Fara í efni
Minningargreinar

Kristinn Páll Einarsson

Elsku Kiddi, það er með miklum söknuði sem ég kveð þig nú. Ekki aðeins varstu einstaklega góður og ástkær tengdafaðir heldur frábær vinur. Já ég er afar þakklátur fyrir þann vinskap sem með okkur myndaðist og við áttum öll þessi ár og mun geyma hann með mér. Ég á eftir að sakna samræðnanna okkar um hin ýmsu málefni sem við ræddum þegar við hittumst, allt frá sjómennsku og pólitík til heimsmála og stöðunnar í þjóðfélaginu hverju sinni. Já við gátum svo sannarlega farið á flug í þessum samræðum yfir nokkrum kaffibollum. Matur var eitt af þínum uppáhalds áhugamálum og þú neitaðir aldrei góðum mat. Góður hafragrautur með „slettu“ af nýmjólk fékk þig til að brosa hringinn og ekki var það verra ef hægt var að fletta blaðinu á meðan. Þú varst einstaklega hlýr og hjartgóður maður sem ekkert aumt mátti sjá. Þú tókst utan um mann og faðmaðir við öll tækifæri, hældir manni, samgladdist og vildir alltaf hjálpa til. Hjálpsemi þín átti sér heldur enga hliðstæðu og þú vildir allt fyrir alla gera, meira að segja svo að sumum fannst full nóg um. Ekki vildir þú að haft væri fyrir þér þegar þú komst í heimsókn og gistir í herbergi 103. „Nei ekki vera að hafa fyrir karluglunni“ voru orð sem þú notaðir oft á meðan á heimsóknum þínum stóð. Hins vegar lagðir þú þig alltaf fram við að aðstoða okkur heimilisfólkið og stundum svo mjög að kaffibollinn manns var horfinn inn í uppþvottavél ef maður brá sér frá eitt augnablik, slík var hjálpsemi þín. Allir sem við þig könnuðust þekktu þína einstöku mannkosti. „Þetta er sómamaður“ voru orð sem þú notaðir oft þegar þú talaðir um samferðamenn þína enda talaðir þú vel um allt og alla. Þú hafðir líka einstakt lag á því að sjá spaugilegu hliðarnar á mönnum og málefnum sem urðu á vegi þínum á lífsleiðinni. Engan þekki ég betur sem hafði eins góðan frásagnarstíl og þú og gat maður hlegið og haft gaman af sögunum þínum sem þú hefur sagt okkur í öll þessi ár, sumar þeirra nokkrum sinnum, með öllum leikrænu tilburðunum. Það var líka í þínum karakter að segja frá því sem þú hafðir upplifað á æviskeiði þínu sem var ansi viðburðaríkt, áhugavert og stundum sprenghlægilegt. Þú hafðir einstakan húmor og gast búið til góðan brandara, vísu eða stutt lag við minnsta tilefni. Þú hlúðir einstaklega vel að börnunum þínum og varst í miklum samskiptum við þau bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þess fékk ég einnig að njóta enda hlúðir þú að tengdabörnum þínum jafnt á við þín eigin börn, slík var umhyggjusemi þín. Fyrir það er ég þér ævinlega þakklátur og á eftir að sakna mikið. Það er erfitt að koma því í orð því sem mig langar að segja um þig Kiddi. Það sem hér er hripað niður er bara brot af því sem mig langar að segja um þig, þær tilfinningar sem berast um í brjósti mér, en ég kem bara ekki í orð. Ég mun ávallt sakna þín Kiddi en minningarnar um þig munu lifa með okkur öllum og það læðist að mér sá grunur að sögur þínar verði sagðar um ókomna tíð.

Hvíl í friði elsku Kiddi.

Þinn vinur, þinn tengdasonur

Björgvin Narfi Ásgeirsson

Björg Finnbogadóttir

Óskar Magnússon skrifar
02. júní 2023 | kl. 21:00

Björg Finnbogadóttir

Bjarni Th. Bjarnason skrifar
02. júní 2023 | kl. 11:15

Björg Finnbogadóttir

Guðmundur Karl Jónsson skrifar
02. júní 2023 | kl. 11:00

Björg Finnbogadóttir

Ásta Björg Ingadóttir, Þorsteinn Ingason og Björn Ingason skrifa
02. júní 2023 | kl. 08:07

Björg Finnbogadóttir

Ingi Björnsson skrifar
02. júní 2023 | kl. 08:06

Björg Finnbogadóttir

Anna Jóna Guðmundsdóttir skrifar
02. júní 2023 | kl. 06:05