Fara í efni
Minningargreinar

Haraldur Ólafsson

Elsku besti afi Halli.

Ég hef lengi kviðið þeim degi að afi kveddi okkur, elsku uppáhaldskallinn minn. Þrátt fyrir að ég kveðji afa með miklum söknuði er ég að sama skapi þakklát fyrir allan tímann sem ég fékk með honum. Ekki síst er ég þakklát fyrir að hafa verið hér fyrir norðan síðastliðið ár, og þannig getað átt með honum fjölmargar samverustundir. Það var alltaf svo gott að koma til afa í Víðilundinn, hann hafði svo einstaklega þægilega nærveru og húmorinn var aldrei langt undan. Við gátum rætt saman um heima og geima, afi fylgdist vel með öllu sem fram fór og fólkið hans allt var það sem hann hugsaði best um. „Eru ekki allir frískir?“ var spurning sem afi spurði í hvert sinn sem við hittumst eða ræddum saman í síma. Mér þótti svo vænt um hversu vellíðan okkar skipti hann miklu máli og hversu áhugasamur hann var um líf okkar; hvernig gengi hjá strákunum mínum í boltanum, hvernig okkur Gulla líkaði á nýju vinnustöðunum okkar eða hvernig gengi í framkvæmdunum. Strákunum mínum hefur líka alltaf þótt gott að fara í heimsókn til afa. Hjá afa mátti alltaf horfa á teiknimyndir, leika með dótið í kassanum, borða sig saddan af bleikri glassúrtertu nú eða fá sér haug af ís með súkkulaðisósu og fá afa til að „pjakka“. Svo var samveran bara svo notaleg. Þetta fannst þeim best og voru jafnvel farnir að taka vini sína með í heimsóknir. Allir voru velkomnir í afahús og þar var öllum vel tekið.

Afi var alla tíð ótrúlega minnugur, sama hvort um var að ræða fæðingardaga langafabarnanna, veðurfar frá gamalli tíð eða úrslit íþróttakappleikja. Hann fylgdist vel með öllu sem fram fór og hann var sérstakur áhugamaður um íþróttir; að fylgjast með handbolta, fótbolta eða frjálsum íþróttum í sjónvarpinu var honum hin besta dægrastytting.

Síðastliðin tæp tvö ár naut afi þjónustu hjúkrunarfræðinga heimahjúkrunar HSN. Honum þótti hver þeirra öðrum dásamlegri og talaði margoft um þær góðu konur. Þeim, ásamt starfsfólki á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, er ég þakklát fyrir þá góðu umönnun sem veitt var og góðmennsku í alla staði.

Samveran á sjúkrahúsinu síðustu dagana í lífi afa eru mér ómetanlegir. Mér fannst erfitt að horfa á hann missa þróttinn og undir það síðasta varð ég lífinu reið fyrir stöðuna sem mér fannst hann kominn í. Það var þó gott að fá þá vissu frá afa að honum liði vel og að hann væri sáttur, saddur lífdaga, og tilbúinn að finna ömmu Brynju á nýjum stað. Hann þakkaði okkur öllum margsinnis fyrir allt og ég gleðst yfir því að hafa getað sagt honum oft á hvaða stalli hann var hjá mér.

Elsku afi, takk fyrir allt. Ég minnist þín með mikilli væntumþykju og sakna þín mjög, hvíldu í friði.

Brynja Dögg

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05