Fara í efni
Fréttir

Vilja ráða fv. forseta EFTA-dómstólsins

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins. Mynd af Facebook síðu Vélfags.

Tæknifyrirtækið Vélfag á Akureyri hyggst ráða Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, til að gæta hagsmuna fyrirtækisins gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólnum, „í þeim málum sem hann telur nauðsynlegt að hefja gegn íslenska ríkinu vegna þeirra þvingunaraðgerða sem félagið sætir,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Vélfags í morgun.

„Dr. Baudenbacher er einn virtasti sérfræðingur Evrópu í Evrópurétti, svissneskum og alþjóðlegum viðskiptalögum. Hann var dómari við EFTA-dómstólinn frá 1995 til 2018, þar af forseti hans frá 2003 til 2017, og hefur stýrt yfir 230 málum, þar á meðal fjölmörgum fordæmamálum innan EES-samstarfsins,“ segir í tilkynningu Vélfags.

  • VIÐSKIPTAÞVINGANIR
    Vélfag hefur sætt viðskiptaþvingunum, sem eru hluti aðgerða Íslands, Nor­egs og Evr­ópu­sam­bands­ins gegn rúss­nesk­um fyr­ir­tækj­um vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.

    Rússneska útgerðarfélagið Nor­e­bo, sem keypti meirihluta í Vélfagi í ársbyrjun 2022, er talið tengj­ast svo­nefnd­um skugga­flota Rússa, flota skipa sem þeir nota til þess að kom­ast í kring­um refsiaðgerðir og fremja skemmd­ar­verk gegn vest­ræn­um ríkj­um.

    Kaupsýslumaðurinn Ivan Nicolai Kauf­mann frá Liechtensein keypti hlut Norebo í Vélfagi vorið 2023 og þvertekur fyrir að kaupin hafi verið til málamynda; að hann sé ekki raunverulegur eigandi. Hann kveðst ekki tengjast Norebo með nokkrum hætti, eins og utanríkisráðuneytið telur, og bæði Kaufmann og Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags, hafa gagnrýnt ráðuneytið og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra, harðlega. 

Brýnt að hefja mál án tafar

Í tilkynningu Vélfags í morgun kemur fram að Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður félagsins, hafi í gær óskað eftir formlegri staðfestingu frá utanríkisráðuneytinu „um heimild til að ráða Prof. Dr. Dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem lögmann félagsins.“

Erindið frá Sigurði „byggir á þeim takmörkuðu heimildum sem ráðuneytið hefur veitt Vélfagi til ráðstöfunar fjármuna og samningsgerðar, sbr. ákvörðun ráðuneytisins frá 19. september sl.“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt mati Dr. Baudenbacher er brýnt að hefja málsmeðferð gegn íslenska ríkinu án tafar, „óháð því máli sem Vélfag rekur nú þegar gegn íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og verður flutt á næstu dögum.“

Tómlegt var um að litast í húsakynnum Vélfags þegar akureyri.net kom þar við á dögunum. Níu starfsmönnum félagsins var sagt upp störfum í ágúst. Myndir: Skapti Hallgrímsson

„Stjórnsýsluofbeldi“

„Þar sem engin hreyfing er á hlutunum hérna heima fyrir og við fáum engin svör þá erum við eðlilega knúin til að leita út fyrir landsteinanna í von um réttláta og eðlilega lagalega málsmeðferð,“ segir Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags, á Facebook síðu sinni í morgun.

Alfreð segir fyrirtækið sækja af öllu afli. „Ég átta mig ekki á því hvað íslensk stjórnvöld töldu sig geta beitt okkur í Vélfagi lengi því stjórnsýsluofbeldi sem við höfum mátt þola, án þess að eiga von á því að við myndum sækja rétt okkar þangað þar sem þau lög sem við erum beitt, voru rituð,“ segir Alfreð.
 

Hvort Vélfag ehf. nái að lifa af og sjá þetta réttlæti ná fram að ganga er hinsvegar ennþá í höndunum á óhæfri íslenskri stjórnsýslu, sem virðist ekki hafa burði til að túlka og/eða framfylgja réttilega þeim lögum sem við tökum hrátt upp frá [Evrópusambandinu]. Það er innileg von mín að við náum að halda fyrirtækinu á floti og vinna það uppúr þeim ómælda skaða sem stjórnsýslan hefur valdið því.

Facebook síða Vélfags