Fara í efni
Fréttir

Segja ríkið refsa Vélfagi án sakfellingar

„Með því að frysta fjármuni Vélfags án lagalegs grundvallar er íslenska ríkið í raun að refsa fyrirtæki eða eigendum þess sem hvorki hefur verið ákært né sakfellt fyrir nein brot, sætir ekki neinum viðurlögum og hefur engin bein viðskiptaleg tengsl við aðila eða fyrirtæki sem sæta þvingunum eða viðurlögum.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu á vef félagsins í dag. 

Utanríkisráðuneytið hafnaði með bréfi á föstudag formlegri beiðni Vélfags um að aflétta þeim þvingunaraðgerðum sem það hafði sett á félagið. Vélfag gerir alvarlegar athugasemdir við efni bréfs utanríkisráðuneytisins og lagalegan grundvöll ákvörðunar þar sem formlegri beiðni félagsins um að aflétta þvingunaraðgerðum sem ráðuneytið setti á félagið er hafnað.

Til skoðunar er hvort bréfið uppfylli bæði form- og efnisleg skilyrði til þess að teljast ákvörðun sem hægt sé að áfrýja, að því er fram kemur í yfirlýsingu sem Vélfag birti á vef sínum í dag. Áður hefur komið fram að Vélfag hafi stefnt íslenska ríkinu vegna þvingunaraðgerðanna

Deilan snýst um hver eða hverjir séu raunverulegir eigendur Vélfags. Í yfirlýsingunni, sem finna má í heild á vef félagsins, er meðal annars lögð áhersla á eftirtalin atriði: 

  • Að rökstuðningur ráðuneytisins byggi á ályktunum fremur en sönnunargögnum og gangi þvert gegn meginreglu Evrópuréttar um að ríkið beri sönnunarbyrðina um að félag sé undir stjórn eða yfirráðum aðila á viðurlagalista.
  • Að stjórnvöldum beri að byggja ákvarðanir um frystingu fjármuna á „nægjanlegum og rökstuddum gögnum“ sem sýna fram á raunveruleg yfirráð eða stjórn. Engin slík sönnun hafi verið lögð fram um að Vélfag, núverandi eigendur þess eða stjórnendur séu tengdir við aðila sem sæta viðurlögum.
  • Að óheimilt sé að beita þvingunaraðgerðum gegn sjálfstæðu félagi nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að raunveruleg stjórn sé í höndum aðila á viðurlagalista – sem ekki eigi við um Vélfag.
  • Að ríkisvald geti ekki „þvingað til hliðar“ eða útvíkkað bann til óskyldra félaga nema slík tengsl séu sannanlega staðfest með gögnum.
  • Að ákvörðunin snúi á hvolf grundvallarreglu réttarríkisins þar sem ríkið beri sönnunarbyrðina – en ekki einkaaðilinn sem verður fyrir áhrifum refsingarinnar.
  • Að í stað þess að sýna fram á tengsl hafi ráðuneytið krafist þess að Vélfag sanni hið gagnstæða – að engin tengsl séu til staðar. Slík framkvæmd sé í andstöðu við evrópsk lög, dómaframkvæmd og bestu stjórnsýsluvenjur innan EES.
  • að rökstuðningurinn byggi einnig á ófullnægjandi og gölluðum rannsóknargrundvelli og brjóti í bága við meginreglur um meðalhóf (proportionality) og réttláta málsmeðferð (due process).
  • Að þvingunaraðgerðir eigi samkvæmt evrópskum leiðbeiningum að vera tímabundnar, málefnalegar og hlutfallslegar – en ekki refsandi eða tilviljanakenndar.
  • Að samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna beri íslenskum stjórnvöldum að fylgja evrópskum viðmiðunum við mat á tengslum eða stjórn, og ekki ganga lengra í framkvæmd en kveðið er á um í viðkomandi ESB-reglugerðum. Þegar stjórnvöld gangi lengra en Evrópusambandið sjálft gerir ráð fyrir við framkvæmd viðurlaga sé það skilgreint sem svokölluð „gullhúðun“ (gold-plating).
  • Að í þessu tilviki hafi íslensk stjórnvöld útvíkkað gildissvið viðurlaga án lagastoðar með því að frysta fjármuni óháðs, íslensks félags – í beinni andstöðu við leiðbeiningar ESB-ráðsins frá júlí 2024 og túlkun Bundesbank í Þýskalandi. Slík framkvæmd skapi hættulegt fordæmi innan EES og brjóti gegn jafnræðisreglu samningsins.

Loks segir í yfirlýsingu félagsins að Vélfag hafi verið lykilþáttur í íslenskum sjávarútvegi í tæpa þrjá áratugi og vélar félagsins séu í notkun hjá meirihluta íslenskra frystitogara og hjá fjölmörgum landvinnslum. Afleiðingar þess að frysta fjármuni félagsins án sönnunar séu því ekki aðeins efnahagslegar heldur einnig samfélagslegar, þær ógni störfum, nýsköpun og sjálfstæði íslensks sjávarútvegs.

„Stjórnendur Vélfags hafa ítrekað sýnt fram á samvinnuvilja og gagnsæi gagnvart stjórnvöldum og afhent öll gögn sem beðið hefur verið um,“ segir í yfirlýsingunni, en að á móti hafi ráðuneytið ekki lagt fram nein gögn sem styðji ákvörðun þess, né heldur tilgreint hvaða upplýsingar þurfi að leggja fram til að aflétta höftunum. „Félagið mun áfram nýta öll lagaleg úrræði innanlands og á vettvangi EFTA og EES til að verja rétt sinn, starfsmenn sína og framtíð Vélfags og íslensks sjávarútvegs.“