Fara í efni
Pistlar

Framtíðin er björt

VEIÐI –

Áhyggjur mínar tengdar því að stangveiði myndi leggjast af þegar ég og mín kynslóð yrðum öll dvínuðu verulega eftir að ég spjallaði við ungan veiðimann á dögunum.

Benjamín Þorri Bergsson er 15 ára nemandi í Brekkuskóla á Akureyri. Hann spilar handbolta með KA en notar síðan allar lausar stundir til að fara að veiða. Hann var ungur að árum þegar hann kynntist veiðiskapnum og fór gjarnan að veiða með móðurbróður sínum og frænda. Þá bauð afi hans honum í veiði á bændadögum í Eyjafjarðará. Eftir þetta var ekki aftur snúið og veiðigyðjan tók öll völd.

Aðspurður finnst honum flest skemmtilegt við veiðiskapinn og nefnir í því sambandi að vera úti í náttúrinni, upplifuninna þegar fiskurinn tekur og félagsskapinn.

Benjamín Þorri veiðir mest í Eyjafjarðará en segist einnig heimsækja aðrar ár í nágrenninu eins og Hörgá, Fnjóská og Laxá í Þingeyjarsýslu. Þá hafa Mýrarkvísl, Brunná og Elliðaárnar einnig verið heimsóttar.

Bleikjuveiði er í uppáhaldi hjá Benjamín, hann veiðir eingöngu á flugu og segist veiða mest andstreymis með kúluhausum. Flugur Gylfa afa hans sem var kunnur fluguhnýtari eru í uppáhaldi og nefnir hann í því sambandi Krókinn, Mýsluna, Beyglu og Beyki. Pilturinn hefur líka reynt fyrir sér í laxveiði og fékk maríulaxinn sinn í fyrra í Mýrarkvísl.

Benjamín segir Eyjafjarðará vera í uppáhaldi og vera sinn heimavöll í veiðinni en honum finnist líka gaman að prófa nýjar ár. Eftirminnilegasta veiðiferðin var einmitt í Eyjafjarðará þar sem hann náði 70 sm bleikju eftir mikinn eltingarleik. Þeirri bleikju gleymir hann seint og ekki margir sem eru svo heppnir að ná risableikju sem þessari.

En veiðisportið er dýrt, hvernig skyldi 15 ára piltur fjármagna áhugamálið sitt? Benjamín svarar því til að hann fái veiðileyfi í afmælis- og jólagjafir. Þá sé hann aðeins byrjaður að hnýta flugur og selja. Þá segir hann foreldra sína styðja sig og sumarvinnulaunin fari að drjúgum hluta í veiðileyfakaup.

En skyldu vera mörg ungmenni sem hafa þetta skemmtilega áhugamál hans Benjamíns? Hann segir að hann þekki ekki marga á sínum aldri sem stunda stangveiði en nefnir vin sinn og jafnaldra Eyþór og bróður hans Ívar sem er tveimur árum yngri og þeir þrír veiði mikið saman. En Benjamín er tilbúinn að breiða út boðskapinn. Nýlega byrjaði hann í stjórn ungliðastarfs Stangveiðifélag Reykjavíkur þar sem hann ásamt fleirum skipuleggur veiðiferðir og viðburði fyrir ungt veiðifólk. Hann segist mjög spenntur fyrir þessu starfi og hefur þegar fengið fyrirspurn um að taka að sér ungliðastarf hér norðan heiða einnig.

Veiðiplön sumarsins eru líka klár hjá stráknum. Benjamín ætlar að einbeita sér að silungnum og setur stefnuna á að fjölga ferðum sínum í Laxá í Aðaldal og Hörgá. Laxárdalurinn er líka á áætlun. Þá ætlar hann að prófa ný veiðisvæði í sumar eins og áður og að þessu sinni varð fyrir valinu Gljúfurá í Borgarfirði. En eins og fyrr segir, Eyjafjarðará er hans heimavöllur og þar býst hann við að eyða mestum tíma í sumar.

Ég þakka Benjamín fyrir skemmtilegt spjall og megi hann og félagar hans eiga eftirminnilegar stundir á veiðibakkanum í sumar.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar. 

Benjamín með flotta bleikju úr Eyjafjarðará.

Með fallegan sjóbirting af svæði 1 í Eyjafjarðará.

Tveir pattaralegir urriðar úr Laxá í Þingeyjarsýslu.

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30