Fara í efni
Umræðan

Norsk örnefni á Íslandi

Íslenska er upphaflega mál norskra innflytjenda. Með máli sínu tóku landnámsmenn með sér örnefni úr heimabyggð. Ekki hefur verið reynt að áætla hve stór hluti íslenskra örnefna hefur borist þannig með landnámsmönnum eða hversu mörg örnefni á Íslandi eru gerð að norskri fyrirmynd. Líkur benda þó til að þessi örnefni séu verulegur hluti íslenskra örnefna. Meginástæðan er að sjálfsögðu sú, að landslag og landshættir á Íslandi voru svipaðir og víða í Noregi, einkum í fjörðum á Vesturlandinu og norður eftir ströndinni allt til Hálogalands, þaðan sem flestir landsmannanna komu.

Einnig má nefna að viðhorf manna og lífsreynsla á Íslandi og í Noregi voru svipuð fyrstu aldir Íslandsbyggðar, svo og búskaparhættir. Þá mætti nefna að landnámsmenn hafi flutt með sér örnefni til Íslands til þess að minna á gamla landið. Það gerðu íslenskir vesturfarar á sínum tíma þegar þeir fluttu með sér íslensk nöfn til Vesturheims til þess að minna á gamla landið, án þess nokkur líkindi væru á milli. Þá eru mörg örnefni á Íslandi sniðin eftir landsháttum – þau eru náttúrunöfn, naturnavn eða terrengnavn, eins og Norðmenn hafa lengið kallað slík örnefni.

Til þess að sýna fram á örnefnaflutning frá Noregi til Íslands og renna stoðum undir tengsl íslenskra og norskra örnefna verða nefnd sjö dæmi – eitt fyrir hvern dag vikunnar – um alþekkt örnefni á Íslandi sem eiga sér hliðstæðu í Noregi.

Hekla
Hekla er sá staður á Íslandi sem lengst af hefur verið einna kunnastur umheiminum. Í Noregi koma fyrir örnefnin Hekleberg í Buskerud, Heklefjell á Upplöndum, Hekletindan í Nordland og á eynni Åmøya í Nordland er fjallið Heklan, 637 m hátt, og er talið heita eftir tenntu amboði sem lýst er sem „plate med spisse metalltenner som brukes til rensing av lin og hamp” eða “reiskap til å reinse lin”, “fordi fjellet er sundskoret i mange piggar”. Önnur norsk heklu-örnefni eru talin dregin af orðinu hekla ‘kápa’ „jamføring med snødekte toppar slik som í fjellnamna Kåpa,” eins og talið er að liggi að baki íslenska örnefninu.

Herðubreið
Herðubreið á Mývatnsöræfum er talið eitt fegursta fjall á Íslandi og var fjallið kjörið þjóðarfjall Íslendinga á alþjóðlegu ári fjallsins árið 2002. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum 1682 m á hæð, og Herðubreið við Eldgjá, 812 m, sunnan við Ófærufoss í Skuggafjallagjá. Fjallið Herdabreida er einnig að finna við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem einna flestir landnámsmenn komu. Nokkur líkindi eru með fjöllunum þótt fjalladrottningin sé mun tignarlegri og fallegra fjall og „herðabreiðara“ en Herdabreida við Harðangursfjörð.

Hvalfjörður
Örnefnið kemur aðeins fyrir á einum stað á Íslandi. Fjörðurinn dregur vafalítið nafn sitt af Hvalfelli, 848 m háu fjalli fyrir botni fjarðarins sem lítur út eins og hvalur ef horft er á það úr vestri, á sama hátt og örnefnið Reyðarfjörður sem dregur nafn sitt af Reyðarfjalli, sunnan fjarðarins og líkist hval, reyði, ef horft er á það úr suðri. Í Noregi er örnefnið að finna a.m.k. á fjórum stöðum, á þremur stöðum á Finnmörk. Þar má fyrst nefna Hvalfjorden, nyrst á Kvaløya, en á vesturströnd eyjunnar er bærinn Hammerfest. Kvalfjord er bóndabær sem stendur við Store Kvalfjordalen á Stjernøya, 50 km suðaustur af Hammerfest. Austan við Store Kvalfjordalen er Lille Kvalfjorden. Þessir firðir báðir eru innilokaðir af sundum og fjörðum og eru engar líkur til að hvalur hafi gengið þarna inn, enda er ég þess fullviss að firðirnir dragi nafn sitt af einhverju fjallinu á Stjernøya, þótt sumir norskir örnefnafræðingar telji að fjörðurinn „har sikkert namn av at det har komme inn kval der.“

