Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Mamma var einstök kona, alltaf frekar hógvær, æðrulaus og lét lítið fyrir sér fara, einstaklega vandvirk og hæfileikarík. Allt lék í höndunum á henni. Hún var kjólameistari án þess að hafa notið til þess formlegs náms, saumaði á sig síðkjóla fyrir árshátíðir, fermingarföt á börn og barnabörn. Hún saumaði nánast allan fatnað á mig þegar ég var barn. Hún gat búið til næstum allt sem mér datt í hug að biðja hana um. Hún var svo klár og þrjósk sem gagnaðist henni í að verða sérfræðingur í flestu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún byrjaði meðal annars að búa til konfekt fyrir mörgum árum, þróaði endalaust nýjar tegundir og gaf vinum og vandamönnum. Hún lagði mikið upp úr því að konfektið væri ekki bara gott heldur líka fallegt og sama gilti um umbúðirnar. Fríðukonfekt hefur glatt marga í gegnum árin og gefið af sér mikið í fjáröflun til líknarmála.
Mamma lagði sig alla fram í að hjálpa öllum sem leituð til hennar og sýndi kærleika í orði og verki. Hún starfaði mikið fyrir Oddfellow í líknarmálum og félagsstörfum og eignaðist þar sínar bestu vinkonur. Hún var líka mikil fjölskyldumanneskja og hún talaði oft um það hvað hún væri þakklát fyrir fjölskylduna og þá sem henni tengdust. Heimili foreldra minna var opið fyrir mína vini og sum vina minna hafa haldið sambandi við þau allt frá unglingsárum.
Mamma var einstaklega bóngóð og hjálpsöm bæði við okkur fjölskylduna og alla aðra sem til hennar leituðu. Hún var blíð og góð mamma, amma og langamma, frænka og vinkona.
Mamma var snillingur í tungumálinu okkar, leysti krossgátur og samdi fjöldann allan af vísum og ljóðum við öll tækifæri. Fjölskyldan og vinirnir fengu oftar en ekki vísur með heillaóskum á afmælum og öðrum stórum viðburðum í lífinu. Ljóðin hennar tjáðu oft tilfinningar sem hún talaði ekki um dags daglega. Hún samdi líka ljóð fyrir jólakortið á hverju ári síðustu árin og þau endurspegluðu oft hugleiðingar hennar um ástandið í heiminum og óskir hennar um frið og kærleika til handa öllu fólki.
Við ferðuðumt mikið saman, við hjónin og foreldrar mínir og heimsóttum ýmsa framandi staði sem dæmi má nefna Kúbu, Namibíu, Suður-Afríku, Ástralíu og Nýja Sjáland auk ferðalaga til landa nær okkur. Þegar lítið var hægt að ferðast vegna heimsfaraldurs fórum við i dásamlega ferð saman til Færeyja þar sem við flökkuðum um og nutum samveru.
Ég er óendanlega þakklát fyrir elsku mömmu mína sem var bara rétt 17 ára þegar ég fæddist og alla okkar yndislegu samveru í gegnum árin. Ég kveð hana með söknuði og þakklæti fyrir allt.
Helga Björg Jónasardóttir


Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir – lífshlaupið
