Fara í efni
Minningargreinar

Hallgrímur Skaptason

Bankað er á bakdyr í Norðurgötu 45, líklega hefur árið verið 1965. Lítill hnokki sem átti erfitt með að segja orðið Skapti og sagði því „er Hallason heima? Vill hann leika?“ (mun einfaldara). Þarna var á ferðinni undirritaður og var að spyrja eftir Skapta Hallgrímssyni sem æ síðan hefur verið minn besti vinur. Það má því eiginlega segja að ég hafi byrjað að segja Halli fyrr en nafn míns besta vinar.

Heimili Halla og Hebu varð mér fljótt sem annað heimili og er óhætt að segja að Halli hafi verið mér sem annar faðir alla tíð. Halli passaði vel að ég væri hluti af þeirra fjölskyldu þegar ýmislegt var um að vera. Mér er afar minnistætt að þar sem baklóðir Reynivalla og Norðurgötu lágu saman, þá var gert gat í girðinguna þannig að við Skapti ættum auðvelt með að fara á milli. Dag nokkurn var byggður bílskúr á lóðinni í Norðurgötu og var hann alveg að lóðarmörkum. Sá er bjó á efri hæð Norðurgötu 45 byggði skúrinn og gekk hann vel frá girðingunni alveg að vegg skúrsins. Það var því erfitt fyrir unga drengi að príla yfir girðinguna. Er Halli sá þetta mætti hann út með sög og sagaði gott hlið fyrir okkur vinina. Hann sá til þess að ekkert væri til að gera okkur vinum erfitt að hittast.

Það voru ófáar ferðirnar sem ég fór með þeim feðgum í sannkölluð „ævintýralönd“ fyrir unga drengi. Ekki var dónalegt að stíga uppí Willis (eða Bronco) og halda á vit ævintýra með Halla. Þvílík forréttindi að fá að fara með Halla og Skapta í Slippinn og síðar í Vör. Þarna var ýmislegt áhugavert að sjá og bralla. Ævintýralönd fyrir unga drengi.

Í gegnum tíðina hitti ég Halla nokkuð oft. Alltaf var gaman að spjalla við hann og ekki leyndi sér áhugi hans á því hvað ég var að gera hverju sinni. Greinilegt var að hann fylgdist vel með og sást það á Facebook. Fyrir rúmum mánuði síðan auglýsti ég bílinn minn þar og þótti mér ákaflega vænt um að hann var einn af þeim fyrstu til að segja „like“ á þá færslu. Halli minn, bílinn er seldur.

Fyrir mér hefur alla tíð Halli og Heba, eða Heba og Halli verið sem eitt orð. Elsku Halli ég þakka þér fyrir allt. Það hafa verið forréttindi að fá að vera hluti af ykkar fjölskyldu, þú og Heba gáfuð mér svo mikið. Ég óska þér góðrar ferðar í sumarlandið að hitta Hebu þína og aðra ættingja.

Elsku Sólveig, Skapti, Guðfinna og Ásgrímur. Við hjónin vottum ykkur, og fjölskyldum, okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Halla fyrir allt.

Reynir B. Eiríksson

Smári Jónsson – lífshlaupið

Fjölskylda Smára skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05