Fara í efni
Umræðan

Samfélagið og ég

Ástæða þess að ég fékk löngun til að stinga niður penna og skrifa smá hugleiðingar um samfélagið okkar er sú að stundum finnst mér eins og það gleymist hvað það er að búa í og taka þátt í samfélagi. Hverjar eru skyldur okkar og hvers vegna völdum við þetta form, hvort heldur það er bæjarfélag, sveitahreppur eða landið allt, ríkið. Í stað þess að spyrja okkur „hvað get ég gert eða lagt af mörkum fyrir samfélagið mitt” er æ algengara að heyra „hvað ætlar samfélagið að gera í þessu eða hinu“, eða það sem er sýnu verra þegar þetta snýst í algera andhverfu sína og verður „ég á og ég má“ og „samfélagið á að skaffa mér þetta og hitt“. Svo gleymist líka stundum hvað hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar okkar mega samþykkja fyrir samfélagið okkar án þess að það sé borið undir aðra meðlimi í stórfjölskyldunni.

Fjölskylda eða samfélag

Í raun er mjög margt líkt með fjölskyldu og samfélagi þó svo verkefnin og viðfangsefnin séu ekki þau sömu. Mér dettur þó ekki í hug að ætlast til að sama ást ríki til allra í samfélagi eins og innan fjölskyldu þar sem allt leikur í lyndi, en virðing, samkennd og samhjálp á hinsvegar að geta þrifist í góðu samfélagi.

Meinsemdirnar eru margar í samfélaginu, en hvers vegna?

Hælisleitendur, ofurlaun, loftslagsmál, fyrirtæki eða einstaklingar sem arðræna auðlindir, vildarsala á ríkiseignum, ofsagróði einstakra fyrirtækja, skattsvik, græðgi, valdafíkn eða jafnvel aumingjavæðing. Allt eru þetta orð sem ég gæti skrifað pistla um hvert og eitt, en ein af stóru meinsemdunum í samfélaginu nú er óvægin hatursorðræða, þar sem fólk er sjálkrafa sett í ákveðna flokka ef það leyfir sér að viðra skoðanir sínar á einhverjum af þessu málum. Þannig er t.d. orðið erfitt að taka þátt í umræðu um loftslagsmál nema þú ákveðir bara að vera sammála meginstraumnum, jafnvel þó þú vitir og hafir þekkingu til að bakka uppi að sumt sé þar byggt á röngum upplýsingum eins og t.d. meint kolefnisspor íslensku húsdýranna. Svipað er með umræðu um vandann sem samfélagið stendur frammi fyrir varðandi margföldun í fjölda hælisleitenda. Fyrir mörgum jaðrar það við mannvonsku þegar einhverjum dettur í hug að við þurfum að stemma stigu við þessu, herða reglurnar og vísa fleirum frá. Þetta snýst hinsvegar ekki um mannvonsku eða manngæsku eftir því hvorum hópnum þú ert merktur, þetta snýst um það hvað við sem samfélag erum megnug að gera umfram það að sinna okkar fólki sem skapaði saman þetta samfélag.

Myndum ekki líða þetta innan fjölskyldunnar

Margt af því sem er ákveðið og er að gerast í samfélaginu okkar myndum við aldrei líða innan fjölskyldunnar, eða hvað? Getum leikið okkur hér aðeins með nokkur dæmi úr samfélaginu og sett þau í fjölskyldubúning:

Má vinur minn gista?
er bara venjuleg og eðlileg spurning krakka eða unglinga innan fjölskyldu og já að sjálfsögðu fá vinir að gista eða koma í mat af og til, enda bæði gaman og gefandi. Alveg eins er bæði gaman og gefandi þegar samfélagið okkar getur tekið á móti fólki úr öðrum samfélögum sem auðgar mannlífið eða kemur með nýja þekkingu eða lærdómsrík viðhorf með sér. En allt á þó sín takmörk.

Ef barn kæmi heim einn daginn og spyrði hvort allur skólinn mætti koma heim og gista er ég hræddur um að fjölskyldufundur kæmist fljótt að því að það væri ekki hægt þó svo það væri gaman, því þá skorti verulega innviði og fjármagn á heimilinu til að sinna því. Fjölskyldan yrði ekki dæmd vond fjölskylda fyrir að neita þessu, en ef pabbinn eða mamman myndu daginn eftir andmæla því að við tækjum sem land á móti öllum hælisleitendum sem hingað vilja sækja væru þau allt í einu orðin vond, jafnvel þó svo þau vissu manna best að við gætum aðeins tekið á móti þeim sem við hefðum aðstöðu og fjármagn til að hjálpa og taka á móti. Hér horfir nú í þvílíkt óefni fyrir samfélagið okkar vegna margföldunar á fjölda hælisleitenda með álagi á innviði og kostnaði sem samfélagið okkar mun ekki ráða við. En já ég er líklega strax orðinn mannvondur við það eitt að skrifa þessa síðustu setningu.

