Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Lækjargata 4

Þeir sem kynnt hafa sér sögur Jóns Sveinssonar, Nonna, eða farið í sögugöngur Minjasafnsins um Nonnaslóð kannast við söguna um það, þegar Nonni, þá 12 ára, hugleiddi sína örlagaríkustu og stærstu ákvörðun á lífsleiðinni á göngu um brekkubrúninar ofan Fjörunnar. Hann mun hafa sest á stóran stein og hugleitt tilboð um inngöngu í kaþólskan skóla í Frakklandi. Virti hann fyrir sér Eyjafjörðinn á fögru sumarkvöldi og minnist m.a. skipa og báta á firðinum. Á þessari leið sinni gæti hann hafa séð húsaþyrpinguna neðst í Búðargilinu og þar á meðal nýbyggða hlöðu (eða á byggingarstigi) ofan við hús Stephans Thorarensen. Löngu síðar var þeirri hlöðu breytt í verslun og síðar íbúðarhús og fékk númerið 4 við Lækjargötu.

Það var sumarið 1870 sem Nonni fór í þennan sögufræga göngutúr um Naustahöfða. Fyrr um vorið, 30. apríl, hafði Stephan Thorarensen sýslumaður, sem búsettur var í Aðalstræti 6 (götunafn og númer kom síðar) fengið „að setja heyhlöðu á balann vestan við íbúðarhús hans“ og bygginganefnd ekki séð neitt því til fyrirstöðu. Ekki fylgja neinar lýsingar en hlaðan var byggð úr timbri, vegghæð samsvarandi einni hæð og með háu risi. Hugtakið einlyft á nefnilega tæplega við um hlöðu, sem er einn geymur, því til þess að hús sé einlyft þarf væntanlega að vera milliloft.

Lækjargata 4 er tvílyft timburhús með á lágum steingrunni og með háu risi. Skv. Húsakönnun 2012 er húsið bindingsverkshús (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:124), þ.e. grindin full af steini eða steypu. Á risi eru smáir kvistir fyrir miðju og á vesturstafni er steinsteypt viðbygging, tvílyft með lágu risi. Veggir eru klæddir panel eða vatnsklæðningu, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Að austan er áfast húsið Lækjargata 2b. Grunnflötur hússins mælist 6,28x9,61m skv. teikningum Þrastar Sigurðssonar en viðbygging mun 4,59x1,9m að sunnan en 4,59x2,51m að vestan. M.ö.o. byggingin er breiðari að norðan og er grunnflötur því ekki hornréttur. Fylgir viðbygging þannig stefnu Spítalavegar, sem liggur þarna á milli stafna húsa nr. 4 og 6 við Lækjargötu.

Velti lesendur því fyrir sér, hvort Stephan Thorarensen, sem byggði Lækjargötu 4 og Þórður Thorarensen, sem byggði næsta hús ofan við, Lækjargötu 6, hafi verið feðgar upplýsist hér, að það voru þeir ekki. Börn Stephans, eða Stefáns Thorarensen og hinnar dönsku Oliviu Juby, hétu Sólveig, Oddur, Jóhann og Emma. Stephan var fæddur árið 1825 að Nesi við Seltjörn. Lögfræði nam hann í Danmörku og tók við embætti sýslumanns Eyjafjarðarsýslu árið 1859. Gegndi hann því í röska þrjá áratugi eða til 1891. Þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindi árið 1862 varð hann einnig bæjarfógeti. Stephan tók m.a. þátt í stofnun Gránufélagsins og sparisjóðs, sem og fyrsta leikfélags bæjarins. Um Stephan, sem lést í nóvember 1901, segir m.a. í minningargrein Skapta Jósepssonar í Austra: „Sáttfús maður var Stefán sýslumaður fyrir sjálfan sig og aðra, og eru ótalin þau mál, er hann sætti milli sýslubúa sinna, til friðar og einingar fyrir héraðs- og bæjarbúa. Eptir því sem dómar hans stóðu sig vel að öllum jafnaði fyrir hæstarétti, þá hefir Stefán sýslumaður hlotið að vera góður lagamaður, enda mun enginn héraðsbúa hans hafa nokkru sinni ætlað honum, að hann hafi dæmt eptir öðru en sanni og rétti.“ Þá orti Matthías Jochumsson langan minningarbálk eftir Stephan, sem hófst á erindunum:

Hví birtir hjá blinds manns rúmi?
hví brosir hér skrúð og rós?
Því hann er nú burt úr húmi,
sem hrópaði: Meira ljós!

En hjá oss er hryggð í ranni,
og hnípin er bæjarþjóð,
því föður og fyrirmanni
vér flytjum vor hinnstu ljóð.

Stephan seldi hús sitt, Aðalstræti 6, um svipað leyti og hann byggði hlöðuna, sem nú er Lækjargata 4. Væntanlega hefur hlaðan fylgt með í kaupunum en engu að síður er það svo, að þegar lóðin Lækjargata 6 var útmæld fimmtán árum síðar, miðaðist hún við „hlöðu sýslumannsins.“ E.t.v. hefur hlaðan verið kölluð því nafni, enda þótt hún hafi löngu skipt um eiganda. Sá sem keypti af Stephan var danski bakarinn Hendrik Schiöth. Hann breytti hlöðunni í sölubúð og hefur þá væntanlega sett inngöngudyr að Lækjargötu og gluggasetningu, sem þjónaði sem búðargluggar. Þ.e. tveir samliggjandi gluggar hægra megin dyra og aðrir tveir með mjög stuttu bili vinstra megin. Síðar tók Carl, sonur Hendriks, við eignunum.

