Fara í efni
Fréttir

VG stillir upp á lista fyrir kosningarnar í vor

Mynd af Facebook síðu VG á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Á almennum félagsfundi hjá svæðisfélagi VG á Akureyri síðastliðinn laugardag var tillaga stjórnar félagsins um að stilla upp á framboðslista hreyfingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 16. maí í vor samþykkt einróma. Fimm voru kjörin í uppstillingarnefnd og hefur nefndin þegar tekið til starfa.
 
„Vinstrihreyfingin grænt framboð er með einn bæjarfulltrúa á Akureyri og í umræðum á fundinum kom glöggt í ljós mikilvægi þess að sjónarmið umhverfisverndar, félagslegs réttlætis og kvenfrelsis muni áfram heyrast í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Framundan eru margvísleg verkefni sem varða framtíðaruppbyggingu Eyjafjarðarsvæðisins og brýnt er að missa ekki sjónar af umhverfisvernd, málefnum barnafólks og aldraðra og öðrum félagslegum þáttum í samfélaginu. Rödd VG er því afar mikilvæg nú sem endranær,“ segir í tilkynningu sem birt var á Facebook síðu Vinstri grænna á Akureyri í kvöld.
 
Þar eru þau sem hafa áhuga á að gefa kost á sér á framboðslista VG á Akureyri hvött til að láta uppstillingarnefnd vita af sér á netfangið vinstriak@gmail.com. Bent er á að nefndin taki einnig við ábendingum.