Fara í efni
Minningargreinar

Hilmar Gíslason

Í dag verður Hilmar Gíslason borinn til grafar. Mig langar að minnast Marra, eins og hann var oftast kallaður, í örfáum orðum.

Stundum er sagt að fólk njóti leiðsagnar góðs kennara alla ævi og það er örugglega heilmikið til í því. En þeir finnast ekki bara innan skólastofunnar, heldur um allt samfélagið í ýmsu samhengi. Í mínum huga var Marri meðal þeirra manna sem ég lærði mest af og á mest að þakka.

Marri var vel þekktur og áberandi í bæjarlífinu. Glaðlyndur, eldheitur Þórsari og yfirverkstjóri áhaldahúss bæjarins í áratugi. Þá störfuðu tugir starfsmanna hjá áhaldahúsinu við fjölbreytt verkefni; allt frá sorphirðu til gatnagerðar. Og þá tíðkaðist að ráða tugi unglinga til fjölþættra sumarstarfa. Ég var einn þeirra heppnu og vann hjá Marra flest sumur, frá 13 ára aldri fram á fullorðinsár.

Að bæta tugum unglinga í vinnu hvert sumar, við þann fjölda sem hafði þar fasta vinnu, var örugglega ekki auðvelt starf og krafðist þolinmæði Marra. Ég var langt frá því að vera auðveldur unglingur, gat meira að segja verið býsna baldinn og það átti sannarlega við ýmsa aðra sem unnu þarna sumarstörf.

Til að flækja hlutina enn frekar, voru þarna líka fýrar í fastri vinnu sem bundu bagga sína sannarlega ekki sömu hnútum og samferðarmennirnir. Vissulega unnu þar líka margir afbragðs verkmenn og góðir verkstjórar sem léttu undir með Marra en þegar keyrði um þverbak tók hann sjálfur í taumana.

Mér er það enn í fersku minni þegar hann kallaði mig inn á skrifstofu eftir eitthvert asnastrikið og það gerðist annað slagið. Þá byrjaði hann á að lesa manni pistilinn, næst komu nokkur vel valin orð um mikilvægi þess að standa sig í vinnunni, síðan löng, mjög löng og óþægileg þögn sem endaði með háværum hlátri. Loks stóð hann upp og sagði manni að koma sér út og kallaði: „Það er nú alveg hægt að hafa gaman af ykkur!” Og aldrei brást það, þegar sumarið nálgaðist og maður var á einhverju rölti annars hugar, að maður hrökk upp við bílflautu á Bronco; fyrst grænum, síðan gulum. Þar var Marri kominn á A47, skrúfaði niður og kallaði hárri röddu: „Hvenær byrjarðu að vinna næsta sumar?”

Hápunktur hverrar vinnuviku var á föstudagsmorgnum þegar starfsmennirnir söfnuðust í anddyri áhaldahússins og Marri steig uppá stól í miðri þvögunni. Hann kallaði síðan hvern starfsmanninn á fætur öðrum til sín og afhenti hvít umslög með vikuhýrunni. Þessi athöfn tók um það bil klukkutíma og það var eftirminnilegt að fylgjast með köllum eins og Tóbaks Steina koma gleiðbrosandi, grípa umslagið úr höndum Marra og stíga léttfættan burt, sáttan við umbun fyrir mikilvæga þjónustu við bæjarbúa. Færri sögum fer af því í hvað kaupið fór eða hve lengi það entist út vikuna.

Marri var útsjónarsamur verkstjóri. Þegar ég spurði hann að því af hverju ég væri alltaf hafður í klóakinu, glotti hann t.d. og sagði að ég væri ágætur í því en fyrst og fremst væru minni líkur á að ég gerði eitthvað af mér þegar ég væri niðrí skurði. Og heilt yfir tókst að hafa góða stjórn á þessum ótrúlega fjölbreytta hóp sem þarna starfaði. Eflaust af því hann var strangur þegar við átti, alltaf sanngjarn og tilbúinn að fyrirgefa lítilsháttar yfirsjónir en umfram allt glaðlyndur svo það smitaði út frá sér.

Ég á eftir að sakna þess að rekast ekki á Marra og er honum þakklátur fyrir viðkynninguna og allt sem hann kenndi mér. Valda, Óla, Stínu og fjölskyldum þeirra sendi ég dýpstu samúðarkveðjur og er viss um að minningar um litríkan, góðan og skemmtilegan mann huggi í sorginni.

Logi Már Einarsson

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05