Fara í efni
Pistlar

Að viðhalda neistanum

Á þessu ári er ég búin að vera í sambandi við manninn minn í 25 ár, þar af höfum við verið gift í 23 ár. Ég þekki fullt af fólki sem hefur átt svona löng sambönd og ennþá lengri en veit fyrir víst að sambönd endast ekki svona nema báðir aðilar leggi sitt af mörkum og viðhaldi í sameiningu neistanum sem kveikti bálið upphaflega. Einstaka sinnum á þessum 25 árum hefur legið illa á mér varðandi þetta. Mér hefur þá fundist ég vera ein um að koma með hugmyndir til að viðhalda nándinni. Maður á náttúrulega ekki að viðurkenna svona á prenti en ég hef sent mínum manni tóninn, talið upp allt það rómantíska sem ég man eftir að hafa gert og endað romsuna með spurningu um hvert sé hans framlag. Með áherslu á orðið framlag!? Þá hugsar hann sig lengi um og kemur að endingu með það sem hann telur vera spaðaásinn í þessu spili „ég þríf nú stundum bílinn þinn!“

Um það leyti sem við kynntumst árið 1995 kom út bók sem heitir „Karlar eru frá Mars konur eru frá Venus“. Ég las nú aldrei þessa bók spjaldanna á milli en hún var svo mikið í umræðunni að maður komst ekki hjá því að kynnast henni efnislega. Í grófum dráttum fjallar hún um samskipti kynjanna og hvernig þau horfa ólíkum augum á sambönd. Þessi bók er náttúrulega orðin gjörsamlega úrelt í ljósi þess hve kynin eru orðin mörg. Það eru ekki einu sinni til nógu margar plánetur í okkar sólarkerfi til að nefna kyn nútímans eftir. En mér hefur þótt lúmskur sannleikur í því sem þarna kemur fram. Einstaklingar horfa ólíkum augum á hvað þarf til að viðhalda góðu sambandi – burtséð frá því af hvaða kyni þeir eru.

Við hjónakornin erum að prófa nýjan leik sem tekur átta vikur og gengur út á algjört jafnræði. Leikurinn er þannig að hvort um sig skrifaði á miða fjórar hugmyndir að samveru sem skapar nánd og tekur ekki nema tvær klukkustundir í hvert sinn. Miðarnir fóru í krukku og á sunnudagskvöldum er hátíðleg stund þegar dreginn er miði fyrir komandi viku. Leikurinn hefur staðið í tvær vikur og báðir miðarnir hafa komið frá honum. Báðir snúast þeir um að fá sér göngutúr og stoppa til að borða eitthvað. Ég get ekki verið að ergja mig á því að þetta sé einhæft, þetta eru hans hugmyndir um rómantík og vitur maður sagði eitt sinn „leiðin að hjarta mannsins er í gegnum magann“. Það á eftir að koma í ljós hvort mínir miðar séu fjölbreyttari en ég er alveg jafn sek og hann um það að skrifa niður það sem mér finnst rómantískt. Ekki hugsa hvað honum gæti þótt rómantískt. Það hefði verið góð hugmynd að skrifa á einn miðann „þrífa bílinn saman“. Ég er viss um að það hefði slegið í gegn.

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni“

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30