Fara í efni
Minningargreinar

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Elsku dásamlega mamma mín.

Orð fá ekki lýst hversu erfitt það er að setjast niður og skrifa þér bréf, bréf sem þú munt ekki lesa, en orð og minningar sem mig langar að setja á blað. Hvar á ég samt að byrja? Þetta er svo sárt – en á sama tíma er ég svo þakklát fyrir allt sem þú varst mér og mínum. Alla leiðsögnina, ástina, faðmlögin, þolinmæðina, hláturinn, svarta húmorinn, spilin, öll símtölin og samveruna.

Þú varst hrókur alls fagnaðar og ljós í öllum hópum sem þú varst í. Þú varst sterk, jafnvel þegar mótlætið bankaði upp á, og þú passaðir alltaf vel upp á okkur öll. Þú varst límið í fjölskyldunni og það sást best í því hvernig þú elskaðir okkur meira en allt annað.

Ég brosi í gegnum tárin þegar ég hugsa um þig sem svindlara í spilum, með hárbeittan húmor sem fékk marga til að roðna. Þú varst svo falleg, svo mikil smekk kona og skvísa, og allt sem þú gerðir bar með sér fegurð – hvort sem það var handavinna, bakstur eða heimilið sem þú hlúðir að.

Við systur munum halda utan um pabba, eins og þú hefðir óskað. Það verður skrítið og tómlegt að fá ekki lengur símtal eða faðmlag frá þér, en minningin um þig lifir að eilífu í hjörtum okkar.

Góða ferð í sumarlandið, elsku mamma mín. Þar bíður litli bróðir minn þín með opnum örmum, og það er fallegt að hugsa til þess að þið séuð saman á ný.

Það verður sárt að ganga áfram án þín hér við hliðina, en þú ert alltaf með mér í hjartanu. Ég lofa að varðveita það sem þú kenndir mér, að halda fjölskyldunni saman og að miðla ástinni og hlýjunni sem þú gafst okkur.

Takk fyrir að vera mamma mín. Takk fyrir allt sem þú gafst, allt sem þú kenndir og allt sem þú varst.

Ég elska þig að eilífu.

Þín Villa

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Kári Kárason skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Þórhalla L. Guðmundsdóttir skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 06:02

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Halla María Sveinbjörnsdóttir skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 06:01

Heimir Þorleifur Kristinsson

Margrét Guðmundsdóttir og Kristinn Hólm skrifa
12. ágúst 2025 | kl. 12:04

Heimir Þorleifur Kristinsson

Hildur Ýr Kristinsdóttir og Jóhanna Björk Kristinsdóttir skrifa
12. ágúst 2025 | kl. 06:00