Fara í efni
Fréttir

Spennandi tækifæri að stýra Öldu undir eigin merkjum

Baldvin Þorsteinsson - hollenskt félag í meirihlutaeigu hans hefur keypt Öldu Seafood og þar með erlenda starfsemi Samherja Holding. Ljósmynd: Samherji/Eyþór Árnason

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Öldu Seafood í Hollandi, hefur keypt félagið af Samherja Holding eins og fram kom í morgun. Alda Seafood hefur haldið utan um erlenda starfsemi Samherja í Evrópu og í NorðurAmeríku frá árinu 2018.

Morgunblaðið greindi fyrst frá en hér er frétt Akureyri.net í morgun.

Tilkynning um viðskiptin hefur nú verið birt á vef Samherja. Þar segir:

„Innlend og erlend starfsemi Samherja hf. var aðskilin í tvö sjálfstæð félög, Samherja og Samherja Holding árið 2018. Í framhaldi af því var dótturfélagi Samherja Holding, Öldu Seafood, með höfuðstöðvar í Hollandi, falinn rekstur starfseminnar sem tengist sjávarútvegi í Evrópu og Norður Ameríku. Eignarhaldið hélst óbreytt.

Nú hefur verið gengið frá samkomulagi um sölu eigna Öldu Seafood til annars hollensks félags undir stjórn og í meirihlutaeigu Baldvins Þorsteinssonar. Mun hið nýja félag hér eftir fara með eignarhluti Öldu Seafood í sjávarútvegsfyrirtækjum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Samherji Holding fjárfesti árið 2018 í Eimskip en hluturinn í Eimskip hefur verið færður í eignarhaldsfélagið Seley ehf. sem er í eigu sömu aðila og hafa átt Samherja Holding og er hluturinn í Eimskip því ekki hluti af þessum viðskiptum.“

Farsæl stefna og árangursrík

„Samherji hóf starfsemi á erlendri grundu árið 1994. Við töldum þá og teljum reyndar enn að sú þekking og reynsla sem býr í íslenskum sjávarútvegi ætti erindi víðar,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja Holding í tilkynningunni.

„Við fluttum út þekkingu okkar á veiðum og vinnslu, um borð í skipunum og í landi en auk þess hefur Samherji Holding á þessum áratugum beint viðskiptum sínum í miklum mæli til íslenskra fyrirtækja. Íslensk framleiðsla á veiðarfærum, fiskvinnslubúnaði og ýmsum öðrum aðföngum hefur notið góðs af þessari uppbyggingu erlendis. Þessi stefna hefur verið farsæl og árangursrík og orðið hvati að viðskiptum íslenskra iðnfyrirtækja við önnur erlend sjávarútvegsfyrirtæki víða um lönd.“

Sóknarfæri

Baldvin Þorsteinsson forstjóri Öldu Seafood segir rekstur félaga Öldu traustan, hjá félögunum starfi öflugt fólk og skipin séu vel búin. „Ég hef því fulla trú á starfseminni og er þess fullviss að sóknarfæri séu áfram til staðar á þeim mörkuðum sem félögin starfa á. Frá því að ég flutti til Hollands hef ég rekið þessa starfsemi þaðan. Það breytist ekki nú en ég fæ spennandi tækifæri til að stýra þessari starfsemi undir eigin merkjum,“ segir Baldvin.

Ennfremur er haft eftir Þorsteini Má að í ljósi þess að fyrst og fremst sé um evrópsk félög að ræða og starfsemin að öllu leyti erlendis, „teljum við eðlilegt að höfuðstöðvar félagsins verði áfram í Evrópu og starfseminni sé stýrt þaðan. Það er afar mikilvægt að eignarhaldið sé í höndum aðila sem getur sinnt henni í návígi og er reiðubúinn að einbeita sér að því byggja hana upp áfram. Við óskum Baldvini velfarnaðar í þeirri vegferð og erum þess fullviss að þessi fyrirtæki dafni undir hans stjórn með því góða fólki sem þar starfar.“