Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Nú kveðjum við hana Fríðu okkar.
Við ólumst upp í Hjalteyrargötunni í stórum barnahópi, sex systkin, auk tveggja hálfbræðra. Margt var brallað á Eyrinni í gamla daga, oft var líf og fjör.
Fríða hafði hjarta úr gulli og var afar bóngóð, enginn fór frá henni án þess að fá lausn á sínum málum.
Fyrir mörgum árum fórum við systur saman á námskeið í konfektgerð. Síðan þá hefur hún verið konfekt meistarinn og ávallt komið með nýjar tegundir fyrir jólin. Konfektið hennar er löngu orðið frægt enda gæðin og natnin fullkomin.
Hún var hirðskáldið okkar og margar fallegar vísur eigum við frá henni. Fríða var ákaflega félagslynd og skemmtileg á mannamótum, söng með kór eldri borgara, var í lestrarklúbbi með góðum vinkonum og í Hættunum sem er hópur fyrrverandi starfsfólks Lundarskóla. Henni þótti afar vænt um starfið sitt í Oddfellow og átti þar marga góða vini. Fríða var eins og „konan sem kyndir ofninn minn“ í kvæði Davíðs Stefánssonar, hún vann verkin sín hljóðlát og hlý, án þess að ætlast til nokkurs í staðinn. Hún var vinamörg og átti mikið að gefa.
Fríða kynntist Jónasi sínum 16 ára gömul og hafa þau verið saman síðan. Heimili þeirra var ávallt opið og vel tekið á móti manni. Auk fjögurra barna, tengdabarna og barnabarna var stjúpdóttir og skiptinemi í hópnum. Alltaf var nóg pláss hjá Jónasi og Fríðu og ávallt hefur hún styrkt okkur systkinin í okkar verkefnum.
Það voru forréttindi að fá að eiga systur eins og elsku Fríðu. Takk fyrir allt.
Kæri Jónas og elsku systrabörn, þetta eru þung spor að stíga. Við verðum til staðar og hlúum að ykkur.
Ég kveð þig elskuleg með kvæðinu „Ljósið á kertinu lifir“ eftir Kristján frá Gilhaga.
Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Við flöktandi logana falla nú tár,
það flýr enginn sorgina lengi.
Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,
hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
er blunda í hjarta og brjósti hvers manns.
Nú birtir, og friður er yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefur þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eygir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs,
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga.)
Ljósið þitt mun lifa áfram og skína skært hjá okkur öllum.
Góða ferð í draumalandið.
Hulda systir.


Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir
