Þegar ég var hugguleg stúlka

ORRABLÓT - 46
„Nei, en hugguleg stúlka,“ sagði gamli maðurinn og brosti sínu blíðasta – til mín.
„Láttu ekki svona, maður, sérðu ekki að þetta er strákur?“ flýtti konan sem var með honum sér að segja. Líklega frekar dóttir hans en eiginkona. Þau töluðu þýsku sín á milli en gerðu sér ekki grein fyrir því að ég er stúdent af málabraut og skildi fyrir vikið hvað þau voru að segja. Það var svo sem ekkert sérstaklega flókið. Orðin „Mädchen“ og „Junge“ höfðu þarna mesta vigt.
Brosið á gamla manninum fraus, eins og sumarið í hylnum forðum, og hann hrökklaðist skömmustulegur inn í aðalsýningarsalinn á Náttúrugripasafninu á Akureyri, þar sem ég var safnvörður. Ég glotti við tönn.
Aumingja gamla manninum til málsbóta skal því til haga haldið að ég var með hár niður á rass á þessum tíma og með öllu skegglaus, eins og Njáll á Bergþórshvoli. Þess utan var hann vel við aldur og sjónin ábyggilega farin að daprast. Það mat byggi ég ekki á því að hann hafi haldið að ég væri stúlka, heldur hinu – að honum hafi fundist ég hugguleg/ur.
Sjaldgæfara er í dag að fólk haldi að ég sé kona enda er ég orðinn býsna þunnhærður og með sítt tjúguskegg. Hvorugt þykir víst sérstaklega kvenlegt.
Ég var um tvítugt þegar ég vann á Náttúrugripasafninu og þar fóru fyrstu reglubundnu samskipti mín við erlenda ferðamenn fram. Þegar ég var fjórtán ára bjó ég mig að vísu spenntur undir slík samskipti en það sumar var ég pikkaló á Hóteli Stefaníu í svo að segja næsta húsi. En það ritaði sig ekki nokkur maður með erlent ríkisfang inn á hótelið, alla vega ekki á minni vakt. Eina framandi tungumálið sem maður heyrði var sunnlenska. „Það er helvídis væda og bleyda á gödunum hérna!“
Sem var rakalaus þvættingur; það kom ekki dropi úr lofti allt sumarið.
Í millitíðinni rakst maður á einn og einn túrista á förnum vegi; eins og Þjóðverjann sem við félagarnir hittum á Ráðhústorginu seint í áttunni.
„Hvaðan ert þú, lagsi?“ spurðum við áhugasamir.
„Frá Stuttgart,“ svaraði túristinn.
„Frá Stuttgart,“ hljóðuðum við einum rómi. „Þá hlýtur þú að þekkja Ásgeir okkar Sigurvinsson!“
„Nei, hver er það?“
„Hver er það? Hann er besti knattspyrnumaður Íslands og leikur með liðinu þínu, VfB Stuttgart.“
„Nei, því miður, strákar mínir. Ég hef aldrei heyrt hann nefndan. Ég fylgist ekkert með fótbolta.“
Þetta samtal varð ekki lengra. Maður eyðir ekki púðri á dauða fugla. Ég meina, hver þekkir ekki Ásgeir Sigurvinsson?
Svo var það japanska fjölskyldan sem við félagarnir rákumst á fyrir utan Bautann upp úr miðri áttunni. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug að spyrja hana frétta af Anjin-san enda nýbúinn að horfa á hinn mergjaða sjónvarpsmyndaflokk Shōgun, þar sem Richard heitinn Chamberlain lék téða persónu af sínu alkunna listfengi.
Ég man varla eftir að hafa séð fólk verða eins hissa. Lái þeim hver sem vill. Snúum þessu til gamans snöggvast við. Segjum að ég væri staddur í Tókíó ásamt fjölskyldu minni og japanskur unglingur myndi vinda sér upp að okkur og spyrja frétta af Georg Bjarnfreðarsyni.
Hér er ég auðvitað að gefa mér að Georg Bjarnfreðarson hafi gert eins mikið fyrir íslenska menningu á alþjóðavettvangi og Anjin-san fyrir japanska menningu.
Loks má ég til með að segja ykkur frá bandaríska ljósmyndaranum sem stöðvaði mig um hábjartan dag í Hafnarstrætinu í blábyrjun níunnar og vildi fá að taka af mér ljósmyndir. Kappinn kvaðst vera frá einhverju tímariti sem ég hafði aldrei heyrt nefnt, í öllu falli var það ekki National Geographic, og væri að safna myndum af „dæmigerðum Íslendingum“.
Jú, jú, hvers vegna ekki? hugsaði ég enda var ég dálítið upp með mér að vera skilgreindur sem „dæmigerður Íslendingur“. Hófst þá fyrirsætuferill minn sem stóð í heilar fimm mínútur, jafnvel sex. Gaurinn myndaði mig í bak og fyrir. Þetta var fyrir daga stafrænna myndavéla þannig að ég sá aldrei neinar myndir; mögulega var hann ekki einu sinni með filmu í vélinni.
En við skulum gefa okkur að myndirnar hafi framkallast og verið birtar í þessu huldutímariti í Vesturheimi. Og hver veit nema að einmitt á þessari stundu séu roskin hjón í fásinninu í Poughkeepsie að dusta rykið að tímaritasafni sínu – og finna þetta umrædda tölublað. „Sjáðu hérna væna mín,“ segir eiginmaðurinn, við skulum bara kalla hann John, við eiginkonu sína, við skulum bara kalla hana Nancy. „Hér er ljósmynd af dæmigerðum Íslendingi!“
Og hann bendir á mig. Þessa huggulegu stúlku.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


Hús dagsins: Leifshús

Birkismugur

Skykkjur

Gróðurhússbruninn