Árið 1916 var húsið virt til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: „Skrifstofu- og vörugeymslubygging, einlyft á kjallara, með háu risi. Á gólfi er ein skrifstofa og tvö vörugeymsluherbergi. Á lofti ósundurþiljað geymslupláss fyrir vörulager. Kjallari tvíhólfaður notaður til geymslu. [...] Við vesturenda hússins er skúr" (Brunabótafjelag Íslands 1916:102). Enn fremur kemur fram, að húsið sé 9,2x6,3m að grunnfleti, 5,2m hátt og á því átta gluggar. Veggir eru timburklæddir og þak járnklætt.

Árið 1920 fékk Carl Schiöth leyfi til þess að byggja aðra hæð ofan á húsið. Var honum leyft það, svo fremi sem byggingin stæðist brunamálalög. Þá fékk hann leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu, inngöngu og stigabyggingu, á vesturstafn hússins árið 1923. Var leyfið veitt með því skilyrði, að byggingin næði ekki meira en 3,5 álnir frá suðvesturhorni. Af Manntölum ráða, að ekki hafi verið flutt inn í húsið fyrr en 1924, en þá eru búsett í húsinu téður Carl F. og Jónína Schiöth, fjögur börn þeirra og fósturdóttir og vinnukona. Þann 17. mars 1927 auglýsir Carl Schiöth húsið til sölu og ekki nóg með það, heldur fylgir nákvæm lýsing á herbergjum og búnaði hússins ásamt því að hann rekur framkvæmdir sínar við húsið síðustu ár á undan. Líklega var um að ræða eina ítarlegustu fasteignaauglýsingu sem birst hafði á síðum blaða hérlendis. Raunar er hún á pari við, eða jafnvel ítarlegri, en eignalýsingar sem birtast í auglýsingum. Carl segir „Hús þetta er að mestu nýbygt, og með öllum nútíma þægindum“. Ennfremur að það sé [...]raflýst hátt og lágt, og í göngum og við tröppur er tvöföld leiðsla svo hægt er að kveikja og slökkva á víxl, hvert sem maður fer upp eða ofan, allaleið frá götudyrum og upp á háaloft“. Þá segir hann „Breyting sú, er eg gerði á húsinu, sem var vörulagerhus áður, er í því innifólginn að eg setti í húsið miðstöð, vatnsleiðslu, rafleiðslu, skorstein og bygði vestan við húsið steinhús, með kjallara og tvær hæðir þar ofan á, þiljaði sundur húsið hátt og lágt til íbúðar, þar, sem það áður að mestu leiti voru stórir salir, vatnslaust, ljóslaust og eldstæðislaust“ (Carl Schiöth, Íslendingur 17. mars 1927). Svo fátt eitt sé nefnt. Húsið bauð hann til sölu á 16-18 þúsund og taldi ódýrt, sem það vissulega var, því breytingarnar kostuðu hann 17-19 þúsund og húsið var virt á 29.400 kr.

Hver var svo heppinn, að tryggja sér þetta nýuppgerða glæsihýsi, á slíkum kostakjörum? Það var Jakob Kristinsson sjómaður. Bjuggu hann og Filippía Valdemarsdóttir og börn þeirra hér um langt árabil. Í þeirra tíð hér, þann 13. febrúar 1936, kom upp eldur í húsinu og mun tæpt hafa staðið, að það brynni til grunna. Barðist allt slökkvilið bæjarins, 40 manns, við eldinn í þrjá tíma (Jón Hjaltason 2016: 100). Kom fram í mjög stuttri frétt Íslendings að húsið hafi brunnið allmikið að innan áður en tókst að slökkva. Engum sögum virðist fara af afdrifum fólks í bruna þessum en ljóst að engan sakaði. Jakob og Filippía byggðu húsið upp aftur og munu hafa búið hér allt til ársins 1967, en ári síðar fluttust þau á Hrafnistu. Hafa síðan margir átt og búið í húsinu um lengri og skemmri tíma og lengst af voru tvær íbúðir í húsinu.

Húsinu hefur verið mjög vel við haldið síðustu áratugi, klæðningar að utan, gluggar og þak er allt tiltölulega nýlegt. Árin 2012-16 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu að innan jafnt sem utan, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Á þeim teikningum var gert ráð fyrir stórum miðjukvistum. Er húsið nú allt í fyrirtaks hirðu og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Er það til mikillar prýði og svo sannarlega eitt af mörgum perlum Innbæjarins. Það er hluti einnar elstu og merkustu húsaþyrpingar bæjarins neðst í Búðargili og hefur þannig óskorað varðveislugildi og er vitaskuld aldursfriðað. Húsið myndar, ásamt næstu húsum afar skemmtilegar heildir, stafn Lækjargötu 2b „gægist“ framfyrir vesturgafl hússins. Og þessir tveir vinalegu öldungar, nr. 4 og 6 við Lækjargötu má segja, að myndi einhvers konar „hlið“ inn í Innbæinn þar sem Spítalavegurinn greinist frá götunni um örmjótt sundið milli gafla þeirra. Ein íbúð er í Lækjargötu 4. Myndirnar eru teknar 17. júní 2021 og 19. mars 2020.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 38, 30. apríl 1870. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 472, 12. Mars 1920. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 537, 2. Júní 1923. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Fasteignamat 1918. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal hér 

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30