Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Skólahúsið í Sandgerðisbót, Ós

Í syðsta og neðsta hluta Kræklingahlíðar tók, á síðustu áratugum 19. aldar, að myndast nokkur byggð smábýla í landi Bandagerðis og Lögmannshlíðar. Kallaðist þetta byggðalag Glerárþorp. Og kallast auðvitað enn, þó dagar smábýlanna og kotanna séu löngu liðnir. Mörg þeirra standa enn sem minnisvarðar og fulltrúar byggðarinnar og búskaparins sem áður var. (Auðvitað nýtir höfundur tækifærið og getur þess að gömul býli í þéttbýli, skuli ætíð vera friðuð). Í upphafi 20. aldar voru risin all nokkur hús á holtunum upp af Óseyri og í átt til fjalls. Þar bjuggu margar fjölskyldur og þar af leiðandi, töluverður fjöldi barna, sem þurftu að sjálfsögðu í skóla; lögin um fræðsluskyldu 1907 gerði það raunar skylt. Og hvað var þá annað í stöðunni en að reisa skólahús fyrir Glerárþorp.

Það var í febrúar árið 1908 sem hópur manna úr Glerárþorpi, sextán að tölu, tóku sig saman á fundi og ákváðu að reisa skólahús. Fundur þessi var haldinn að Glerárbakka, hjá Árna Árnasyni, sem mun hafa verið helsti hvatamaður þessarar brýnu framkvæmdar. Kallaðist þessi félagsskapur Skólahúsfélag Glerárþorps og sátu fimm manns í stjórn. Allir skuldbundu félagsmenn sig til þess að vinna í sjálfboðavinnu við byggingu hússins og ganga í ábyrgð fyrir 1000 króna lán hjá Íslandsbanka. Og til þess að setja þá upphæð í eitthvert samhengi, má þess geta, að árið 1908 kostaði ársáskrift að blaðinu Norðra 3 krónur, eða 25 aura á mánuði. Áskrift að ámóta blaði í dag gæti verið um 2500 krónur. Svo ljóst er, að 1000 krónur ársins 1908, gæti jafngilt um 10 milljónum á verðlagi ársins 2023. Byggingunni var valinn staður í flæðarmálinu, sunnarlega í Sandgerðisbót, og hefur byggingin líkast til hafist um vorið, en 1. nóvember 1908 var húsið tekið í notkun.

Ós er einlyft steinhús með lágu risi, hlaðið úr steyptum steinum (a.m.k. norðurstafn) og múrhúðað. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Yfir gluggum á framhlið eru steyptir, bogadregnir kantar. Að norðan er einlyft viðbygging úr timbri. Grunnflötur mælist á map.is um 7x8,5m og viðbygging gæti verið um 4x5m.

Stjórn hins sextán manna skólahúsfélags skipuðu téður Árni Árnason, Jón Kristjánsson í Sandgerði og Jóhannes Jóhannesson í Brautarholti. Byggingameistari var Páll Markússon múrari í Glerárholti, en hann var þá nýkominn úr námi í múriðn í Noregi. Húsið var steinhús, það fyrsta í Glerárþorpi og með fyrstu steinhúsum í Eyjafirði. Páll hafði árið áður byggt stærsta steinhús á landinu á sinni tíð, Gefjunarhúsið á Gleráreyrum. Var það einstakt stórvirki, fyrsta hús landsins með steinlofti (sbr. Páll Markússon, 1954) og því mikil synd, að það skyldi vera rifið í ársbyrjun 2007.

En fullbúið var skólahúsið 1. nóvember 1908 og var kostnaður við bygginguna alls 2300 krónur. Frá Stjórnarráðinu barst 400 króna styrkur, 1000 króna lán var tekið hjá Íslandsbanka en að öðru leyti var það fjármagnað af skólafélagsmönnum í formi fjármuna eða sjálfboðavinnu. Skólahúsfélagið, sem eigandi húsnæðisins, leigði það Glæsibæjarhreppi fyrir 6 krónur á mánuði í fjóra mánuði yfir veturinn og í því fólst upphitun (þ.e. leggja í kolaofn hússins) og ræsting.

