Fara í efni
Pistlar

Öfgafullur afdalamaður

Það er ekki ofsögum sagt með þessa Íslendinga, sem hvarvetna þykjast skara fram úr og vita allt betur en aðrir. Stundum er þetta virkilega hvimleitt, stundum hjákátlegt. Ég vissi allavega ekki hvort ég ætti að hrista höfuðið eða skella upp úr þegar ég heyrði því fleygt að Aðalsteinn Öfgar væri ekki til nema í huga mér, hann væri uppspuni frá rótum! Ég gat ekki annað en móðgast fyrir hönd hans þar sem hann situr sveittur undir fræðilegum fyrirlestrum og opnar sig í grúppum á Vogi þessa dagana. Svo hef ég líka heyrt fólk hneykslast á þessum öfgafulla afdalamanni og skoðunum hans en það er þó fólk sem veit að maðurinn er til.

Ég held að landsmenn ættu að líta sér nær og skoða hvers vegna við erum með allt niðrum okkur þrátt fyrir blómlegan sjávarútveg og blússandi ferðaþjónustu í bland við alls kyns líftækni og lyfjaiðnað, orkuframleiðslu, hreina vatnið, skáldskap og frumkvöðlastarf til sjávar og sveita. Margir fara auðveldu leiðina og skamma ríkisstjórnina á hverjum tíma eða þetta forríka eina prósent sem fer svo mjög fyrir brjóstið á fólki. En aftur... við mættum líta okkur nær.

Getur verið að einhver okkar séu að rasa um ráð fram og halda hér uppi verðbólgu, okurvöxtum og almennri þenslu í hagkerfinu vegna bullandi neysluhyggju og skammsýni? Er kaupæðið í kringum erlenda netverslun og hvers kyns gerviþarfahyggju og eilífan samanburð og uppdiktaðan skort á drasli orðið að þjóðarmeini sem heldur venjulegu fólki í gíslingu? Það þýðir ekkert að vera að jarma yfir ríku einu prósenti þegar kannski 30-50 prósent þjóðarinnar er á eilífu neyslufylleríi og kortastrauelsi með þeim afleiðingum að háir vextir og tilraunir til aðhalds í ríkisbúskapi mega sín einskis og þess vegna munu börnin okkar á leigumarkaði eða sem væntanlegir kaupendur vera áfram föst í spennitreyju.

Stundum finnst mér sem helmingur þjóðarinnar sé staddur í einhverju fjárans smartlandinu þar sem glamúr og gylliboð valda glýju í augum og geggjun í sálinni. Kaupa, monta sig, henda; kaupa nýtt, monta sig meira, henda. Eilíf samkeppni í vinahópunum, kaupstríð, eignametingur, tækjasöfnun, gæludýrafár, ofurferðalög og vitleysisgangur fyrir opnum tjöldum þar sem búbblurnar, duftið og töfralyfin drífa skemmtunina áfram uns einhverjir springa á limminu og verða fyrir kali á líkama og sál.

Á ríkisstjórnin að ráða við þetta eða? Kannski seðlabankastjóri? Hvað með forsetann, biskupinn, einstaka ráðherra, sveitarstjórnir, fjórða valdið (fjölmiðla), ferðamálastjóra, landvættina, landsliðsþjálfara, forstjóra Hvals, ömmu Siggu, einhvern gaur í álveri... bara hvern sem er? Það hlýtur að vera hægt að benda á einhvern, drulla yfir viðkomandi, skila skömminni, skekja hnefann eða básúna á samfélagsmiðlum, fordæma, frysta, slaufa og smætta og ég veit ekki hvað og hvað.

Nei, ég held að við verðum öll að líta í eigin barm, rifa seglin, slaka aðeins á, einfalda lífið, hugsa um manneskjur frekar en munað, hætta þessu kapphlaupi og einfaldlega loka á hið gegndarlausa og eyðileggjandi áreiti sem að mestu er stjórnað af erlendum stórfyrirtækjum með algrími og gervigreind að vopni. Þetta er gjörsamlega galin múgsefjun. Rísum upp, hvert fyrir sig, fyrir okkur sjálf, fyrir hvert annað, stöndum saman gegn græðginni og eigingirninni sem eitrar tilveru okkar og tætir í sundur vonir fjölmargra samborgara okkar um mannsæmandi líf í þessu auðuga og fallega landi. Hættum þessu bulli og tökum til!

Lifið heil – og að lokum bið ég fyrir kveðjur frá Aðalsteini vini mínum en hann hringdi í mig af Vogi og segja má að pistillinn sé innblásinn af því samtali.

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og kennari og vinur Aðalsteins Öfgars

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30