Fara í efni
Menning

Jonni í Hamborg 100 ára – dagskrá í Hofi

Í vikunni voru 100 ár frá fæðingu tónlistarmannsins Jóhannesar G. V.  Þorsteinssonar og af því tilefni verður afmælisdagskrá í dag í Hofi. 

Jóhannes Gísli Vilhelm Þorsteinsson er mörgum gleymdur en hann var stjarna í íslensku tónlistarlífi skamman tíma laust fyrir miðja síðustu öld og á stóran sess í íslenskri djasssögu.

Hann fæddist á Siglufirði 13. mars 1924, sonur Theódóru Pálsdóttur og Guðmundar Hafliðasonar hafnarstjóra, en vegna veikinda drengsins var hann fluttur sex mánaða gamall til Akureyrar og settur í umsjá móðursystur sinnar, Laufeyjar Pálssdóttur, sem bjó í húsinu Hamborg á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis. Var hann jafnan kallaður Jonni í Hamborg.
_ _ _

Afmælisdagskráin í Hofi í dag
„Öll velkomin og sérstaklega djassunnendur á meðan húsrúm leyfir,“ segir í tilkynningu. Dagskráin stendur frá kl. 14 til 18.

  • 14.00 - 16.00
    „Masterclass um tónheim Jonna í Hamborg. Tilvalið tækifæri fyrir tónlistarfólk og sérstaklega djassunnendur. Enginn aðgangseyrir. Agnar Már Magnússon leiðbeinir með aðstoð Emils Loga Heimissonar og djasshljómsveitar hússins.“
  • 16.00 - 18.00
    100 ára afmælistónleikar. „Tónleikar og djammsession tileinkuð Jonna í Hamborg þar sem lögð verður áhersla á lög frá blómaskeiði Jonna, m.a. Fats Waller. Agnar Már Magnússon og Emil Logi Heimisson ásamt djasshljómsveit hússins. Öll velkomin og enginn aðgangseyrir.“
    _ _ _  

Jonna er ekki síst minnst fyrir það að hann hélt fyrstu „íslensku“ djasstónleikana – þar sem eingöngu íslenskir hljóðfæraleikarar komu við sögu – í apríl 1946 í Gamla bíói í Reykjavík, nýorðinn 22 ára. Vegna mikillar aðsóknar voru tónleikarnir endurteknir.

Frásögn Morgunblaðsins eftir fyrstu „íslensku“ djasstónleikana, sem Jonni hélt í Gamla bíói í Reykjavík í apríl 1946. Með honum léku nokkrir af þekktustu tónlistarmenn landsins.

Hann hafði flust til borgarinnar um tvítugt í því skyni að stunda tónlistarnám og hélt þetta sumar til frekara náms í Kaupmannahöfn, auk þess sem hann átti að leika með þeirri kunnu söngkonu, Elsu Sigfúss, á tónleikum ytra. Áður en fyrstu tónleikar þeirra Elsu fóru fram lést hann hins vegar af slysförum. Ekki er vitað með vissu hvernig andlát hans bar að, en talið að Jonni hafi fallið út um glugga á þriðju hæð og látist samstundis.

Árið 1996, þegar 50 ár voru liðin frá tónleikunum sögulegu, var sama tónleikaskrá með nánast sömu hljóðfæraskipan flutt í Gamla bíói og síðar á Akureyri á Hótel KEA, skáhalt á móti húsinu Hamborg, þar sem Jonni ólst upp og var farinn að vekja athygli fyrir að vera síspilandi á píanóið og Akureyringar á „prómenaði“ göngutúrum í miðbænum heyrðu tóna hans óma út í Hafnarstræti.

Síspilandi sem barn

„Jonni var síspilandi sem barn, mest á píanó en hann æfði sig líka á trompet. Það gerði hann uppi á háalofti í Hamborg til að ónáða ekki heildsalann niðri.“ Þannig komst systir Jonna, Sólveig Björg Dyrhe Hansen, að orði í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í mars 2014, daginn sem dagskrá Jonna til heiðurs fór fram á Akureyri – þegar 90 ár voru liðin frá fæðingu hans.

