Fara í efni
Minningargreinar

Rúnar Heiðar Sigmundsson

Gleymi ekki augnaráði hans. Líklega var hann skelkaður. Jafnvel hræddur. Kominn með soninn í ógöngur, varla af fermingaraldri. Um harðavetur. Aðvífandi þoka í grennd. Eftir allan sólríka morguninn. Og fönnin svo skreip að fætur okkar náðu varla festu í fjallinu.

En Kerlingin brást okkur ekki frekar en fyrri daginn. Hélt okkur í faðmi sínum upp á brún og þaðan eftir ísilögðum toppnum.

Höfðum sumsé látið þann gamla draum pabba rætast að fara á hæsta fjall Norðurlands að vestanverðu. Öfugum megin. Það var í anda karlsins. Að erfiða meira en á þurfti að halda.

Og svo birti í skyndingu. Það var eftir öðru í lífi okkar feðga. Skýin sátu aldrei lengi á herðum okkar. Svo við gengum út með öllum bálkinum, yfir Bónda, Krummana litla sem stóra og þaðan yfir Súlurnar, syðri og ytri. En þurftum ekki að segja margt, ekki frekar en í öðrum ferðum okkar.

Enda sagðirðu einhverju sinni við mig: Í náttúrunni eru orðin óþörf.

Og þetta er myndin sem ég ætla að hafa fyrir sjónum mínum það sem eftir er. Við pabbi á fjöllum. Strýtu náttúrlega, Kaldbaki, Herðubreið, Snæfelli, en kannski einkanlega á Ströndum norður, á Drangajökli, Kálfatindum, Glissu, Töflu og Urðartindi.

Og svo náðum við að sofna saman í Drangaskörðunum. Um hábjartan dag. Vaktir upp af sjófuglum sem steyptu sér yfir okkur eins og orrustuþotur.

Og við sögðum náttúrlega ekki orð þegar við vöknuðum, skottuðumst bara á tveimur jafnfljótum yfir í Ófeigsfjörð og þaðan um heiðina í Ingólfsfjörð, upp slakkann og ofan í Melavíkina með engin fyrir augum okkar sem afi sló með orfi og ljá af því að það var alltaf svo kalt að sitja traktorinn. Þá var nú betra að hreyfa sig. Til þess væri skrokkurinn.

En svona erum við. Ekkert fær því breytt.

Og þú munt áfram skima yfir fjallahringinn á Ströndum norður. Ég sé þig fyrir mér að stórstíga grasbalana. Syngjandi Kötukvæðið. Og þakklátur, ævinlega.

Jafn þakklátur og ég verð hér eftir sem hingað til.

Sigmundur Ernir.

Anna Jónsdóttir

Kristín Sveinbjörnsdóttir skrifar
20. október 2025 | kl. 18:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hulda Einarsdóttir skrifar
08. október 2025 | kl. 06:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Helga Björg Jónasardóttir skrifar
05. október 2025 | kl. 12:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Vala Ólöf Jónasdóttir skrifar
26. september 2025 | kl. 08:30

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar
25. september 2025 | kl. 08:30

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Sigríður María Bjarnadóttir og Vilborg Karlsdóttir skrifa
25. september 2025 | kl. 06:00