Níu starfsmönnum Vélfags sagt upp

Níu starfsmönnum tæknifyrirtækisins Vélfags á Akureyri var sagt upp störfum í gær og framkvæmdastjóri félagsins, Trausti Árnason, hefur sagt starfi sínu lausu. Fyrirtækið hefur sætt viðskiptaþvingunum, sem eru hluti aðgerða gegn Rússlandi vegna innrásarstríðsins í Úkraínu.
Morgunblaðið sagði fyrst frá uppsögnunum í morgun. „Viðskiptaþvinganirnar sem Vélfag sætir eru hluti af aðgerðum Íslands, Noregs og Evrópusambandsins gegn rússneskum fyrirtækjum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Norebo er talið tengjast svonefndum skuggaflota Rússa, flota skipa sem þeir nota til þess að komast í kringum refsiaðgerðir og fremja skemmdarverk gegn vestrænum ríkjum,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
- Frétt mbl.is í morgun: Níu starfsmönnum sagt upp
Núverandi meirihlutaeigandi er kaupsýslumaðurinn Ivan Nicolai Kaufmann sem eignaðist hlutinn 16. maí árið 2023, fjórum dögum áður en ESB tilkynnti að Norebo yrði beitt þvingunaraðgerðum. Hann þvertekur fyrir að hafa keypt fyrirtækið til málamynda en segir í samtali við RÚV í kvöld að tímasetningin líti vissulega illa út. Ítarlega var fjallað um málið í fréttatíma RÚV.
- Frétt RÚV í kvöld: Þvertekur fyrir að vera leppur eða tengjast rússneska skuggaflotanum