Fréttir
Þjóðmál heiðruðu Þorstein Má
10.12.2025 kl. 14:00
Sigurður Sævar Magnúsarson listmálari og Þorsteinn Már Baldvinsson afhjúpa málverk af þeim síðarnefnda. Myndir: Þjóðmál/Kristinn Magnússon
Þorsteinn Már Baldvinsson, stofnandi og forstjóri Samherja til ríflega 40 ára, hlaut heiðursverðlaun Þjóðmála þegar þau voru veitt þriðja sinni við hátíðlega athöfn á dögunum. Þjóðmál er vinsælt hlaðvarp þar sem einkum er fjallað um stjórnmál og viðskipti.
Gísli Freyr Valdórsson eigandi Þjóðmála sem afhenti Þorsteini Má verðlaunin og þeim fylgdi portret-málverk af Þorsteini sem listamaðurinn Sigurður Sævar Magnúsarson hafði málað.
Verðlaunin eru veitt Þorsteini „fyrir ævilangt framlag til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og því að hafa verið leiðandi í að koma íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð á alþjóðavettvangi,“ segir á Facebook síðu Þjóðmála. „Samherji hefur leitt þá verðmætasköpun sem orðið hefur til í íslenskum sjávarútvegi og rutt brautina með nýsköpun sem tryggt hefur sífellt meiri nýtingu þess afla sem dreginn er að landi. Auk þess hefur Samherji, undir stjórn Þorsteins Más og öflugs stjórnendateymis, fjárfest verulega í nærsamfélagi Eyjafjarðar – sem hefur ekki aðeins skapað verðmæti fyrir félagið heldur samfélagið allt. Samhliða þessu hefur Þorsteinn Már verið virkur í fjárfestingum í öðrum atvinnugreinum og þannig tekið þátt í íslensku atvinnulífi með margvíslegum hætti.“
Fyrri heiðursverðlaunahafar eru Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar (2023) og Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi Bláa lónsins (2024).

Þorsteinn Már Baldvinsson og Gísli Freyr Valdórsson á hátíðarkvöldi Þjóðmála á dögunum.