En hvað bar fyrir augu barnanna í Glerárþorpi þegar þau settust á skólabekk, hjá Halldóri Friðjónssyni frá Sandi, í hinu nýreista skólahúsi í nóvember 1908? Það sem fangað mun hafa athygli margra þeirra voru hinir skrautlegu bogagluggar á framhlið, sem þá voru með mörgum litlum rúðum (sbr. Guðrún Sigurðardóttir 1978: 154). Eftir að hafa virt fyrir sér gluggana gengu þau inn í norðausturhorni hússins, þar sem var gangur eða anddyri með fatahengi. Þaðan var gengið inn í skólastofuna, þar sem kolaofn var við vegg hægra megin við dyrnar og í lofti stofunnar var steinolíulampi auk tveggja vegglampa. Ekki fylgir sögunni hvernig annar aðbúnaður var þarna innandyra en þarna var fyrstu árin steingólf og veggir einfaldir og óþiljaðir, líkast til aðeins ber steinn. Kannski sáu börnin eitthvað til Sigurjóns Jónssonar í Sandgerðisbót sem annaðist ræstingu og kolakyndingu hússins og var þannig nokkurs konar húsvörður.

Kennt var hér hvern vetur til ársins 1916. Halldór Friðjónsson, sem síðar stofnaði og ritstýrði blaðinu Verkamanninum, kenndi sem fyrr segir fyrsta veturinn en veturinn 1909-10 annaðist Ingibjörg Jóhannesdóttir í Árnesi kennsluna. Næstu tvo vetur kenndi Jón Kristjánsson í Glæsibæ en nokkrir aðrir komu að kennslunni, næstu árin. Árið 1916 dæmdi Héraðslæknir húsið óhæft til kennslu og fór fram á að húsið yrði þiljað að innan og bætt við hitunartæki. Ekki treysti hreppurinn sér til þeirra framkvæmda, sökum kostnaðar, svo næstu þrjá vetur var kennt á ýmsum bæjum í Þorpinu. En loks árið 1919 var trégólf lagt og settur nýr ofn í húsið og í ársbyrjun 1920 gat kennsla hafist að nýju. Enn átti þó eftir að þilja veggi, en það var gert árið 1922. Alls kostuðu þessar framkvæmdir 1745 krónur þar af fyrri framkvæmdirnar 750 krónur. Og svo þessar upphæðir séu aftur settar í samhengi má nefna, að árið 1922 voru fóðraðir skór með trébotnum auglýstir á 11,50 og 12,50kr. hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Ekki er ólíklegt, að sambærilegur skófatnaður kosti nú um eða yfir 5000 krónur.

Síðla árs 1922 var Skólahús Glerárþorps virt til brunabóta. Lýsingin var eftirfarandi: „Steinhús með timbur og pappaþaki. Ofn við múrpípu. Stærð 11,5x9,5x5ál[nir]. [11,5x9,5 álnir eru u.þ.b. 7,5x6m og 5 álnir rúmir 3 metrar]. Húsið er hólfað í sundur með steinvegg í: a) Skólastofa afþiljuð og b) Forstofu óþiljaða, tveggja álna og jafn langa og húsið er breytt“ (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1922 nr.120).

Sem fyrr segir, önnuðust ýmsir kennsluna fyrsta áratuginn, en haustið 1920 kom Jóhann Scheving að skólanum og kenndi hann þar í ein sautján ár, eða allt þar til skólinn fluttist úr húsinu. Í sögugöngu um Glerárþorp sem greinarhöfundur sótti sumarið 2000 var á meðal þátttakenda kona, sem hafði verið nemandi hjá Jóhanni í skólanum í Sandgerðisbót. Hún rifjaði upp og sagði eitthvað á þá leið að Jóhann Scheving hafi getað verið strangur og ekki allra, en alveg yndislegur maður. En „mikið óskaplega sem við krakkarnir gátum verið andstyggilegir við hann“ bætti hún við. Jóhann Scheving hélt áfram kennslu við Glerárskólann eftir flutninginn í nýja húsið og kenndi þar allt til 1949.

