Fara í efni
Pistlar

Þjóðfélagsumræðan

Einu sinni þekkti ég skapstóran smástrák sem þoldi ekki að tapa í fótbolta. Einhverju sinni fór hann heim til sín eftir sárt tap og fékk útrás með því að sparka í heimilisköttinn. Þetta þótti foreldrum hans ekki eðlileg hegðun; þau höfðu áhyggjur, en vonuðu að þetta myndi eldast af honum.

Mörgum áratugum seinna varð skapstór forstjóri fyrir vonbrigðum með að alþjóðlegt lyfjafyrirtæki hafnaði umleitan hans um rannsóknasamstarf. Þá fór hann í fjölmiðlaviðtal og hreytti fúkyrðum í nokkra heimspekinga, sem höfðu vogað sér að skrifa blaðagrein með gagnrýnum spurningum um fyrirhugaða rannsókn. Af stöðu viðtalsins á lista yfir mest lesnu fréttir miðilsins þann daginn mátti ráða að þetta hafi mörgum þótt skemmtileg hegðun. Engum dettur í hug að hún eldist af forstjóranum, enda maðurinn á áttræðisaldri.

Þó það megi vel brosa í kampinn yfir þessum barnalegu viðbrögðum forstjórans og „kettirnir“ kveinki sér ekki undan þeim, þá veita þau ágætt tilefni til að velta fyrir sér mikilvægi góðrar þjóðfélagsumræðu. Hér ríkir skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi lögum samkvæmt. Öllum á að vera frjálst að tjá skoðanir sínar opinberlega án þess að teljast þar með hafa brotið gegn lögum eða réttindum annarra, nema um sé að ræða meiðyrði eða hatursorðræðu. Þetta grundvallaratriði í frjálslyndu lýðræðissamfélagi þýðir meðal annars að þeir sem tjá sig opinberlega verða að vera tilbúnir að þola hörð og jafnvel hvassyrt skoðanaskipti.

Fjölmiðlar gegna mikilvægu lýðræðishlutverki. Í gegnum þá fær allur almenningur upplýsingar um hvað er að gerast í samfélaginu, hvaða mál eru rædd og afgreidd á Alþingi og í sveitarstjórnum, hvað ríkisstjórnin er að fást við, hvað er að gerast í efnahags- og atvinnulífi, íþróttum, menningu og svo framvegis. Í bland við upplýsingarnar koma svo hinar ýmsu skoðanir á því sem er að gerast, hvað er talið til góðs og hvað ekki, til hvaða ráða ætti að grípa og hvað beri að forðast. Hver sem er getur lagt orð í belg, en þó er verulegur hluti umræðunnar ýmist á forsendum stjórnmálaflokka eða aðila sem eiga sjálfir mikilla hagsmuna að gæta. Þetta fjölmiðlaefni er í bakgrunni þegar við tökum afstöðu til málefna samfélagsins sem borgarar í lýðræðisríki.

Gæði lýðræðisins fara eftir gæðum upplýsinganna og umræðunnar. Þegar upplýsingar eru fábrotnar, rangar, einhliða, villandi, ruglingslegar og mótsagnarkenndar er erfitt að mynda sér ígrundaða skoðun, hvað þá að setja hana fram á skýran og vel rökstuddan hátt. Þegar skoðanir eru settar fram með áherslu á menn frekar en málefni, með háði og hótfyndni frekar en rökum, þá verður útkoman ekki endilega mjög gagnleg fyrir lýðræðið þótt hún geti gagnast fjölmiðlafyrirtækjum sem söluvænt afþreyingarefni.

Þegar fimm manna „fótboltalið heimspekinga“ ákvað að leggja til samfélagsumræðunnar með því að setja fram nokkrar spurningar um bóluefnarannsókn höfðu upplýsingar um málið verið litlar, en þeim mun meira um vísbendingar í véfréttastíl. Margir virtust álykta að mögulegt væri að alveg á næstunni yrði samið við Pfizer um að íslenska þjóðin yrði bólusett í rannsóknaskyni og að þetta yrði framkvæmt með hraði, enda óþreyjan mikil. Þetta vakti spurningar sem okkur fannst, í ljósi sérþekkingar okkar, nauðsynlegt að þjóðin fengi svör við.

Háskólar hafa mikilvægt gagnrýnishlutverk í lýðræðislegu samfélagi. Við sem gegnum akademískum stöðum berum sérstaka ábyrgð á því að koma á framfæri upplýsingum, sjónarmiðum og spurningum sem tengjast fagþekkingu okkar þegar við teljum það bæta þjóðfélagsumræðuna. Þetta hlutverk er varið af akademísku frelsi og sjálfstæði háskóla, sem eru góðu heilli bundin í lög á Íslandi.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri. Hann er í fimm manna „fótboltaliði heimspekinga“ sem skrifaði blaðagrein á dögunum.

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00