Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Lundeyri; in memoriam

Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust, múrhúðað timburhús  á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Hér verður stiklað á stóru úr sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.

Það er dálítið örðugra að kortleggja sögu Glerárþorpsbýlanna heldur en húsa í eldri hverfunum sunnan Glerár. Ástæðan er m.a. sú, að Glerárþorp tilheyrði ekki Akureyri fyrr en 1955 og þau hús komu því ekki inn á borð bygginganefndar bæjarins. Sambærileg nefnd virðist ekki hafa verið starfrækt í Glæsibæjarhreppi. Skipulagsmál bygginga í dreifbýli lúta eðlilega öðrum lögmálum en í bæjum; menn átti jarðir eða jarðaskika og byggðu þar einfaldlega sín íbúðar- og gripahús án nokkurra afskipta, enda þurfti ekki að huga að götumyndum eða útliti bygginga.

Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær hafi fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þá er Lundeyri lýst svona:

„Nýbýli með útveggjum úr torfi á 3 vegu og torfþaki. Timburhlið að framan. Stærð 11+5+5+2 ¾ +2 ¼ álnir. Skiftist [svo] í: a) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað, með eldavél við múrpípu. b) Gangur: Stærð 2+5+2 ¾ al. c) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað með ofni og rörleiðslu í gegnum 2 þil og ganginn inn í múrpípuna. Kjallari undir húsinu“ (Brunabótafélag Íslands 1918: nr. 58). Það er kannski ekki gott að átta sig á þessum málum, þar sem þau eru öll samanlögð en ekki margfölduð. Í þessu mati er byggingarárið sagt 1917 en í heimildum er einnig getið byggingarársins 1918 (Lárus Zophoníasson, Steindór Steindórsson). Hversu stórt Lundeyrarlandið var, virðist ekki fylgja sögunni en býlinu fylgdi a.m.k. tún norðan við húsið en lönd Glerárþorpsbýlanna mældust sjaldnast í mörgum hekturum. Lundeyrartún (stundum kallað Lundeyristún), norðan við húsið, var löngum vinsælt leiksvæði barna í Glerárþorpi, nýtt m.a. til boltaleikja.

Torfhúsið með timburþilinu sem lýst er í brunabótamati árið 1918 hefur væntanlega vikið fyrir steinhúsinu sem stóð fram á vordaga 2023. Samkvæmt fasteignamati var það hús byggt árið 1946. Ein elsta heimildin sem finnst á gagnagrunninum timarit.is, um Lundeyri, er frá ágúst 1921, þar sem hálft býlið er auglýst til sölu. Mögulega hafa þau Guðmundur Vigfús Guðjónsson sjómaður (1884-1957) Björg Guðmundsdóttir (1885-1971) keypt býlið þá, en þau eru alltént flutt hingað árið 1927. Bjuggu þau hér ásamt börnum sínum til ársins 1956, er Axel Vatnsdal keypti býlið. Það voru því Guðmundur og Björg sem byggðu steinhúsið árið 1946. Axel Vatnsdal lét breyta húsinu eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hafði alla tíð síðan. Lundeyri var einlyft steinhús með lágu risi, múrhúðað með bárujárnsþaki. Að grunnfleti var það um 12x8m. Samkvæmt teikningum Páls var austurhluti þess í upphafi með einhalla þaki undir háum kanti sunnanmegin en vesturhluti með lágu risi og ívið mjórri en austurhlutinn. Eftir tíð Axels Vatnsdals hafa ýmsir búið í Lundeyri og húsið alla verið tíð einbýli.

Á meðal barna Guðmundar og Bjargar, sem byggðu nýja Lundeyrarhúsið, var Gestur (1913-1961). Greinarhöfundur minnist þess, að hafa heyrt þess getið, að Gestur muni hafa verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið „Barnið í þorpinu“ og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið. („Ég kom í ljótt og lítið þorp sem liggur út við sjó“) Munu þessar lýsingar ekki hafa þótt sanngjarnar gagnvart Gesti og Lundeyrarfólkinu. Um þetta verður ekki fullyrt hér, enda í raun aðeins um sögusagnir að ræða. Það er hins vegar gömul saga og ný, að skáld og verk þeirra geta verið umdeild.

Það er gangur lífsins, ef þannig mætti komast að orði, að sum hús þurfa að víkja. Með hverju húsi sem rifið er hverfur ákveðin saga að vissu leyti, enda þótt saga húsa og fólks sem þar ól manninn varðveitist eilíflega í myndum og frásögnum. Nær alltaf er eftirsjá af þeim húsum sem hverfa og í raun gildir það um flest öll hús, að þau hafa alltaf visst tilfinningalegt og sögulegt gildi hjá einhverjum. En mætti þá segja, með þeim rökum, að það ætti bara aldrei rífa nokkurt hús!? Sá sem þetta ritar hefur vissulega haft uppi miklar yfirlýsingar um ansi mörg hús – og stendur við þær – að þau skuli varðveita eða friða. Stundum er því hreytt í undirritaðan, að honum væri mátulegt að eiga og viðhalda viðkomandi húsi sjálfur, sem hann mælir með, að varðveitt verði. En greinarhöfundur hefur þrátt fyrir allt skilning á því, að ekki verða öll hús varðveitt, af ýmsum ástæðum. Húsafriðun lýtur nefnilega öðrum lögmálum en t.d. friðun náttúrufyrirbrigða á borð við fossa og fjalla. Hús standa ekki bara til þess að vegfarendur geti dáðst að þeim og barið þau augum, þau þurfa viðhald og einhver þarf að eiga þau, búa í þeim eða nýta á annan hátt.

Lundeyri rifin 6. apríl 2023. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Að áliti greinarhöfundar ætti niðurrif þó ætíð að vera allra síðasta úrræði og í lengstu lög ætti að huga að endurgerð eða endurbyggingu gamalla húsa. Burtséð frá varðveislusjónarmiðum hlýtur það alltaf að vera betri nýting á auðlindum og þar af leiðandi umhverfisvænna, að nýta þau hús sem fyrir eru, heldur en að rífa og byggja nýtt. Að sjálfsögðu þarf að horfa til fleiri þátta þarna, t.a.m. nýtingu lóða og byggingakostnaðar og ástand þeirra húsa sem rifin eru. Þannig er það skiljanlegt, þegar reist eru ný hverfi, að stök eldri hús þurfi að víkja. En það er engu að síður bjargföst skoðun höfundar, að gömul býli í þéttbýli skuli varðveitt sem slík, þó e.t.v. mætti, ef nauðsyn krefur, semja um að taka af víðlendum lóðum þeirra undir aðrar byggingar. Þá er góð regla að ný hús sem reist eru á grunnum eldri húsa, hljóti sömu nöfn, svo nöfnin varðveitist með bæjarstæðinu. Þannig væri upplagt, að ný bygging á þessum stað hlyti nafnið Lundeyri. Myndin af Lundeyrarhúsinu er tekin 22. maí 2011 en meðfylgjandi er einnig mynd sem sýnir lóð Lundeyrar að kvöldi 18. apríl 2023. Það eina, sem eftir lifir af Lundeyri er furutré og líkan af torfbæ. Kannski er torfbærinn litli eftirlíking af upphaflega Lundeyrarbænum ...(?)

Að lokum leggur undirritaður til að öll gömlu býli Glerárþorps, ásamt með sambærilegum húsum á Brekku og í Naustahverfi verði friðlýst!

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Glerárþorp 1917-1922. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu, kassanr.H9/25.

Lárus Zophoníasson. 1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“ Súlur X. árg. (bls. 3-33).

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30