MA-ingar gefa upplifanir fyrir 330 þúsund
Upplifanir skapa minningar sem eru mun verðmætari en hlutir. Þetta segja nemendur í umhverfisnefnd Menntaskólans á Akureyri sem hvetja fólk til þess að gefa upplifanir í jólagjöf frekar en dót sem jafnvel endar í ruslinu. Til þess að hvetja fólk, og þá ekki síst unglinga, til þess að hugsa betur út í hvaða jólagjafir það er að kaupa, stendur nefndin fyrir gjafaleik um þessar mundir þar sem hægt er að vinna upplifanir að verðmæti 330 þúsund króna.
„Það er skemmtilegra að gefa upplifanir í jólagjöf því þá ert þú að gefa minningar sem geta ekki endað í ruslinu,“ segir Ragnheiður Inga Matthíasdóttir. Ágústa Arnþórsdóttir tekur undir það, en báðar eru þær í stjórn umhverfisnefndar MA; „Svo á fólk allt í dag, sérstaklega unglingar, og þá er mun auðveldara að gefa þeim upplifun sem viðkomandi verður glaður með heldur en að reyna að velja eitthvað drasl sem endar svo í ruslinu eða í skúffunni,“ segir Ágústa.

Umhverfisnefnd MA hélt vel heppnaðan fatamarkað í október. Ofneysla á textíl er að þeirra sögn eitt stærsta vandamál þeirra kynslóðar. Nú hvetur nefndin ungu kynslóðina til þess að gefa frekar upplifanir í jólagjöf frekar en dót.
Innblástur fyrir fólk í jólagjafaleit
Fjöldi fyrirtækja hefur lagt umhverfisnefnd MA lið með því að gefa gjafabréf af upplifunum í leikinn eins og t.d North, Sánavagn Mæju, Ferðafélag Akureyrar, Sykurverk, Terían, Go-husky og Bakkaflöt river-rafting. „Það er nefnilega hægt að gefa svo margt annað en dót í jólapakkann t.d. gjafabréf í Jarðböðin, Geosea, sund eða í pílu eða út að borða á einhvern af hinum fjölmörgu veitingastöðum sem eru á Akureyri. Svo má auðvitað líka búa til sín eigin gjafabréf og gefa vinum og fjölskyldu alls konar samverustundir, það þarf ekki að kosta mikið,“ segir Ragnheiður Inga og heldur áfram. „Þessi gjafaleikur umhverfisnefndarinnar er að mestu leyti hugsaður til þess vekja athygli á þeim möguleika að gefa frekar upplifanir heldur en dót í jólagjöf, og leikurinn er hugsaður sem ákveðinn innblástur fyrir fólk, því öll fyrirtækin sem eru í gjafaleiknum bjóða upp á gjafabréf af upplifununum. Þá er einnig markmið okkar í umhverfisnefndinni að fá fleiri fylgjendur á okkar samfélagsmiðla því með því getum við náð til fleira fólks með ýmsan umhverfisvænan boðskap en við höfum t.d verið að pósta færslum til að vekja athygli á ofnotkun á plasti og textíl á Íslandi.”

17 nemendur eru í umhverfisnefnd MA í ár og hér má sjá hluta hópsins. Umhverfisnefndin vaktar kolefnisfótspor MA-inga.
Ofneysla á textíl
Þær Ágústa og Ragnheiður Inga segja að menntskælingar séu almennt ekki að hugsa nóg um umhverfismálin, ekki síst hvað varðar ofneyslu á textíl. „Á fyrsta fundi ársins ræddum við hver væru stærstu vandamál okkar kynslóðar og hvað væri að menga mest að okkar mati. Við vorum öll sammála um að það væri ofneysla, sérstaklega ofneysla á textíl. Þess vegna ákváðum við að halda fatamarkað í október til þess að vekja athygli á hversu mikið við kaupum af fötum og hvetja fólk til þess að kaupa frekar notað en nýtt og við vildum virkja hringekjuna á Íslandi,“ segir Ragnheiður Inga og bendir á að Sorpa fái eitt tonn af textíl til sín á viku. „Örtískan gengur út á það að eitthvað verður vinsælt og allir verða að eiga svoleiðis föt. Svo líða nokkrar vikur og þá kemur eitthvað nýtt trend, hlébarðamynstrið verður að sebramynstri, og allir kaupa svoleiðis föt, jafnvel þó þá vanti ekki ný föt, og þá fer gamla trendið bara allt á Rauða krossinn eða inn í skáp. Svona stuðlum við endalaust að sóun,“ segir Ágústa. Fatamarkaðurinn í október tókst vel en ágóði hans rann til The Ocean Clean up. Segja þær að umhverfisnefndin stefni að því að vera með annan markað á nýju ári.
Að lokum má geta þess að þeir sem vilja taka þátt í gjafaleik umhverfisnefndar MA verða að fylgja umhverfisnefndinni á samfélagsmiðlum en þar er að finna nánari upplýsingar um leikinn. Vinningshafar verða tilkynntir á mánudag.


