Fara í efni
Fréttir

Samfylking: Sindri gefur kost á sér í 1. sæti

Sindri S. Kristjánsson, skrifstofustjóri og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, tilkynnti í dag að hann gæfi kost á sér til leiða lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar sem fram fara 16. maí í vor.

Í tilkynningu leggur Sindri áherslu á að efla tækifæri ungs fólks í bænum, bæði til menntunar og atvinnu, að listir og menning verði sett aftur á dagskrá bæjarstjórnar með áherslu á grasrótarstarf, að tekið verði á starfsaðstæðum í leik- og grunnskólum bæjarins ásamt því að bæjarstjórn leggi raunverulega við hlustir í samtölum við eldri Akureyringa. Samráð við bæjarbúa er Sindra einnig hugleikið ásamt því að bæjarstjórn taki þátt í því að gera áfangastaðnum Akureyri hærra undir höfði, bæði fyrir innlenda sem erlenda gesti.

„Ég gef kost á mér að leiða lista jafnaðarfólks í bænum með einlægni, heiðarleika og samkennd að leiðarljósi. Bæjarstjórn Akureyrar á að vera bæjarstjórn allra bæjarbúa. Hafandi starfað við bæjarmálin nú að verða rúmlega fimm ár tel ég mig hafa réttu blönduna af reynslu og eldmóð til að gera góðan bæ enn betri,“ sagði Sindri við akureyri.net.

Fyrr í dag var tilkynnt að samþykkt hefði verið á félagsfundi Samfylkingarinnar á Akureyri að stilla upp á lista flokksins fyrir kosningarnar.

Sindri birti stutt myndband á Facebook síðu sinni – sjá hér.