Samherji: „Besti bitinn af þorskinum“ í verslanir
Þorskhnakkar frá Samherja verða í fyrsta skipti fáanlegir í matvöruverslunum innanlands frá og með deginum í dag. Varan er seld sem „Besti bitinn af þorskinum“.
„Markmiðið er að færa neytendum hér á landi það besta úr hafinu í kringum landið. Almennt er viðurkennt að hnakkinn sé besti bitinn af þorskinum enda er hann þykkasti og safaríkasti hluti fisksins. Er nafnið á vörunni skírskotun til þess,“ segir í tilkynningu frá Samherja.
Hverjum bita er pakkað sérstaklega í lofttæmdar umbúðir „þannig að varan er einstaklega aðgengileg og hentug til matreiðslu hvort sem elda á einn bita eða fleiri. Pökkunin tryggir einnig gæði bitanna við geymslu og gerir uppþíðingu mjög einfalda.“
„Hér erum við að bjóða neytendum valkost sem er okkar eigin framleiðsla sem við höfum lagt alúð í. Salan á þessari afurð í matvöruverslunum innanlands er líka mikilvægur líður í því að efla vitund almennings um íslenskan sjávarútveg, þær hollu afurðir sem þar eru framleiddar og hvað þarf til,“ segir Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja hf. meðal annars.

Björgúlfur EA-312, eitt skipa Samherja, við fiskvinnsluhús fyrirtækisins á Dalvík. Mynd: Þórhallur Jónsson
Það besta úr hafinu
Tilkynningin frá Samherja er svohljóðandi í heild:
„Besti bitinn af þorskinum,“ frosnir þorskhnakkar frá Samherja, verða fáanlegir í matvöruverslunum innanlands frá og með deginum í dag. Hér er um að ræða hágæðaafurð af þorski sem er veiddur á djúpslóð og unninn í vinnsluhúsum Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu.
Hverjum bita er pakkað sérstaklega í lofttæmdar umbúðir þannig að varan er einstaklega aðgengileg og hentug til matreiðslu hvort sem elda á einn bita eða fleiri. Pökkunin tryggir einnig gæði bitanna við geymslu og gerir uppþíðingu mjög einfalda.
Markmiðið er að færa neytendum hér á landi það besta úr hafinu í kringum landið. Almennt er viðurkennt að hnakkinn sé besti bitinn af þorskinum enda er hann þykkasti og safaríkasti hluti fisksins. Er nafnið á vörunni skírskotun til þess.
„Hér erum við að bjóða neytendum valkost sem er okkar eigin framleiðsla sem við höfum lagt alúð í. Salan á þessari afurð í matvöruverslunum innanlands er líka mikilvægur líður í því að efla vitund almennings um íslenskan sjávarútveg, þær hollu afurðir sem þar eru framleiddar og hvað þarf til,“ segir Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja hf.
Besti bitinn er sóttur í djúpið
Öflug skip, réttar veiðiaðferðir og nýjasta tækni, ásamt hraðri kælingu og góðri meðferð aflans skiptir öllu máli. Til að ná í betri fisk þarf að sigla langt og sækja í djúpið þar sem besti þorskurinn er í köldum sjó.
Þorskurinn í Besta bitanum er veiddur úr sjálfbærum fiskistofni í íslenskri lögsögu. Skip Samherja eru við veiðar flesta daga ársins og tryggja þannig stöðugt framboð afurða.
Sérhæft fagfólk og tækjabúnaður í fremstu röð
Í landvinnslum Samherja starfar sérhæft fagfólk í fremstu röð og beitir nýjustu tækni- og vinnsluaðferðum. Hefur félagið lagt ríka áherslu á þróun nýrrar tækni í samstarfi við íslensk nýsköpunar- og hátæknifyrirtæki með það fyrir augum að hámarka gæði afurða, enda eru vinnsluhús Samherja á Akureyri og Dalvík meðal þeirra fullkomnustu í heimi.