Fara í efni
Pistlar

Þessi þjóð er fitusprengd

ÞESSI ÞJÓÐ – 3

Alltaf finnst mér lærdómsríkt að rifja upp söguna af ömmunni á elliheimilinu sem móðgaði dótturdóttur sína með því að slá því fram hvað hún væri orðin stór. Aumingja stúlkan fór í fár því lýsingarorðið stór táknaði í hennar huga feit, af því að við megum ekki segja lengur að einhver sé feitur, það er víst fitusmánun og þess vegna hefur stór komið í staðinn. Amman var nú bara að tala um hvað hefði tognað úr unglingsstúlkunni en hún misskildi þetta svona hrapallega og hljóp út „í tárum“ eins og nú er sagt því við hugsum víst orðið á ensku (in tears) og hráþýðum svo yfir á íslensku. Kannski meira um það síðar en í dag langar mig að tala aðeins um hina forboðnu fitu.

Best að taka það strax fram að sjálfur er ég í ofþyngd því ég skríð yfir 25 á BMI þannig að ég er ekki að kasta steinum úr glerhúsi, hjassinn og lurinn sem ég er. Ég er ekkert stór, bara svolítið feitur á köflum eins og flestir Íslendingar. Þessi þjóð er alveg þokkalega fitusprengd, svo ég noti kjötmál en ég var einmitt að grilla nautasteik sem hefði alveg mátt vera aðeins fitusprengdari. Lambið var betra hvað þetta áhrærir. Fita þarf sko ekki að vera neikvæð.

Í gamla daga (þegar ég var barn) voru tveir feitir menn á Akureyri og höfðu þeir báðir þetta viðurnefni – feiti. Viðurnefni og uppnefni eru siður frá því um landnám og synd að ekki megi nota þau lengur nema í einstaka tilfellum ef þau eru jákvæð eins og Ragga nagli og Siggi sæti. Nei, maður má ekki neitt í dag. Ég var uppnefndur kanínubróðir þegar mér áskotnuðust stórar framtennur um sjö ára aldurinn og í minningunni voru flestir uppnefndir. Krakkar í gamla daga voru reyndar ekki feitir, kannski einn eða tveir í hverjum árgangi. Við vorum alltaf hlaupandi og hjólandi og flatbakan var ekki búin að nema land, hvað þá orkudrykkir.

Mér finnst ekkert neikvætt að vera aðeins í holdum. Það er bara velmegunartákn. Þessi þjóð er kannski aðeins á leiðinni yfir strikið eins og henni hættir til og við erum að verða eins og bandarísk fitufjölskylda með hamborgararass og ístrubelg og allt dúandi og iðandi yfir og allt um kring. Stöku sinnum benda næringarfræðingar, læknar og fleiri á þessa staðreynd og ræða heilsufarsleg vandamál tengd offitu, varfærnislega þó til að styggja ekki varðhunda smánunar.

Mér skilst að þjóðráðin séu barnalega einföld. Ekki innbyrða fleiri kaloríur en þú brennir. Borða hollt, hreyfa sig reglulega, sofa vel og fitan á ekki séns. Jú, þetta meikar alveg sens. Ég ákvað t.d. að búa til átakið magra maí og missti þá 4 af þessum 5-7 aukakílóum sem ég geymi gjarnan framan á mér og má kalla vetrarforða. Sumsé, ég var aðallega í grænmeti, fiski og einhvers konar Miðjarðarhafsdæmi og sneiddi hjá sykri og hveiti eftir bestu getu. Ekkert flókið. Eiginlega hef ég haldið þessu áfram og nú er svo komið að nammigrísinn gamli fær sjokk þegar hann dýfir tönnunum í eitthvað sætara en ávexti. Ég þurfi meira að segja að henda rúgbrauði sem ég reyndi að snæða með soðningunni.

Ég er ekki áhrifavaldur, markþjálfi, einkaþjálfari eða þaðan af merkilegri pappír, bara ótíndur íslenskufræðingur! Þess vegna þurfið þið ekki að taka mark á mér þegar ég segi að við megum alveg tala um fitu og heilsufarsvandmál, lífsstíl sem leiðir til offitu og aðgerðir til að draga úr líkum á því að uppvaxandi kynslóð glími við alvarleg veikindi vegna óhollustu, hreyfingarleysis, símafíknar, nikótínfíknar og almenns skeytingarleysis um hollustu og heilbrigði.

Jæja, ég ætlaði reyndar að vera sniðugur en gleymdi mér alveg. Ef þið viljið fyndinn pistil um þetta mál get ég bent á pistil hliðarsjálfs míns, Hallfreðs Örgumleiðasonar, í Degi 1987 eða í bókinni Hræringur með súru slátri frá 1990. Margt er nákvæmlega eins og í dag, næstum 40 árum síðar.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskufræðingur í ofþyngd

Þegar ég var hugguleg stúlka

Orri Páll Ormarsson skrifar
08. ágúst 2025 | kl. 22:00

Hús dagsins: Leifshús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 06:00

Birkismugur

Brynja Hrafnkelsdóttir og Sigurður Arnarson skrifa
06. ágúst 2025 | kl. 10:30

Skykkjur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. ágúst 2025 | kl. 21:00

Gróðurhússbruninn

Jóhann Árelíuz skrifar
03. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er á tali

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
02. ágúst 2025 | kl. 06:00