Fara í efni
Fréttir

Vilhelm EA fagnað við heimkomu - MYNDIR

Dagný Linda Kristjánsdóttir (Vilhelmssonar Þorsteinssonar) myndar dætur sínar á Togarabryggunni í morgun - þær heita Nína Katrín, Ása Vala og Ólöf Milla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nýtt, glæsilegt skip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, kom til heimahafnar í morgun eftir siglingu frá Skagen í Danmörku þar sem það var smíðað. Skipverjar stigu á land í Krossanesi í gær til þess að fara í seinni sýnatöku vegna Covid-19, Vilhelm hélt síðan frá bryggju á ný og dólaði í grennd við Hrísey þar til í morgun að hann sigldi fánum skrýddur inn á Poll en lagðist að Togarabryggjunni klukkan rétt rúmlega 10.

Töluverður fjöldi fólks tók á móti skipinu, í 10 stiga hita, sól en stífri sunnanátt. Vegna samkomutakmarkana er ekki hægt að sýna skipið almenningi en sjónvarpsstöðin N4 sýnir þátt um skipið að kvöldi annars í páskum klukkan 20:00.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sigldi með skipinu heim en aðrir stjórnendur fyrirtækisins héldu um borð ásamt fáeinum öðrum. Í þeim hópi var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sem færði skipstjórunum Guðmundi Þ. Jónssyni og Birki Hreinssyni, blómvönd.

Stórt – glæsilegt – fullkomið

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 er stórt, glæsilegt og fullkomið skip, eins og það er orðað á heimasíðu Samherju. Það er 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn verður kældur niður til að sem best hráefni komi að landi, en Vilhelm verður notaður til uppsjávarveiða.

Karstensens skipasmíðastöðin í Skagen Danmörku hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið. Beðið hefur verið eftir skipinu með nokkurri eftirvæntingu en samningar um smíði þess voru undirritaðir 4. september 2018. Þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysir af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Smellið hér til að lesa nánar um Vilhelm Þorsteinsson EA á heimasíðu Samherja