Sólveig Björg, sem lengi var búsett í Danmörku og lést í mars 2019, var 86 ára þegar hún kom til Akureyrar til að vera viðstödd athöfnina til minningar um Jonna. 

Efnisskrá fyrstu „íslensku“ djasstónleikana, sem Jonni hélt í Gamla bíói í Reykjavík í apríl 1946.

Níu ára var Jonni sendur í píanónám til Lenu Otterstedt, eiginkonu Knuts Otterstedt, rafveitustjóra og síðar gekk hann í Lúðrasveit Akureyrar, þar sem Jonni lærði á kornett hjá Jakobi Tryggvasyni. Jonni fékk ungur gríðarlegan áhuga á djassi, komst yfir grammófónplötur og kynntist Fats Waller og Teddy Wilson sem urðu fyrirmyndir hans. Hann hlustaði á Bennie Goodman, Duke Ellington, Count Basie, Louis Armstrong, Art Tatum og aðra sem léku djass á þeim plötum sem bárust til landsins, að því er Vernharður Linnett hélt fram í Morgunblaðinu 1996, í aðdraganda tónleikanna sem fram fóru 50 árum eftir djasstónleikana frægu.

Aðeins sextán ára var Jonni farinn að leika í danshljómsveitum á Akureyri og Siglufirði og 1941 hélt hann til Reykjavíkur til að læra á píanó hjá dr. Victor Urbancic og trompet hjá Karli Ottó Runólfssyni. Sumarið eftir lék Jonni á Hótel Norðurlandi í hljómsveit Sveins Ólafssonar, sem var í hópi fyrstu djassleikara Íslands og trúlega þeirra fremstur, að mati Vernharðs Linnet. Þar léku einnig þeir Karl Karlsson, Guðmundur Finnbjörnsson frá Ísafirði og Magnús Guðjónsson. Um veturinn fór Svenni suður og Jonni tók við stjórninni.

Í ágúst 1945 hélt Jonni suður að nýju og hóf nám hjá Árna Kristjánssyni píanista og lék jafnframt með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Djass talinn villimannamúsík

„Það hefur þurft mikið áræði að efna til alíslenskra djasstónleika á þessum árum í sjálfu Gamla bíói. Djassinn var ekki hátt skrifaður hjá tónlistarelítunni, talinn villimannamúsík, en ýmsir góðir menn studdu Jonna og fór þar fremstur í flokki vinur hans Guðmundur heitinn Ásmundsson Guðmundssonar biskups,“ segir Vernharður. 

Daginn fyrir tónleikana í Gamla bíói birtist grein í Morgunblaðinu, þar sem segir meðal annars: „Jóhannes Þorsteinsson, hinn vinsæli jasspíanóleikari, ætlar að halda hljómleika í Gamla bíói annað kvöld. Jóhannes er á förum af landi brott. Fer hann til Danmerkur í þessum mánuði með ungfrú Elsu Sigfúss og mun hann leika undir á hljómleikum með henni þar. Er ekki að efa að afrek þeirra beggja verða Íslandi til sóma. Reykvíkingar eru orðnir langeygðir eftir jasshljómleikum þar sem íslenskir jasshljómlistamenn sýna hvað þeir geta og ef að líkum lætur verða menn ekki fyrir vonbrigðum á hljómleikum Jóhannesar. Hann er fyrir löngu orðinn alkunnur meðal yngri kynslóðarinnar fyrir píanóleik sinn, bæði í útvarpi og á dansstöðum. Hitt munu færri vita að hann er einn besti, ef ekki besti jasstrompetleikari á Íslandi.“

