Fara í efni
Fréttir

Lovísa Oktovía vill efsta sæti hjá Viðreisn

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir tilkynnti í kvöld að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram í oddvitasæti á lista Viðreisnar fyrir kosningarnar til bæjarstjórnar Akureyrar í vor.

Lovísa birti eftirfarandi tilkynningu á Facebook síðu sinni:

Kæru vinir!
 
Ég tilkynni hér með framboð mitt til oddvita Viðreisnar á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 16. maí næstkomandi.
 
Fyrir tíu árum flutti ég aftur heim til Akureyrar eftir háskólaár í Reykjavík og Englandi. Það átti að vera tímabundið. Heimurinn beið. En mánuðir urðu að árum og nú eru ár orðin að áratug.
 
Árið 2016 sá ég smábæinn Akureyri. Sem ung kona sá ég bara bæinn sem ég ólst upp í og fannst lítið hafa breyst. Strætó var vissulega ekki lengur grænn heldur gulur og Síðubúð farin, en annars upplifði ég það sem margir gera þegar þeir snúa heim: flóð af minningum en enga framtíð.
 
Þennan áratug hef ég nýtt vel. Starfað hjá nokkrum fyrirtækjum hér og þekki vel þann mannauð sem Akureyri býr yfir. Ég kenni unglingum í grunnskóla, hef eignast börn, keypt íbúð og lokið námi í mannauðsstjórnun. Nú er ég á lokametrunum í kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri. Á sama tíma hefur Akureyri byggst upp en gert það í skugga höfuðborgarsvæðisins.
 
Nú þurfum við að stíga næsta skref.
 
Árið 2026 sé ég svæðisborgina Akureyri. Borg sem verður sterkt og mikilvægt efnahagslegt afl hér á landi og sinnir vel skuldbindingum sínum við íbúa og gesti. Verða fyrirmyndarborg. Til þess þarf skýra forgangsröðun: öfluga grunnþjónustu, forvarnir, gagnsæi, snemmtæka íhlutun og lýðheilsu í forgrunni. Það krefst einnig sterks atvinnulífs. Við erum nú þegar með öflug fyrirtæki og þurfum markvisst að styðja við ný tækifæri og nýsköpun svo Akureyri sé staður þar sem ungt fólk sér sína framtíð.
 
Þann 16. maí kjósa íbúar Akureyrar sína framtíð.
 
Ég hef skýra framtíðarsýn, er stórhuga og hlakka til að takast á við verkefnið sem er framundan.
 
Ég trúi á liðsheild.
 
Vilt þú vera með mér í liði?  Sendu inn þitt framboð á akureyri@vidreisn.is