Fara í efni
Pistlar

Hinar aðskiljanlegustu náttúrur reynitrjáa

Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum. 
_ _ _

TRÉ VIKUNNAR - I

Öldum saman hefur fólk talið að náttúran búi yfir fjölbreyttum teiknum og stórmerkjum. Svo virðist vera sem reynitré, Sorbus aucuparia, skipi þar eins konar heiðurssess. Á tegundinni hefur lengi verið allskonar átrúnaður, bæði hérlendis og erlendis. Fólk hefur tengt hann við hvers kyns hindurvitni af óvenjumiklum dugnaði og natni víða um Evrópu. Að auki er reynirinn ein af örfáum trjátegundum sem talið er að hafi vaxið á Íslandi við landnám. Því kemur ekki á óvart að reynirinn kemur víða við í varðveittum sögum hér á landi. Í þessum pistli skoðum við nokkrar heimildir um þetta stórmerkilega töfratré og notkun þess og tengsl við andaheima.

Ungar reyniplöntur í uppeldi í Sólskógum. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Björg Þórs

Á íslensku heitir þetta tré reynir, reyniviður eða ilmreynir. Nafnið vísar án efa í hinn rauða lit og hefur fyrr á öldum verið kallað reyðnir. Þennan orðstofn má enn sjá í færeysku þar sem hægt er að fá aðstoð frá Reyðikrossinum ef menn hafa drukkið of mikið reyðivín. Við höfum áður sagt frá þessu eins og lesa má um hér. Þetta heiti sýnir ágæta náttúru- og sögugreind forfeðra okkar sem ekki gengu fáfróðir um skóla lífsins.

Þrumuguðinn Þór. Auðvitað ber að tengja hann hinum rauða lit frekar en til dæmis grændndóttur, svo dæmi seé tekið af algeru handahófi.

Rauði liturinn vísar bæði í haustliti reynisins og blóðrauð berin. Að auki vísar það í forna kenningu um goðið Þór sem sjaldan þurfti á hjálp að halda. Þó varð það honum til happs, er hann féll í straumþunga á í baráttu sinni við tröll, að hann greip um grein á reynitré sem óx á árbakkanum. Með aðstoð hennar hafði hann sig upp. Samkvæmt Skáldskaparannál í Eddu Snorra Sturlusonar var þetta áin Vimur en hún er allra áa mest eins og kunnugt er. Reynirinn er því nefndur björg Þórs. Auðvitað var ekkert annað tré sem kom til greina en hið rauða tré. Svona segir Snorri frá þessu: „Ok í því bili bar hann at landi ok fekk tekit reynirunn nökkurn ok steig svá ór ánni. Því er það orðtak haft, at reynir er björg Þórs.“ (Snorri Sturluson án ártals).

Áberandi reynir, eða reyðnir, þann 15. september 2018. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Sú trú var á reynivið í Skotlandi og víðar um Bretlandseyjar, að hann var talinn öruggt skjól í þrumuveðrum. Almennt er ekki heppilegt að leita skjóls undir trjám við slíkar aðstæður. Öðru máli gegnir um reynitré, ef marka má þjóðtrúna. Þar sem Þór er það goð sem hefur þrumur og eldingar á valdi sínu og hefur auk þess sérstakt dálæti á reynitrjám er talið öruggt að halda sig undir þeim í slíkum gjörningaveðrum. Það var varla við því að búast að sjálfur eldingameistarinn legði það á sín uppáhalds tré að verða fyrir eldingum. (Simon Wills 2018). Ekki hefur þeim er þetta ritað fundið heimildir um samsvarandi trú á Íslandi. Má vera að hvorki reynitré né eldingar séu nægilega algeng til að trúin hafi skotið hér rótum.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30