Fara í efni
Fréttir

Vilhelm senn tilbúinn til siglingar heim

Vilhelm Þorsteinsson við bryggju í Skagen í morgun. Ljósmynd: N4

Nýtt skip Samherja, Vilhelm Þorsteinson EA, verður senn tilbúið til heimferðar frá Skagen í Danmörku, þar sem starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar Karstensens eru að leggja lokahönd á verkið. Skrokkur hins nýja Vilhelms var smíðaður í stöð Karstensens í Gdynia í Póllandi. Skipið var sjósett þar í júní á síðasta ári, dregið til Skagen og smíðin kláruð þar.

„Skipið er gríðarlega fullkomið, allur búnaður er einstaklega góður, bæði hvað varðar vinnuaðstöðu og aðbúnað skipverja,“ segir Karl Eskil Pálsson dagskrárgerðarmaður hjá N4, á vef stöðvarinnar í morgun, en hann er í Skagen ásamt Árna Rúnari Hrólfssyni kvikmyndatökumanni. 

Vegna sóttvarnarreglna verður ekki hægt að bjóða almenningi að skoða skipið þegar það kemur til heimahafnar eins og venja er. Þess vegna voru starfsmenn N4 fengnir til að sigla með skipinu heim og gera þátt þar sem sjónvarpsáhorfendum verður boðið að ganga um borð, heima í stofu fljótlega eftir að skipið kemur til heimahafnar.

„Hérna um borð er sannarlega margt skemmtilegt og upplýsandi að sjá, enda ekki á hverjum degi sem svona fullkomið skip bætist í flotann. Brúin er til dæmis 150 fermetrar og hátæknin í hverju horni. Það er ekkert nema tilhlökkun að sigla með skipinu upp til Íslands og sýna landsmönnum afraksturinn. Á þessum tímapunkti er ekki alveg klárt hvenær við leggjum af stað en skipið er svo að segja rétt að verða tilbúið til heimsiglingar, það er ekki mikið eftir. Á morgun verður farið í reynslusiglingu og veiðarfæri prófuð, sem er hluti af öllu ferlinu,“ segir Karl Eskil á vef N4 í morgun.

Vefur N4