Að hrökkva eða stökkva

Í viðtali við blaðið var Jonni spurður hvort hann ætlaði ekki að mennta sig eitthvað í listinni þegar hann kæmi til Danmerkur og hefði lokið starfinu með Elsu Sigfúss. „Jú, ef mér tekst að fá góða kennslu ­ annaðhvort í jassi eða klassískri músík, en þó helst í hvoru tveggja. Annars langar mig að fá tækifæri til að spila með einhverri danskri hljómsveit ef tök verða á slíku.“

Um tónleikana sagði hann að sig hefði lengi langað að halda konsert og nú væri að hrökkva eða stökkva því ekki væri víst hvenær hann kæmi heim frá Danmörku. Jonni var ánægður með þá sem áttu að leika með honum og sagði að vel hefði borið í veiði. „Karl Karlsson verður með mér á trommur. Við erum búnir að spila saman í mörg ár. Hann hefur léttan og skemmtilegan áslátt. Baldur Kristjánsson spilar á píanó í hljómsveitinni. Hann er þekktur píanóleikari og spilar á Borginni eins og allir vita. Björn R. Einarsson, eini maðurinn á Íslandi sem kann að spila jass á básúnu, verður líka með. Hann hefur stjórnað hljómsveitinni í Listamannaskálanum í vetur. Mér þykir ekki ólíklegt að hann verði einhverntíman virtúós á básúnu. Gunnar Egilsson er yngsti maðurinn í hljómsveitinni. Hann hefur spilað með Birni í Listamannaskálanum í vetur. Gunnar er þegar orðinn fær klarinettleikari og mér finnst hann sérstaklega efnilegur.“

Forsala aðgöngumiða var í Bókabúð Lárusar Blöndal og seldust miðarnir einsog heitar lummur og því voru tónleikarnir endurteknir fjórum dögum síðar.

Varð að endurtaka mörg laganna

Í gagnrýni í Morgunblaðinu var sagt að tónleikarnir hefðu tekist afbragðsvel og „þetta væru einir bestu og líklega þó þeir bestu djasshljómleikar sem hér hafi heyrst.“

Um einleik Jóhannesar er það að segja að hann var með ágætum. Það var sama hvort lögin voru hæg og rómantísk eða hröð. Alls staðar kom fram örugg tækni, skemmtileg hugkvæmni í improvisationum og frábær smekkvísi. Ekki er gott að segja hvert laganna hann lék best því ekki mátti á milli sjá. M.a. lék Jóhannes lag eftir sjálfan sig, sem hann nefnir Wallers Weight, til minningar um eftirlætispíanóleikarann sinn, Fats Waller. Jóhannes varð að endurtaka mörg laganna. Bárust honum blómvendir og fögnuður áheyrenda var með eindæmum. Hljómsveitin lék með mikilli prýði. Jóhannes mun hafa komið flestum á óvart með trompetleik sinum, tæknin er góð og tónninn laus við að vera grófur eða rifinn eins og við hér eigum svo mjög að venjast. Baldur Kristjánsson lék á flygil með prýði og gaf hljómsveitin góðan rythma. Björn R. hefur náð mikilli leikni á básúnuna, það erfiða hljóðfæri og hefur fallegan tón. Gunnar Egilsson lék á klarinett af mikilli smekkvísi og tók margar góðar sólóar. Hann er ekki nema átján ára gamall og má það mikið vera ef hann á ekki eftir að verða í fremstu röð hljóðfæraleikara. Karl Karlsson hafði léttan áslátt og góðan rythma. Hljómsveitin varð að leika tvö aukalög. Yfir leik hennar var hreinn og ósvikinn dixílandblær.“

Það var rétt hjá Jonna í Morgunblaðsviðtalinu að nú væri að hrökkva eða stökkva, ekki væri víst hvenær hann kæmi frá Kaupmannahöfn. Förin var hans hinsta, því Jonni lést af slysförum í Kaupmannahöfn 3. júlí. Bálför hans var gerð í Kaupmannahöfn og síðan var askan jarðsett í Kirkjugarði Akureyrar við hlið alnafna hans, Jóhannesar G.V. Þorsteinssonar.