Gat ekki greitt vegna aðgerða ríkis og banka
Forsvarsmenn tæknifyrirtækisins Vélfags á Akureyri segja í tilkynningu í dag að það sé ekki vanefnd, að kaupsýslumaðurinn Nicolai Kaufmann hafi ekki greitt fyrir hlutinn sem hann keypti í félaginu á sínum tíma, heldur hafi það verið ómögulegt vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda og Arion banka áður en kom að gjalddaga.
Vélfag er eina íslenska fyrirtækið sem sætir efnahagslegum þvingunaraðgerðum, eins og áður hefur verið fjallað um; aðgerðum sem eru hluti af viðbrögðum Íslands, Noregs og Evrópusambandsins við innrás Rússa í Úkraínu. Kaufmann, núverandi meirihlutaeigandi, er kaupsýslumaður frá Liechtenstein en einnig með svissneskan ríkisborgararétt.
Aðalmeðferð í máli Kaufmann og Vélfags gegn íslenska ríkinu fór fram í héraðsdómi í dag og meðal þess sem fram kom í máli lögmanns ríkisins var að ríkið hefði ekki fengið staðfest að Kaufmann hefði greitt kaupverðið.
Yfirlýsing Vélfags í dag er svohljóðandi í heild:
Kaupsamningurinn milli Nikita Orlov og Ivan Nicolai Kaufmann var undirritaður 16. maí 2025 og kvað skýrt á um að kaupverð skyldi greitt eigi síðar en 90 dögum eftir undirritun.
Það er algengt greiðslufyrirkomulag í alþjóðlegum viðskiptum, þar sem endanleg yfirfærsla á hlutabréfum fer fram eftir að staðfesting liggur fyrir frá bönkum og yfirvöldum – sérstaklega meðan á áreiðanleikakönnun stendur.
Arion banki tók ákvörðun um frystingu fjármuna Vélfags þann 8. júlí 2025.
Að mati félagsins og hluthafa þess er skýrt að ekki voru skilyrði til þeirrar frystingar, enda hefur félagið engin tengsl við aðila á alþjóðlegum þvingunarlistum og bankinn hafði undir höndum skjöl til staðfestingar á því.
Frysting fjármunanna hafði því átt sér stað talsvert löngu áður en gjalddagi kaupverðsins rann upp þann 14. ágúst 2025.
Frystingin leiddi það af sér að kaupandi taldi sér ekki óhætt að greiða kaupverðið, vegna þess möguleika að bankinn eða ráðuneytið myndu draga réttmæti slíkrar greiðslu í efa og, eftir atvikum, beita kaupanda aðgerðum vegna þessa.
Það þýðir einfaldlega:
Greiðslan var ekki vanefnd, heldur kom upp ómöguleiki til efnda vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda og Arion banka áður en kom að gjalddaga.
Auk þess tók Ivan Kaufmann yfir skuldir félagsins upp á um 10 milljónir Bandaríkjadala, til viðbótar við kaupverð að fjárhæð 750.000 USD. Það eitt sýnir bæði fjárhagslega getu hans og raunverulegan vilja til að fjárfesta í félaginu og tryggja áframhaldandi starfsemi þess.
Í beinu streymi RÚV af aðalmeðferð málsins komu útskýringar lögmanns Ivan Kaufmanns á greiðslum hins vegar ekki fram.
Síðar sama dag kom fram í frétt RÚV undir fyrirsögninni
„Telja ósannað að engin tengsl séu lengur á milli Kaufmann og Orlov-feðga,“ og var haft eftir ríkislögmanni að „Kaufmann hafi enn ekkert greitt fyrir fyrirtækið Vélfag sem áður var í eigu Nikita Orlov.“
Slík framsetning, án þess að tekið sé fram að greiðslan hafi hvorki verið komin til gjalddaga né verið framkvæmanleg vegna frystingar af hálfu banka og utanríkisráðuneytisins, getur auðveldlega reynst villandi fyrir lesandann.
Frá Vélfag ehf.
Vélfag leggur áherslu á að málið verði leyst á málefnalegan hátt fyrir dómstólum og að allar staðreyndir komi skýrt fram í réttu samhengi.
Félagið hefur ávallt starfað í samræmi við lög og reglur og treystir því að réttlæti og fagleg málsmeðferð muni ráða úrslitum að lokum.