Fara í efni
Umræðan

Hvert er sveitarfélagið að stefna?

Sveitarfélög landsins eru að ljúka fjárhagsáætlanagerð þessa dagana í ástandi sem einkennist af háum vöxtum, verðbólgu og óvissutímum á vinnumarkaði. Hvert er þá hlutverk sveitarfélaganna?

Sýnum aðhald og ábyrgð

Til að ná niður verðbólgunni þurfa allir að leggja lóð sitt á vogarskálarnar. Sveitarfélög þurfa að sýna aðhald, varkárni í gjaldskrárhækkunum og álögum á íbúa og fyrirtæki, varast þenslu í framkvæmdum og um leið verja heimilin fyrir gríðarlegum hækkunum. Auðvitað hafa sveitarfélögin, rétt eins og heimilin, fundið fyrir bæði verðbólgu og vaxtahækkunum. Tekjur þeirra hafa hins vegar á sama tíma aukist töluvert í gegnum útsvar.

Hvað gerir Akureyrarbær?

Fjárhagsáætlun Akureyrar er um margt athyglisverð. Við erum að sjá miklar hækkanir á gjaldskrám, eða 9% að jafnaði. Þá leggur meirihlutinn til óbreytta fasteignaskattsprósentu, þrátt fyrir 16,6% hækkun á fasteignamati milli ára. Ekki á að sýna aðhald eða gefa eftir í framkvæmdum. Þvert á móti er stefnt á lántöku vegna nýrra fjárfestinga upp á rúman milljarð í A-hluta og það í háu vaxtaumhverfi.

Þrátt fyrir mikil uppbyggingaráform er ekki verið að vinna að því með sama krafti að taka á móti nýjum íbúum, og þannig auka tekjur sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Sem dæmi á að draga úr fjárveitingum til nýbyggingu gatna um 5.5% þrátt fyrir þá staðreynd að nú þegar hefur orðið mikil seinkun á að fyrstu lóðir í Móahverfi verði byggingarhæfar. Í núverandi vaxtaumhverfi munu verktakar eðlilega halda að sér höndum en sveitarfélögin mega samt ekki tefja fyrir íbúðauppbyggingu. Ef þau gera það, þá mun það aðeins valda áframhaldandi spennu á íbúðamarkaði þegar vextir taka að lækka og byggingarfyrirtækin fara að hugsa sér til hreyfings að nýju. Hættan er að við sitjum aftur uppi með lóðaskort á Akureyri og verðum af uppgangi og hagvexti fyrir okkar sveitarfélag. Það má ekki gerast, við höfum ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu í landinu og full ástæða til að sýna stórhug í þeim efnum.

Ekki tekin afstaða til fjármagns í nýja atvinnustefnu

Að endingu finnst okkur bæjarfulltrúum Framsóknar miður að ekki hafi verið tekin afstaða til tillögu okkar þess efnis að sett yrði fjármagn í nýja atvinnustefnu Akureyrarbæjar en þetta er í annað sinn sem því er hafnað. Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðila.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er oddviti Framsóknar á Akureyri

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03