Fara í efni
Minningargreinar

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

­Gerða, mín dýrmæta og yndislega vinkona til margra ára hefur kvatt okkur alltof snemma eftir erfið veikindi, sem er þyngra en tárum taki. Lengi vel hélt maður í vonina um að hún gæti fengið nokkur góð ár til viðbótar með sína bjartsýni, jákvæðni og húmorinn að vopni. Það var ekki ljóst fyrr en eftir síðustu spítalaheimsókn hennar hvert stefndi, en sú dvöl var ekki nema nokkrir dagar. Við kynntumst upphaflega á Akureyri, en við hjónin fluttum þangað 1978. Sveinbjörn hennar maður og Öddi minn fóru að vinna saman og varð okkur strax vel til vina. Sá vinskapur styrktist með árunum og náðum við fljótlega góðu og einlægu vináttusambandi öll fjögur, sem aldrei hefur borið skugga á. Við hjónin fluttum svo aftur til Reykjavíkur 1988, en samgangur okkar minnkaði ekki við það. Við gátum talað um allt og ekkert, leyst heimsmálin, grátið og hlegið saman endalaust, en þó aðallega hlegið og haft gaman. Eins sárt og það er að missa góða vinkonu, þá er það svo dýrmætt að eiga allar þessar góðu minningar með þeim mætu hjónum í gegnum árin, s.s. sumarbústaða- og utanlandsferðir okkar, samvera á Akureyri og í Gljúfraselinu í Reykjavík, þar sem þau hjón gistu alloft hjá okkur, skemmtilegu matarboðin, þar sem eiginmennirnir sáu um eldamennskuna og skiptust á að segja skemmtisögur og Gerða okkar alltaf svo fín og falleg og vel til höfð með sitt bjarta, sjarmerandi bros, skemmtilega húmor og hlátur.

Hún var ekki bara gleðigjafi, hún var líka afspyrnumyndarleg húsmóðir, góð mamma, tengdamamma og amma, prjónandi á barnabörnin, sífellt hugsandi um heilsu og heill dætranna, barnabarna og allrar fjölskyldunnar. Alltaf tilbúin til að hlusta, hlaupa undir bagga, leiðbeina og gefa góð ráð. Missir og sorg þeirra er mikill og sár. Hún átti stóra fjölskyldu og margar vinkonur sem hún hélt mikilli tryggð við og nutu þau öll góðs af gestrisni hennar, hjálpsemi og elskulegheitum. Við hjónin sendum Sveinbirni, dætrunum Villu, Helenu, Höllu Maríu, tengdasonum, barnabörnum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja og vernda þau í sinni miklu sorg og söknuði. Ég þakka minni kæru vinkonu fyrir allt sem hún var og gerði fyrir mig og þá sérstaklega alla umhyggjuna og hlýjuna sem hún sýndi mér í mínum veikindum. Góður guð blessi minningu elsku Gerðu.

Árný og Öddi

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Vilborg Erla Sveinbjörnsdóttir skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Kári Kárason skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Þórhalla L. Guðmundsdóttir skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 06:02

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Halla María Sveinbjörnsdóttir skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 06:01

Heimir Þorleifur Kristinsson

Margrét Guðmundsdóttir og Kristinn Hólm skrifa
12. ágúst 2025 | kl. 12:04