Hvað má og hvað ekki?
Innan fjölskyldunnar ríkir yfirleitt gott samkomulag um að ekki megi eyða um efni fram og að allir þurfi að leggja eitthvað af mörkum. Það er þó breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni. Kannski er bara ein fyrirvinna en aðrir sinna heimilisverkum eða eru að mennta sig, en reglan er samt klár, það er samkomulag um hvað má og hvað má ekki og hverju má eyða í hitt og þetta.

Nákvæmlega eins átti þetta að vera í samfélaginu okkar, nema bara að vegna stærðar kjósum við okkur fulltrúa til að fara með þetta fjárveitingavald, fjárfesta í innviðum og halda í heiðri leikreglunum. Þannig má því spyrja. Hver hefur gefið þingmönnunum okkar og ráðherrum leyfi til að skrifa óútfylltan tékka fyrir komu hælisleitenda án þess að sú umræða sé tekin með faglegum rökum.

Hver hefur gefið leyfi fyrir því að ríkiseignir séu ítrekað seldar á undirverði til valinna aðila? Hvers vegna erum við sem samfélag ekki að taka á skattsvikum sem blasa við okkur þar sem meiri fjármunir eru á ferð en kostar að byggja upp marga af okkar mikilvægustu innviðum?

Hver gaf í þessu samfélagi okkar vilyrði fyrir því að stunda megi viðskipti með ofurhagnaði, en vera samt fyrirtæki sem flagga fallegum skjölum um samfélagsábyrgð? Hver hefur gefið grænt ljós á það að þjóðin borgi stórfé með fiskeldi annarra þjóða í náttúru Íslands?

Heiðarleiki í viðskipum og sanngirni
Í viðskipum er heiðarleiki og sanngirni að mínu viti æðstu mælistikurnar sem flest fyrirtæki horfa til með langtímasjónarmið rekstrarins að leiðarljósi, en í því felst einnig mesta raunverulega samfélagsábyrgðin og þátttaka í því sem við byggjum sem samfélag.

Á síðustu tímum mikillar verðbólgu í kjölfar covid og stríðsátaka er því ótrúlega gremjulegt að sjá bæði fjármálastofnanir og verslunarrisa birta uppgjör með stórauknum hagnaði.

Ég myndi skammast mín fyrir afkomuna ef ég væri bankastjóri
einhvers af aðal bönkunum þremur núna, ekki fyrir slaka afkomu, heldur fyrir óhóflega verðlagningu á þjónustunni og að taka þannig ekki eðlilegan þátt í áföllum samfélagsins. Sama get ég sagt um hluta af matvöruverslunargeiranum og olíusölufyrirtækjum sem hagnast sem aldrei fyrr. Í ofanálag erum við svo með svona algerlega absúrd stærðir í ofurlaunum eins og t.d. kemur fram í nýlegri frétt um að forstjóri Skeljar hafi 19 milljónir í mánaðarlaun.

Með þögninni verðlaunar samfélagið slíka einstaklinga og fyrirtæki sem með heilbrigðum mælistikum geta ekki talist sýna svo mikið sem vott af samfélagsábyrgð.

Ef við viljum breyta þessu þá þurfum við að byrja á að taka til í því hvernig umræða um hlutina fer fram þannig að fólk geti aftur tjáð sig frjálst án þess að verða fyrir útskúfun, eða niðurlægingu af þeim fáu háværu sem allt vita betur í samfélaginu. Síðan þurfum við að þora að taka á þessum augljósu spillingarmálum og óheilbrigðu græðgi sem víða þrífst.

Hólmgeir Karlsson  er framkvæmdastjóri á Akureyri og áhugamaður um samfélagsmál.

Sókn Landsnets gegn hagsmunum Akureyringa

Ólafur Kjartansson skrifar
17. maí 2024 | kl. 12:00

Um raflínur og tryggingafélög

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:50

Fjórða læknaferðin endurgreidd

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar
14. maí 2024 | kl. 17:00

Búum til börn

Ingibjörg Isaksen skrifar
12. maí 2024 | kl. 06:00

Akureyrarklíníkin

Friðbjörn Sigurðsson skrifar
11. maí 2024 | kl. 14:00

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10