Fara í efni
Minningargreinar

Jóhannes Sigurjónsson

Nýtt ár er hafið og þá fara hestamenn í ríkum mæli að taka hross sín á hús og hefja útreiðar.
 
En á fyrsta degi ársins 2026 kvaddi góður vinur og félagi okkar hestamanna til áratuga, Jóhannes Sigurjónsson þessa jarðvist.
 
Jóhannes, eða Jói Sigurjóns eins og við kölluðum hann alltaf var félagsmaður hestamannafélagsins Léttis í áratugi, hélt sína hesta í Breiðholti og tók mikin þátt í félagsstarfi Léttis og var svo sannarlega öflugur félagsmaður.
 
Jói sat mörg ár í ráðum og nefndum félagsins. Var lengi í Sörlastaðanefnd þar sem hann svo sannarlega tók til hendinni við uppbygginguna á þeim dýrðarstað okkar Léttismanna í Fnjóskadalnum, og þar kom sér vel að eiga Jóa að sem úrvalssmiðs, og handverk hans ásamt góðum hópi manna stendur enn og mun gera lengi fyrir okkur sem yngri erum.
 
Jóhannes var lengi í haganefnd og var mjög umhugað um góða haga okkar hestamanna og vann þar geysigott starf. Einnig var Jói öflugur liðsmaður við uppbyggingu Melgerðismela á sinni tíð og átti þar ótal stundir við hin ýmsu verk er vinna þurfti.
 
Auk alls þessa sat Jói í stjórn Hestamannafélagsins Léttis um nokkura ára skeið og eins og annarstaðar er hann kom að verki, hafði hann skoðanir, var rökfastur og fylginn sér, en um leið ráðagóður og tryggur í sameiginlegum aðgerðum félagsins. Félagsins sem á þessum árum var einstaklega þéttur vinahópur hestamanna, samstíga og naut samvista við menn og hesta, í útreiðum, hestaferðum, lengri sem styttri, sem og í félagsstarfinu öðru.
 
Þegar aldurinn fór að segja til sín og Jói og Margrét kona hans ,sem stóð þétt við bak sínum manni í öllu félagsstarfi, og var svo sannarlega styrk stoð í félagsstarfinu, drógu sig út úr erli hestamennskunnar komu þau og nutu samvista í „Heldri manna hitting hestamanna“ sem hér var áður og mikið óskaplega voru þau hjónin þakklát fyrir þann vettvang að fá að koma og njóta áfram vinskapar við eldri kynslóð hestamanna hér í bæ. Þær stundir voru bæði fallegar og skildu eftir mörg hlý orð.
 
Ég átti gott samtal við Jóa í sumar er leið og við vorum að undirbúa hitting eldri félagsamanna á Melgerðismelum í tilefni 50 ára ártíðar uppbyggingar Melgerðismela, en þar var Jói öflugur eins og áður segir.
 
Þá einmitt kom þetta áþreifanlega þakklæti frá honum fyrir að við skyldum muna eftir sér og þótt hann og þau hjón hafi ekki átt heimangengt með okkur á melunum í sumar var hugurinn þar og veit ég að þau hugsuðu frameftir.
 
Nú hefur Jóhannes Sigurjónsson söðlað sinn hest í hinsta sinn og lagt af stað yfir Gjallarbrú.
 
Um leið og ég þakka Jóhannesi persónulega kynnin góð, veit ég að ég tala fyrir hópi eldri hestamanna hér í bæ og þakka Jóa fyrir framlag hans til hestamennskunnar á liðnum áratugum.
 
Góður félagi er genginn.
 
Ég vil senda eftirlifandi eiginkonu Jóhannesar, Margréti, sonum þeirra sem og öllum öðrum ástvinum hans, mínar innilegustu samúðarkveðjur.
 
Farðu í friði vinur sæll.
 
Góða ferð.
 
Blessuð sér minning Jóhannesar Sigurjónssonar.
 
Sigfús Ólafur Helgason

Jóhannes Sigurjónsson – lífshlaupið

16. janúar 2026 | kl. 05:50

Bryndís Baldursdóttir – lífshlaupið

09. janúar 2026 | kl. 10:30

Bryndís Baldursdóttir

Birna Baldursdóttir skrifar
09. janúar 2026 | kl. 10:30

Vilhelm Guðmundsson – lífshlaupið

08. janúar 2026 | kl. 06:00

Vilhelm Guðmundsson

Björk og Alfa Vilhelmsdætur skrifa
08. janúar 2026 | kl. 06:00

Sigurður Ólafsson

Þröstur Ásmundsson og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifa
18. desember 2025 | kl. 10:00