Fara í efni
Menning

Þér eruð reknir, frá og með næsta mánudegi ...

Jonni í Hamborg og Sigurður skólameistari Guðmundsson. Myndin, sem Freymóður Jóhannsson málaði, er eign Menntaskólans á Akureyri. Afkomendur Sigurðar færðu skólanum myndina að gjöf.

Í vikunni voru 100 ár frá fæðingu tónlistarmannsins Jóhannesar G. V. Þorsteinssonar og af því tilefni verður afmælisdagskrá í Hofi í dag, eins og fram kemur í frétt sem Akureyri.net birti í morgun.

Jonni í Hamborg, eins og hann var jafnan kallaður, var fyrsti konsertmeistari Menntaskólans á Akureyri, undirleikari á söngsal. Hann var demantur við píanóið en enginn engill frekar en aðrir dauðlegir menn.

„Hann var eiginlega rekinn úr Menntaskólanum! Fékk sér sennilega aðeins of mikið að drekka eins og gengur, fór að tuskast við einhvern dreng á [balli] og Sigurður skólameistari rak hann,“ sagði Sólveig Björg Dyrhe Hansen, systir Jonna, í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í mars 2014, daginn sem dagskrá Jonna til heiðurs fór fram á Akureyri – þegar 90 ár voru liðin frá fæðingu hans. Björg, sem lengi var búsett í Danmörku og lést í mars 2019, var 86 ára þegar hún kom til Akureyrar til að vera viðstödd athöfnina.

„Þetta var voðalegt fyrir fjölskylduna og drenginn; hann var alveg miður sín,“ sagði Sólveig en bætti við: „En hann hlaut uppreisn æru og fékk bók í kveðjugjöf frá skólanum við útskrift.“

Brottreksturinn tók að vísu ekki gildi alveg strax, vegna snilli Jonna á píanóið, eins og nánar er greint frá hér að neðan. Ekki var hjá því komist að hann léki á skóladansleik áður en hann tæki út refsinguna!

Opnaði fyrir prestinum

Hún mundi vel eftir því þegar fjölskyldunni var tilkynnt um andlát Jonna. „Ég opnaði fyrir prestinum, séra Friðriki Rafnar, þegar hann kom heim í Hamborg að færa okkur tíðindin. Hann vísiteraði aldrei en kom því miður þennan dag. Það var hryllilegt,“ sagði Sólveig. Hún var 19 ára þegar Jonni hennar lést. „Við vorum mjög náin. Steingrímur bróðir okkar var 13 árum eldri þannig að við Jonni vorum einu börnin á heimilinu þegar ég var að alast upp.“

... en leikið á skóladansleiknum

Aftur að því þegar Jonni var rekinn úr Menntaskólanum. Sá sem þetta skrifar fjallaði um atvikið í blaðinu Tónlistarbærinn Akureyri, sem kom út í júní árið 2020 og er hluti samnefndrar sýningar á Minjasafninu á Akureyri. 

Þar segir:

Skólameistari, Sigurður Guðmundsson, lagði ríka áherslu á að nemendur sæktu ekki opinbera dansleiki í bænum og var brot á því banni brottrekstrarsök. Þegar meistara barst sagan af Jonna til eyrna snaraði hann sér inn í kennslustofuna þar sem Jonni var í tíma, og sagði: „Þér, Jóhannes GV Þorsteinsson eruð hér með reknir úr skólanum.“

Hverfur úr stofunni jafn hratt og hann kom en birtist á ný að vörmu spori og ítrekar ákvörðun sína en nákvæmar en áður: „Þér, Jóhannes GV Þorsteinsson eruð reknir úr skólanum frá og með næsta mánudegi, en leikið á skóladansleiknum á laugardagskvöldið.“

Happ Emils og Álfheiðar

Á kennarastofunni hófst mikil rekistefna og mörgum þótti þessi góði og greindi nemandi sæta of ströngum viðurlögum. Svo fór að Sigurður féllst á að milda refsinguna, en dæmdi strákinn til betrunarvistar! Var honum gert að fara í rúm Emils Björnssonar á suðurlofti heimavistarinnar í Gamla skóla, og þar sem vistin var fullpökkuð var Emil sendur niður í Hamborg, í rúm Jonna. Einu varanlegu áhrif þessa gjörnings urðu þau að í Hamborg hitti Emil systur Jonna frá Siglufirði, Álfheiði Guðmundsdóttur, sem varð eiginkona hans.