Fara í efni
Minningargreinar

Vilhelm Guðmundsson

Elsku pabbi okkar var yndislegur og hjálpsamur maður, einstakur faðir sem gerði allt fyrir okkur systur. Hann var alltaf til staðar, traustur og örlátur, og átti auðvelt með að gleðja okkur með sínum skemmtilega húmor. Hann var dásamlegur afi, langafi og tengdapabbi. Sem umvafði sína nánustu hlýju og umhyggju.

Við litla fjölskyldan höfum alltaf verið mjög samrýmd og höfum gert margt saman um ævina. Á veturna vorum við endalaust á skíðum með foreldrum okkar og eigum við skemmtilegar minningar þegar við sátum í brekkunni með kakó og brauð. Á sumrin ferðuðumst við með þeim hverja helgi í útilegum. Fyrst í tjaldi og síðan í hjólhýsi.

Stangveiði var eitt helsta áhugamál pabba og mömmu og fórum við fjölskyldan í margar eftirminnilegar veiðiferðir með þeim. Pabba tókst að smita Gunna tengdason sinn af laxveiðiáhuganum.

Pabbi og mamma voru dugleg að ferðast líka utanlands. Þau fór víða, en Kanarí var í algjöru uppáhaldi hjá þeim í mörg ár. Við systur fengum að fara með í síðustu ferð pabba og mömmu þangað, þeim til halds og trausts. Sú ferð er okkur ógleymanleg og fer hún í minningabankann okkar systra.

Pabbi var rafvirkjameistari og þúsundþjalasmiður. Hann var duglegur að kenna okkur systrum að vera sjálfstæðar og hann kynnti okkur ýmis störf, kenndi okkur til dæmis að draga í rafmagn, að smíða, flísaleggja og skipta um dekk.

Pabbi var kletturinn okkar og vorum við svakalega heppnar að eiga hann og mömmu.

Vegna líkamlegra veikinda þurfti pabbi að flytja á hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð og erum við endalaust þakklátar starfsfólkinu þar fyrir sérstaka hlýja og góða umönnun.

Pabbi okkar kvartaði aldrei, heldur mætti lífinu og jafnvel erfiðustu veikindum síðustu árin með æðruleysi og reisn. Minning hans lifir áfram í hjörtum okkar með þakklæti og kærleika.

Hvíldu í friði elsku pabbi okkar. Við elskum þig alltaf.

Þínar dætur,

Björk Vilhelmsdóttir
Alfa Vilhelmsdóttir

Vilhelm Guðmundsson – lífshlaupið

08. janúar 2026 | kl. 06:00

Sigurður Ólafsson

Þröstur Ásmundsson og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifa
18. desember 2025 | kl. 10:00

Sigurður Ólafsson

Kristján Pétur Sigurðsson skrifar
18. desember 2025 | kl. 06:00

Tryggvi Ingimarsson

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
09. desember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 08:00

Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið

25. nóvember 2025 | kl. 06:00