Fara í efni
Pistlar

Seigla er orð ársins

Þetta var einn af þessum heiðskíru sumardögum heima í Laufási. Sólin sparaði hvergi geisla sína og lognið var svo þungt að niðurinn frá Fnjóskánni hljómaði sem lúðrasveit á bæjarhlaðinu þar sem ég var í miklum ham með hrífuna að raka saman nýslegnu grasi. Ég hef kannski verið tíu ára og fann til mikillar tilhlökkunar að klára verkið svo ég gæti snúið mér að léttari iðju, til dæmis að hjóla niður í hólma og leita að sílum við sólsleginn árbakkann.

Ég uggði ekki að mér í sveita míns andlits og vissi ekki fyrr en illskeyttri brunatilfinningu lagði frá báðum framhandleggjum sem voru berir í sólinni. Ég hljóp full sjálfsvorkunnar inn í hús og tilkynnti föður mínum að ég hefði orðið fyrir vinnuslysi og sæi mér ekki fært að hirða meira hey kringum bæinn. Faðir minn sem hafði verið mörg sumur við frumstæð búverk austur í Bárðardal á fyrra hluta tuttuttugustu aldar sá ekki ástæðu til að verða við kröfum verkalýðsins heldur náði í góða krukku af júgursmyrsli í baðskápinn, smurði sár mín af varfærni en myndugleika, sagði mér svo að finna síðerma peysu og hvatti mig eindregið til að taka upp fyrri störf enda væru kraftar mínir ómetanlegir landi og þjóð. Ég man að ég sneri nokkuð undrandi til baka enda faðir minn þekktur fyrir mikla og góða samkennd og ást á sínum niðjum. Seinnipart dags hafði ég svo rakað öllu grasi saman framan við torfbæinn og var þá löngu búin að gleyma öllum mínum raunum. Ef það er eitthvað sem ég hef þakkað foreldrum mínum í gegnum árin annað en ást þeirra og umhyggju þá er það seiglan sem þau blésu mér og mínum systkinum í brjóst. Ég raunar sé hana líka sem ást, það er, seigluna.

Ég hef marga galla og er í eðli mínu afar breysk manneskja, það hefur ekkert með uppeldið að gera heldur eðli mitt, ég er hvatvís nautnaseggur, sveimhugi og oft á tíðum letiblóð en í mér býr engu að síður bévítans seigla sem ég þakka engum nema foreldrum mínum. Það hvarflaði til dæmis aldrei að mér að hætta í menntaskóla þó ég hefði fallið í öllum stærðfræðiáföngum nema kannski einum og þurft að taka suma þeirra upp oftar en einu sinni. Það hvarflaði einu sinni að mér að hætta í guðfræði á fyrsta ári en sú hugsun náði aldrei svo langt að ég orðaði hana við annað fólk. Mikið er ég nú þakklát því þá væri ég ekki prestur og ég sem elska starfið mitt. Árið 2020 hefur verið árið sem ég hef hvað oftast þakkað foreldrum mínum í huganum, þau voru ekkert fullkomin frekar en aðrir foreldrar í þátíð og nútíð en Guði sé lof fyrir seigluna hef ég oft hugsað í krabbameins kórónu einangrunar vistinni sem þetta ár hefur boðið upp á. Seigla er orð ársins. Orð dagsins.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Gangstétt varð gúmmíi að bráð

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. maí 2024 | kl. 16:30

Tengsl sitkagrenis við verkalýðsfélög

Skapti Hallgrímsson skrifar
01. maí 2024 | kl. 10:10

Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:45

Kartöflur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. apríl 2024 | kl. 11:30

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00