Kaldbakur
Örnefnið kemur fyrir á a.m.k. 10 stöðum á Íslandi: þremur stöðum á Suðurlandi, þremur stöðum á Vestfjörðum og fjórum stöðum á Norðurlandi. Kaldbakur í Eyjafirði og Kaldbakur norðan Kaldbaksvíkur eru væntanlega kunnust þessara örnefna. Í Noregi koma fyrir örnefnin Kaldbaken, Kaldbakk og Kaldbakken. Kaldbaken í Møre og Romsdal er 976 m hátt fjall norður af Molde. Við sunnanverðan Sognsæ, skammt norður af Viksøyri, er bær sem heitir Kaldbakk, austan undir háu fjalli, í námunda við tvö Hestfjöll. Á Upplöndum – í Redalen austur af vatninu Mjøsa, er einnig bær sem ber nafnið Kaldbakken.

Norðfjörður
Örnefnið er aðeins að finna einu sinni í Örnefnaskrá Íslands. Afbrigðið Norðurfjörður kemur einnig einu sinni fyrir - á Ströndum - og í gömlum heimildum er Hesteyrarfjörður kallaður Norðfjörður. Merking örnefnisins virðist vera ‘nyrsti fjörður’ en gæti e.t.v. einnig verið ‘fjörðurinn sem veit í norður’. Örnefnið Nordfjord eða Nordfjorden kemur fyrir a.m.k. 15 sinnum í Noregi. Stærsti og kunnasti fjörðurinn með þessu nafni í Noregi er Nordfjord í Sogn og Fjordane. Í mynni fjarðarins er eyjan Bremanger en á henni stendur bærinn Berðla, Berle, en þar bjó Berðlu-Kári, félagi og fóstbróðir - og tengdafaðir Kveld-Úlfs. Við næsta fjörð, Førdefjorden, um 50 km sunnar, hinum megin við fjallið, stendur bærinn Kvellestad. Þar lifir enn sögnin um að Kveld-Úlfur Bjálfason hafi verið frá Kvellestad, *Kvöldstað, og hafi verið kallaður Úlfur frá Kvöldstað, en þar er kvöldsett.

Til gamans má geta þess að næst fyrir sunnan Førdefjorden er Dalsfjorden. Þar er bærinn Rivedal og er það er hald manna að Ingólfur landnámsmaður hafi komið þaðan og þar stendur nú stytta af honum. Að baki bæjarins í Rivedal stendur Blåfjell, Bláfjall, 708 m hátt. Auk þessa bera fjórir bóndabæir nafnið Norfjord: tveir í Finnmörku, annar á Sørøya og hinn við Syltefjorden, og tveir í Nordland við Mistfjord og hinn við Tørrfjord.

Skjaldbreiður
Örnefnið Skjaldbreiður er enn eitt af þessum örnefnum sem mörgum finnst hljóti að vera íslenskast af öllu sem íslenskt er, bæði vegna þess að fjallið blasir við frá Þingvelli við Öxará, svo og vegna kvæðis Jónasar um „fjallið, allra hæða val“. Örnefnið Skjaldbreiður kemur raunar víðar fyrir á Íslandi. Má nefna hæðardrag norðaustur af Heklu og á Skaga er smáhæð, 200 m á hæð, en þar norðan við er Skjaldbreiðarvatn. Þá er örnefnið að finna sem nafn á gróðurlendi vestast á Skeiðarársandi, sunnan Brunasands, og gæti hafa verið þar vatn áður. En örnefnið Skjaldbreiður er ekki íslenskara en svo að það er að finna allvíða í Noregi, bæði sem nafn á fjöllum og vötnum, sem virðist algengara, og er það of langt upp að telja.

Þelamörk
Þelamörk heitir austurhluti Hörgárdals. Orðið þeli merkir 'hrím', 'ís' eða 'kuldi'. Örnefnið Þelamörk merkir því 'hrímskógur'. Í hinum fögru sveitum Telemark í sunnanverðum Noregi hef ég upplifað hrímskóginn sem Snorri Hjartarson hefur lýst í kvæðinu Á Foldinni:

Á leið sinni upp frá sjónum
milli skógar og akra
hefur haustið numið staðar
í nótt við staka björk,
kveikt rautt bál
og ornað sér á höndum
og horfið undir morgun
á skóginn, til fjalls.

Skógur er löngu horfinn úr Hörgárdal, þótt þar sé nú verið að rækta skóg að nýju. Ekki er því unnt að upplifa hrímskóg á Þelamörk. Fyrrum var mikill birkiskógur á þessum slóðum og hefur hann vafalaust hrímað í frosti og hægviðri sem þarna var oft. Ekki er því ólíklegt að örnefnið Þelamörk í Hörgárdal sé eitt af mörgum dæmum um örnefni sem landnámsmenn tóku með sér að heiman.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15