Fara í efni
Fréttir

Samherji eignast 49% í norsku lýsisfyrirtæki

Ståle Berg, forstjóri Berg LipidTech AS og Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja hf., í verksmiðju Berg LipidTech í Eidsnes við Álasund. Mynd af vef Samherja: Kristin Stoylen.

Samherji hefur gengið frá kaupum á 49% eignarhlut í norska fyrirtækinu Berg LipidTech AS í Álasundi sem framleiðir lýsi fyrir heildsölumarkað, einkum úr þorskalifur og laxi, og selur afurðir sínar um allan heim. Samherja eignast um leið kauprétt á eftirstandandi hlutafé félagsins. Greint er frá tíðindunum á vef Samherja í dag.

„Kaupin skapa tækifæri til frekari fullvinnslu aukaafurða Samherja samhliða því að efla samkeppnishæfni Berg LipidTech í gegnum stöðugra framboð á gæðahráefni. Með fjárfestingunni kemst Samherji lengra í virðiskeðju sjávarútvegsins,“ segir í tilkynningu á vef Samherja.

Styður vel við núverandi rekstur

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja, segir að fjárfestingin í Berg LipidTech AS falli vel að starfsemi Samherja.

„Við sjáum mikil tækifæri í þessari fjárfestingu. Það hefur verið stefna Samherja að hámarka verðmætasköpun úr því hráefni sem fellur til í okkar rekstri. Við sjáum fyrir okkur að þessi fjárfesting muni styðja við þá vegferð enda er aukin alþjóðleg eftirspurn eftir afurðum úr fiskiolíum með háu Omega-3 innihaldi. Við teljum að Berg LipidTech hafi svigrúm til umtalsverðs vaxtar enda býr félagið að tæknivæddri aðstöðu til framleiðslu og reyndu og hæfileikaríku starfsfólki sem við hlökkum til samstarfs við,“ segir Baldvin á vef Samherja.

Rótgróið fjölskyldufyrirtæki

„Berg LipidTech AS er rótgróið fjölskyldufyrirtæki í Álasundi sem er hjarta nýsköpunar og skipasmíða í norskum sjávarútvegi,“ segir í tilkynningunni. „Félagið var stofnað 1993 og býr því að áratugareynslu í sinni grein. Berg LipidTech AS framleiðir meðal annars lýsi og aðrar fiskiolíur úr þorski, ufsa, laxi, túnfiski og ansjósum. Hefur félagið fest sig í sessi sem áreiðanlegur birgir á heildsölumarkaði fyrir framleiðendur fæðubótarefnis.“

Núverandi eigendur og helstu stjórnendur Berg LipidTech AS munu starfa áfram hjá félaginu og verða starfsstöðvar þess óbreyttar, að því er segir í tilkynningunni. Samherji sem minnihlutaeigandi muni tilnefna stjórnarmenn og veita stjórnendum stuðning við uppbyggingu félagsins og að unnið verður eftir sameiginlegri viðskiptaáætlun sem grundvallist á því að nýta styrkleika félagsins til frekari vaxtar og uppbyggingar.

Ståle Berg, forstjóri Berg LipidTech AS, segir að fjárfestingin og samstarf félaganna passi afar vel vegna þeirra afurða sem þau framleiði.

„Samherji er sterkt og reynslumikið félag í sjávarútvegi. Aðgangur félagsins að mikilvægum hráefnum mun tryggja okkur lóðrétta samþættingu sem er ekki dæmigerð hjá fyrirtækjum í okkar atvinnugrein. Þetta samstarf mun skapa ný tækifæri fyrir áframhaldandi vöxt og þróun,“ segir Ståle Berg.