Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur

GERVIGREIND - 16
Goðsögnin sem lamar umræðuna
Þegar við heyrum orðið „gervigreind“ er næsta víst að hugurinn leitar í myrkraheima Hollywood. Við sjáum fyrir okkur Skynet úr Terminator-myndunum, tölvuna HAL 9000 sem snerist gegn áhöfn sinni, eða jafnvel vinalegri en samt yfirnáttúrulegar verur sem búa yfir sjálfstæðum vilja.
Þessi goðsagnakenndi hjúpur, spunninn úr áratuga vísindaskáldskap og markvissri markaðssetningu tæknirisa, er í dag ein stærsta hindrunin í vegi fyrir raunverulegum skilningi á þeirri byltingu sem nú á sér stað. Hann ýtir undir óþarfa ótta annars vegar og illa undirbyggða ofurtrú hins vegar. Vandamálið er ekki tæknin sjálf, heldur nafnið sem við gáfum henni. Og það er kominn tími til að kalla hlutina réttum nöfnum.
Verksmiðjan afhjúpuð
Gleymum goðsögninni um stund og notum frekar nákvæmari og jarðbundnari samlíkingu: Upplýsingaverksmiðjur.
Hvað er upplýsingaverksmiðja? Ímyndið ykkur risavaxna verksmiðju sem notar ekki málmgrýti eða timbur, heldur allan opna vefinn, milljónir bóka og vísindagreina sem hráefni. Inni í þessari verksmiðju fer ekki fram hugsun eða skilningur, heldur ótrúlega flókin tölfræðileg mynsturgreining á ógnarhraða. Vélin lærir á sambandið milli orða og púslar þeim saman á líklegan hátt.
Afurðin er ekki sannleikur eða viska, heldur fjöldaframleidd upplýsingavara: texti, tölvukóði, myndir. Eins og í öllum verksmiðjum verða til gallaðar vörur, í þessu tilfelli „ofsjónir“ eða rangfærslur. Hér liggur stærsta breytingin: ábyrgðin á gæðastjórnun hefur verið færð yfir á okkur, notendurna. Við erum orðin eins og „samskeytarar“ við enda færibandsins, sem þurfum að gæðastýra og setja vöruna saman á ábyrgan hátt.
Hvers vegna skiptir þessi orðnotkun máli?
Að tileinka sér þessa orðnotkun og í kjölfarið viðeigandi hugsun hefur fjórar afgerandi afleiðingar.
- Í fyrsta lagi rjúfum við goðsagnahjúpinn af tækninni. Óttinn við „ofurgreind“ minnkar þegar við skiljum að við erum að eiga við öflugt iðnaðartæki, ekki nýtt lífsform. Samtalið verður jarðbundnara.
- Í öðru lagi skýrir það ábyrgð. Við hættum að spyrja „hvað vill gervigreindin?“ og byrjum að spyrja réttu spurninganna: Hver eiga verksmiðjurnar? Hver setja reglurnar um framleiðsluna? Hver græða? Ábyrgðin er ekki hjá óljósu „skýi“ heldur hjá raunverulegum fyrirtækjum og fólki.
- Í þriðja lagi styrkir það okkur sem notendur. Þegar við skiljum að við erum ekki að tala við veru með meðvitund, heldur að sækja vöru úr verksmiðju, verðum við gagnrýnni. Í stað þess að spyrja „hvað telur gervigreindin?“ byrjum við að spyrja „hvað kemur af færibandinu í þessari verksmiðju ef ég set þetta hráefni inn?“ Við skiljum að okkar hlutverk er að efast, yfirfara og taka ábyrgð.
- Síðast en ekki síst, þá hjálpar verksmiðjusamlíkingin okkur að sjá stóru, pólitísku myndina. Heimurinn er með ógnarhraða að verða háður afurðum frá örfáum risastórum upplýsingaverksmiðjum, sem allar eru í eigu erlendra stórfyrirtækja. Hér tengist þessi umræða við það sem ég hef áður fjallað um í pistlaröð hér á Akureyri.net. Til að tryggja stafrænt fullveldi og tungu okkar, er íslensk upplýsingaverksmiðja—þjálfuð á okkar gögnum og í takt við okkar samfélagslegu gildi—ekki lengur valkostur, heldur þjóðaröryggismál. Ef rekstur íslenskra fyrirtækja, skóla og stofnana verður alfarið háður þjónustu frá þessum fáu erlendu risum getur það ekki boðað gott fyrir framtíðina.
Að vinna með verkfæri, ekki vofur
Áður en við sem samfélag hér á Akureyri og um allt land getum tekið upplýsta afstöðu til þeirra gríðarlegu breytinga sem eru fram undan verðum við að vera sammála um hvað við erum að tala. Fyrsta skrefið í átt að vitrænni framtíð er ekki að óttast vélarnar eða tilbiðja þær, heldur einfaldlega að kalla þær sínu rétta nafni.
Magnús Smári Smárason er verkefnastjóri gervigreindar við Háskólann á Akureyri


Leynimakk í dúkkuhúsi

Að vera öðruvísi

Þessi þjóð er fitusprengd

Þegar ég var hugguleg stúlka
