Þórhallur kærir, krefst prófkjörs og vill 1. sæti
Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hefur ákveðið að gefa kost á sér í efsta sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Hann hyggst kæra til miðstjórnar flokksins hvernig staðið er að málum við val á listann og krefst þess að haldið verði prófkjör.
Samþykkt var í haust að raðað yrði í fjögur efstu sæti listans. Þórhallur tilkynnti í kjölfarið að hann gæfi kost á sér í 2.-3. sæti en segir forsendur hafa gjörbreyst eftir að Berglind Ósk Guðmundsdóttir, formaður fulltrúaráðs flokksins á Akureyri, ákvað að bjóða sig fram í efsta sætið og þau Heimir Örn Árnason, núverandi oddviti og formaður bæjarráðs, mynduðu með sér bandalag; Heimir hafði áður lýst því yfir að hann óskaði áfram eftir efsta sæti og ekki var gert ráð fyrir að aðrir sæktust eftir því. Á dögunum lýstu þau hins vegar yfir stuðningi hvort við annað – Heimir styddi Berglindi í 1. sæti og hún Heimi í 2. sæti.
- Frétt akureyri.net: Berglind oddviti, Heimir í 2. sæti
Trúnaðarbrestur
Þórhallur Jónsson segir að trúnaðarbrestur hafi orðið hjá sjálfstæðismönnum á Akureyri.
„Heimir Árnason, núverandi oddviti ætlar ekki lengur að gefa kost á sér til að leiða listann, en ákveðið hafði verið að fara í röðunarfyrirkomulag þegar útlit var fyrir að hann væri einn í kjöri til oddvita. Þetta var megin forsenda þess að ekki var farið í prófkjör á Akureyri,“ segir Þórhallur Jónsson.
„Eftir að formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sagði af sér formennsku fulltrúaráðs til að gefa kost á sér til að leiða listann og myndaði bandalag við Heimi, fráfarandi oddvita, um að hann tæki annað sætið á lista og eftirléti sér oddvitasætið, án nokkurs samtals við fulltrúaráð né stjórnir Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, sé ég mig knúinn til að gefa kost á mér til að leiða lista flokksins í komandi kosningum,“ segir Þórhallur.
„Aðgengi fráfarandi formanns fulltrúaráðs að kjörskrá umfram aðra frambjóðendur, setur trúverðugleika röðunarfyrirkomulags og kosningar þar um í uppnám. Með framboði mínu skora ég einnig á flokkinn að halda stefnu sinni og hefðum, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi.“