Fara í efni
Pistlar

Gleymda kjarabótin

Ég hef alltaf haft lítið vit á bílum svo ekki sé meira sagt og fór fyrst að pæla aðeins í þeim þegar ný tækni fór að taka við af gamla olíubílnum. Fram að því var hann þarna og maður keyrði eitthvað og keypti sér notaðar beyglur og spurði misgáfulegra spurninga um tímareim og smurbók. Eitt hef ég þó lært um bíla, þeir eru ansi frekir á krónur úr veskinu.

Flestir taka lán fyrir tveimur hlutum í lífinu; húsnæði og bíl. Og Íslendingar þekkja það líklega best allra að skuld við lánastofnun er allt annað en lán, frekar ólán. Við höfum fáa möguleika varðandi húsnæðisliðinn. Spurning snýst um húsnæðistegundina en ekki hvort við búum undir berum himni, í tjaldi, hjólhýsi eða sumarbústað. Hvað bílinn snertir höfum við hins vegar ýmsa möguleika til að draga úr fjárfestingum og útgjöldum enda mun einfaldari þjónusta sem hann veitir heldur en húsnæði.

En bíllinn er ekki bara þung fjárfesting fyrir heimilin, hann er frekur á peninga og pláss í öllu kerfinu. Við notum mikið af auðlindum fyrir samgöngur á bíl, endanlega orkuauðlind, jarðefni og olíu í fyllingar og malbik fyrir götur og bílastæði, málma og plast í götuljós, stór og dýr tæki í snjómokstur og þrif og margt fleira; neikvæð umhverfisáhrif bílsins eru svo sannarlega ekki takmörkuð við það sem kemur út úr púströrinu. Og neikvæð áhrif á hagkerfið eru ekki bara bundin við veski einstaklinga. Bæjarfélög og ríki taka líka (ó)lán vegna bílsins.

Ég er hættur að bíða eftir byltingu en mér þætti samt hressandi að sjá eitthvað sem líkist framförum og úrbótum; stórum sem smáum. Að mínu mati er meðvirknin með bílnum of mikil. Við horfum meira að segja upp á lögbrot í umferðinni á hverjum degi, það eitt ætti að duga til að fara í alvöru aðgerðir:

  1. Hraðatakmörk eru ekki virt.
  2. Bílar í lausagangi. Líka fyrir utan Vínbúðina, Kaupang og við grenndargáma (á Akureyri eru alltaf fleiri bílar í gangi en fólk á gangi).
  3. Símann á lofti við stýrið.
  4. Bílnum lagt hvar sem er.

Ég geri mér grein fyrir að breytingin verður hægfara og langdregin því bílar eins og plastpokar endast mjög lengi. Og af því að við búum á þessu landi allra veðra verðum við að nálgast samgöngur með sveigjanlegum hætti. Best er að ganga, og það er hægt lungann úr árinu; innan við hálftíma gangur í flest allt á Akureyri. Næst best er að hjóla, og helst með hjálp rafmótors, bærinn er einfaldlega þannig í laginu. Þar á eftir kemur strætó eða leigubíll og að fara samferða í einkabílnum. En mikið er samt gott að hafa aðgang að bíl – helst metanbíl eða rafbíl og hann má alveg vera fjórhjóladrifinn. Ekki þarf að hafa áhyggjur af drægninni þar sem yfir 90 prósent ferða er snatt innanbæjar og það er hægt að leigja bíl til langferða enda er kjörlendi bílsins á vegum úti.

Bíllinn er gleymda kjarabótin, sestu niður með sjálfum þér og náðu góðum samningi um að lækka útgjöld vegna bílsins.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00