Fara í efni
Minningargreinar

Þorgerður K. Jónsdóttir

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég flutti í Teig, eða um tveggja ára. Í raun man ég ekkert eftir mér öðruvísi en með fólkinu í Teigi, þar sleit ég barnsskónum og mun Teigur alltaf eiga stóran hlut í mínu hjarta. Það er ekkert sjálfgefið hversu vel mér var tekið frá byrjun og var amma Gerða þar fremst í flokki ásamt syni sínum, Bigga sem gekk mér í föðurstað. Ég upplifði mig sem part af Teigsfjölskyldunni var elskaður og dáður líkt og aðrir í fjölskyldumeðlimir.

Amma Gerða var hlý kona, hún sá allt það fallega í hlutunum og hún hélt með manni. Hún var hugulsöm, eiginlega svo hugulsöm að stundum þótti manni nóg um, hún brýndi fyrir manni að fara varlega og fara sér ekki á voða. Á uppvaxtarárunum var nú aldeilis gott að hafa slíka ömmu í sínu liði. Aldrei minnist ég þess að hafa farið neitt sérstaklega svangur frá ömmu enda var alltaf nóg að borða hjá henni, þvílíku kræsingarnar. Svo mikið að maður stóð yfirleitt á blístri í hvert skipti sem maður kíkti til hennar. Nú, ef hún var ekki heima þá stalst maður í búrið og eina sem beið manns var valkvíði á hverju skildi byrja.

Amma var næm og sá í gegn um holt og hæðir. Ég get ekki annað en vitnað í atvik sem eru mér enn í dag hulin ráðgáta. Amma notaði þessa ofurkrafta til þess að hjálpa öðrum og hefur hún gert mörg kraftaverk.

Leitin að kanínunni. Ég átti kanínu þegar ég var krakki sem ég hafði alið um veturinn en um vorið smíðaði ég kofa til að geta haft hana úti yfir sumarið. Einn daginn var kanínan horfin og þrátt fyrir mikla leit fannst hún ekki og líða var farið að hausti. Amma sá á mér að ég var eitthvað niðurdreginn og var ekki lengi að veiða upp úr mér hvað væri að og sagði ég henni að kanínan væri týnd. Amma bað mig að koma í bíltúr, keyrði upp að bragga sem stóð þar rétt fyrir ofan og sagði að kanínan væri þarna upp með lækjargilinu. Ég dreif mig út og hljóp með læknum en ekki fann ég kanínuna. Ég fór svekktur til baka og sagði ömmu að hún væri ekki hér. Hún er mikið neðar sagði amma. Hún var í raun rétt sunnan við braggann en ég hafði hlaupið norður fyrir hann og upp eftir.

Ég labba suður af bragganum og viti menn er ekki kanínan 3 metrum fyrir framan mig og á jórtrinu. Kanínan sem ég var búinn að leita að allt sumarið. Þetta var mér algerlega óskiljanlegt og það var ekki möguleiki að amma hefði getað séð kanínuna frá bílnum því hún var ofan í laut. Amma, hvernig fórstu að þessu spurði ég? Já kallinn minn, svona er nú amma þín, var svarið!

Ég bjó einn vetur hjá ömmu og afa. Fyrsta veturinn í framhaldsskóla og fór nú heldur betur vel um mann í dekrinu.

Eina reglan sem ég þurfti að fylgja var að einn dag í viku var amma með heilunarfund þar sem andlegir kraftar voru stilltir af. Á þessa fundi kom fólk og bókstaflega fór yfir um með ömmu.

Ég mátti ekki trufla og mátti ekki koma inn í aðalbygginguna en herbergið mitt var í viðbyggingu við húsið og hægt að loka á milli með sér inngang.

Allan veturinn virti ég þessa einu reglu en undir vorið kom púki í mig. Hvað ætli sé í gangi þarna inn í herberginu?

Ég læðist inn í aðalbygginguna og fór mjög hljóðlega.

Ég hélt niðri í mér andanum og lagði við hlustir. Heyrði ég einhver hljóð en svo kemur yfir mig undarleg tilfinning og einhver ónot. Var ég fljótur að forða mér og passaði mig að fara jafn hljóðlega til baka. Það gekk vel og fór ég brasa eitthvað úti en er ég kem til ömmu í kvöldmat var hún frekar óhress og ólík sjálfri sér. Ég byrja að borða en fæ svo sömu tilfinningu og þá sem rak mig í burtu fyrr um daginn. Ég lít á ömmu og hún segir. Það sem þú gerðir í dag Hafþór, máttu aldrei gera aftur! Ég var fljótur að klára matinn minn það kvöldið.

Börnin mín voru svo heppin að kynnast þér, sérstaklega Viktoría, þar sem hún hjálpaði þér í galleríinu. Þú kenndir henni að mála og skapa með höndunum. Hún hafi svo rosalega gaman að vera hjá þér og vissi ekkert betra.

Ég veit að þú ert ekkert farin langt en við söknum þín og það er sárt að vita ekki af þér lengur.

Ég þakka þér fyrir allt elsku amma. Takk fyrir að taka svona vel á móti mér og vera mér heimsins besta amma. Minningin þín lifir heldur betur og megi guð geyma þig.

Þinn,

Hafþór Magni

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00