa verið smíðastofa).

Húsið er sem fyrr segir friðlýst og hlýtur hæsta mögulega varðveislugildi í Húsakönnunn 2016 eða 8. stig, sem friðlýst bygging. Þar fær Gamli Skóli umsögnina: „Einstakt hús sem hefur mjög hátt varðveislugildi vegna aldurs, byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar“ (Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:49). Um gildi Gamla Skóla fyrir umhverfi sitt eða sögu bæjarins þarf vart að fjölyrða. Um er að ræða eitt stærsta og skrautlegasta timburhús bæjarins, mikið kennileiti sem sést langt að og er samofið sögu virtrar menntastofnunar. Þegar þetta er ritað eru liðin rétt 120 ár frá því að lokið var við teikningar hússins og næstkomandi haust verður það 121. sem nemendur setjast þar á skólabekk. Hversu mjög sem samfélagið og tæknin gerbreytist stendur sumt hið gamla ÁVALLT fyrir sínu með glæsibrag. Þar á meðal er hið aldna og glæsta skólahús á Syðri Brekkunni. Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. júní 2020 og 15. apríl 2024.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 267, 11. maí 1911. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1900-09. Fundur nr. 894, 22. sept. 1903. Fundur nr. 911, 10. maí 1904. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a25_5?fr=sZTFmMTQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.).2003. Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Steindór Steindórsson. Gagnfræðaskólinn á Akureyri 1902-1930; Hús skólans og lóð. Í Gísli Jónsson (ritstj.). 1980. Saga Menntaskólans á Akureyrar 1. bindi. (bls. 205-234) Menntaskólinn á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1982. Sól ég sá. Sjálfsævisaga Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Tryggvi Gíslason. Hús skólans. Í Jón Hjaltason (ritstj.) 2009. Saga Menntaskólans á Akureyri 4. bindi. (bls. 169-244) Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólann á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00