Fara í efni
Fréttir

Þorsteinn gefur kost á sér í 3. sæti

Þorsteinn Kristjánsson hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Þorsteinn er 29 ára Akureyringur. „Hann er menntaður stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með viðbótardiplóma gráðu í opinberri stjórnsýslu. Þorsteinn er einn eigenda nýsköpunarfyrirtækisins Quality Console sem sérhæfir sig í gæðalausnum fyrir matvælafyrirtæki.,“ segir í tilkynningu frá honum.
 
Þorsteinn er í sambúð með Söru Mist Gautadóttur, yfirnæringarfræðingi á SAk og eiga þau eina dóttur, Þórdísi Evu. Hann segir í tilkynningu:
 

„Á Akureyri eru ótal tækifæri til að gera frábæran bæ enn betri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu náð markverðum árangri í að bæta lífsgæði bæjarbúa. Þar vil ég sérstaklega nefna leikskólamálin þar sem tekist hefur að þjóna barnafjölskyldum betur en áður og gefa ungu fólki betri tækifæri til að snúa aftur heim til Akureyrar og setjast hér að. Stoðir menntunar og menningar eru traustar á Akureyri og við höfum einnig byggt upp frábæra aðstöðu til tómstunda og íþróttaiðkunar.

Það skortir þó vissulega ekki verkefnin til að vinna að. Sterkt og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytta og góða þjónustu við íbúana, um leið og tryggt er að álögur á íbúa og fyrirtæki séu í lágmarki. Það er ein frumskylda kjörinna fulltrúa að hlúa að atvinnulífi bæjarins; styðja við þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf, ryðja hindrunum úr vegi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stuðla að vexti nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Þannig leggjum við grunn að enn öflugra samfélagi með tækifærum fyrir alla, þar sem listir, menning og menntun blómstra.

Í stjórnmálum er nauðsynlegt að lofta út annað slagið. Tryggja jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð. Það verður best gert með því að treysta ungu fólki fyrir vandasömum verkefnum og móta framtíð samfélagsins með beinum hætti. Rödd þess þarf að heyrast, ekki bara í lokuðum hópum heldur einmitt þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð okkar og fjölskyldna okkar.

Ég er stoltur af bænum okkar og er reiðubúinn að axla þá ábyrgð að vinna að framfaramálum og móta framtíðina í þágu allra bæjarbúa.“