Húsið var ekki aðeins nýtt sem skólahús, heldur varð það fljótlega einnig félagsheimili Þorpsins. Ýmis félög, og samtök leigðu húsið til fundahalda og samkoma, m.a. Verkalýðsfélag Glerárþorps, Verkamannafélag Glæsibæjarhrepps og Kvenfélagið Baldursbrá. Það kann að hljóma ótrúlega, sé tekið mið af gólffleti hússins, að þarna hélt Knattspyrnufélag Glerárþorps leikfimiæfingar! (Sbr. Eiríkur Sigurðsson 1972:68). Það voru ekki aðeins dansleikir, fundir eða íþróttaæfingar sem fóru þarna fram, því þarna kom fólk saman til að hlusta á útvarp. Mun þetta hafa verið á fyrstu árum útvarps hérlendis (uppúr 1930) og útvörp ekki á hverju heimili í Þorpinu. En í skólahúsinu í Sandgerðisbót var sem sagt útvarp sem almenningur gat komið og hlustað á.

Árin 1937 var reistur nýr Glerárskóli ofar í Þorpinu og lauk þá hlutverki Skólahússins í Sandgerðisbót. Áfram var húsið þó nýtt til samkomuhalds uns það var selt árið 1942. Var því þá breytt í íbúðarhús, sem það var í áratugi eftir það. Hlaut húsið nafnið Ós eftir að búseta hófst þar, en framan af kallaðist það einfaldlega skólahúsið í Sandgerðisbót. Mögulega var það Tryggvi Kristjánsson sem keypti húsið af Skólahúsfélaginu, en hann var alltént eigandi hússins árið 1949, er hann auglýsir það til sölu. Búið var í Ósi fram undir lok 20. aldar en síðustu áratugi hefur það verið verkstæðishús.

Ós er látlaust hús sem lætur lítið yfir sér og virðist við fyrstu sýn í engu frábrugðið nærliggjandi verbúðum, verkstæðishúsum og geymsluhúsum. Það á sér engu að síður afar merka sögu og er að öllum líkindum annað elsta steinsteypuhús á Akureyri, á eftir Steinöld við Hríseyjargötu 1. (Hér flokkast hús, hlaðin úr steyptum steini, sem steinsteypuhús). Það hefur hlotið afbragðs gott viðhald og búið að endurgera upprunalega gluggaumgjörð, þ.e. bogadregnu kantana. Þá setur sýnileg steinhleðsla norðurstafns skemmtilegan svip á húsið. Fyrir liggja teikningar Guðjóns Þ. Sigfússonar að viðbyggingu við húsið og þar um að ræða veglega verkstæðisbyggingu. Enda þótt sú bygging verði í raun mikið stærri en upprunalega húsið kemur hún ekki til með að spilla því mjög, því byggingarnar verða vel aðgreindar með stuttum tengigangi. Ós er yfir 100 ára gömul bygging og því aldursfriðuð en ætti í raun að njóta sérstakrar friðlýsingar vegna sögulegs gildis. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 26. janúar 2023 en sumarmyndin er tekin 27. maí 2007.

Heimildir:

Eiríkur Sigurðsson. 1972. Barnaskóli á Akureyri í 100 ár. Fræðsluráð Akureyrar.

Guðrún Sigurðardóttir. 1978. Barnaskólahúsið í Sandgerðisbót og skólahaldið þar. Í Súlum, norðlensku tímariti, 8. árg. Bls. 152-163.

Páll Markússon. 1954. Hann sá bæinn vaxa úr óásjálegum kofum – en mest var þó breytingin á verkamönnum. Viðtal við Pál Markússon áttræðan í Þjóðviljanum. B.J. skráði. 180. tbl. 19. árg. Bls. 7.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Virðingabók Brunabótafélags Glæsibæjarhrepps 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Sérstakar þakkir færir greinarhöfundur Guðrúnu Sigurðardóttur fyrir bókina Barnaskóli á Akureyri í 100 ár auk ánægjulegs og fróðlegs samtals þ. 31. jan. sl.

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
08. júní 2024 | kl. 14:50