Vélfag varð undir í héraðsdómi
Íslenska ríkið hefur verið sýknað af kröfum Vélfags og meirihlutaeiganda þess, að því er fram kemur í frétt Vísis í morgun. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann dóm í morgun, en dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Dómstólasýslunnar.
Vélfag höfðaði tvenns konar mál fyrir héraðsdómi. Annars vegar til að fá hnekkt þeirri ákvörðun utanríkisráðuneytisins að hafna beiðni fyrirtækisins um að skrá Ivan Kaufmann, meirihlutaeiganda fyrirtækisins, sem stjórnarformann og hins vegar var krafa Vélfags að ákvörðun Arion banka um að frysta fjármuni fyrirtækisins í júlí yrði endurskoðuð. Rök Arion banka fyrir frystingunni voru að Kaufmann hafi verið skráður eigandi þess til málamynda fyrir hönd Norebo JSC, rússnesks félags sem er á þvingunarlista Evrópusambandsins vegna tilrauna rússneskra stjórnvalda til að valda óstöðugleika í Evrópu.
Vélfag var í eigu dótturfélags Norebo fram til ársins 2023 og í gegnum nátengdan aðila, en í sumar keypti Kaufmann meirhluta hlutafjár í Vélfagi.
Þann 10. nóvember hafnaði utanríkisráðuneytið beiðni Vélfags um framlengingu á undanþágu sem hafði gert félaginu kleift að halda áfram lögmætum rekstri undir ströngu eftirliti. Daginn eftir tilkynnti fyrirtækið að vegna ákvörðunar ráðuneytisins hafi félagið neyðst til að stöðva starfsemi sína tímabundið og senda alla starfsmenn heim á meðan beðið væri dóms í máli félagsins gegn ríkinu. „Ákvörðun ráðuneytisins hefur í reynd svipt félagið aðgengi að eigin fjármunum og gert því ómögulegt að sinna daglegum rekstri, þar með talið greiðslum til starfsfólks og þjónustu við viðskiptavini,“ segir meðal annars í frétt á vef Vélfags 11. nóvember.
Líklegt verður að teljast að Vélfag muni áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar.