Fara í efni
Fréttir

Hagnaður Samherja 17,8 milljarðar

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Í forgrunni er nýtt listaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur, Landslag. Mynd af vef Samherja.

Samherji hf. hagnaðist um 17,8 milljarða króna í fyrra, 10 milljörðum króna meira en árið 2020. Mestu munar um söluhagnað hlutabréfa í Síldarvinnslunni hf. og hlutdeild í afkomu fyrirtækisins á síðasta ári, samtals 9,7 milljörðum króna.

Hagnaður af starfsemi Samherja hf. eftir skatta (án áhrifa og söluhagnaðar hlutdeildarfélaga) nam 5,5 milljörðum króna en árið á undan var hagnaðurinn 4,5 milljarðar króna.

Söluhagnaður og hlutdeild Samherja hf. í afkomu annarra hlutdeildarfélaga en Síldarvinnslunni hf. nam samtals 2,6 milljörðum króna.

Þetta kom fram á aðalfundi Samherja hf. sem haldinn var á Dalvík 19. júlí en félagið stundar útgerð, fiskvinnslu, fiskeldi, sölu- og markaðsstarfsemi á sviði sjávarútvegs og annan skyldan rekstur.

Í ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., kom fram að miklar fjárfestingar væru fyrirhugaðar í fiskeldi á komandi árum, allt að 60 milljarðar króna.

„Við hjá Samherja höfum mikla trú á landeldi en öll uppbygging er gríðarlega fjárfrek. Þess vegna skiptir höfuðmáli að félagið sé fjárhagslega öflugt nú sem áður. Ársreikningur samstæðunnar sýnir að svo er. Aðalfundur félagsins ákvað að greiða ekki arð og beina fjárfestingarstyrk félagsins inn í ný verkefni á sviði sjávarútvegsins,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson.

Samherji birti tilkynningu í tilefni uppgjörsins á heimasíðu sinni í morgun.

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem bættist í flota Samherja í apríl á síðasta ári.

Lykiltölur úr uppgjörinu

  • Seldar afurðir Samherja voru 52,8 milljarðar króna og að meðtöldum öðrum rekstrartekjum námu rekstrartekjur alls 56,7 milljörðum króna á árinu 2021. Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam 17,8 milljörðum króna í samburði við 7,8 milljarða króna árið á undan.
  • Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var níu milljarðar króna, sem er nánast sama EBITDA-afkoma og árið á undan. Á árinu voru hlutabréf í hlutdeildarfélögum seld og nam bókfærður hagnaður 7,1 milljarði króna. Þyngst vegur sala á 12% hlut í Síldarvinnslunni hf. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga hafði einnig jákvæð áhrif hagnað ársins.
  • Fjöldi ársverka á árinu var 807 sem er svo að segja óbreyttur fjöldi miðað við árið á undan.
  • Heildarlaunagreiðslur á síðasta ári námu samtals 10,5 milljörðum króna og hækkuðu um tæplega 10% milli ára.
  • 31% starfsmanna eru konur og 69% karlar. Hlutfall kvenna í stjórn félagsins er 40% og karla 60%.
  • Eignir í árslok námu 128 milljörðum króna og eigið fé var í árslok 94,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var því 73,6%, miðað við 72% árið á undan, sem undirstrikar að efnahagur félagsins er traustur.
  • Upphæðir í rekstrarreikningi eru umreiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2021 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins 2021.

Metnaður og trúmennska starfsmanna

„Við tókumst á við margar áskoranir á árinu 2021 eins og á hverju ári en samt verð ég að segja að það sem stendur upp úr eins og ævinlega er endalaus metnaður, dugnaður og útsjónarsemi starfsfólks Samherja. Á því byggist þessi góða afkoma. Ég er þakklátur fólkinu okkar fyrir framlag þess og óbilandi trúmennsku við Samherja,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri á aðalfundinum.

„Af einstökum þáttum er skráning Síldarvinnslunnar á almennan markað mikilvæg. Við höfum verið hluthafar þar frá aldamótum og stigum nú það skref að minnka hlut okkar eins og fleiri hluthafar. Við það gafst almenningi tækifæri á að koma til liðs við félagið og tók því sannarlega fagnandi, því um 6.500 nýir hluthafar bættust strax í hópinn. Þá eru ótaldir lífeyrissjóðirnir sem gæta hagsmuna tugþúsunda landsmanna. Þannig varð stór hluti þjóðarinnar þátttakandi í þessari mikilvægu atvinnugrein á fáeinum dögum. Það er afar ánægjulegt og felur í sér mikið traust fyrir þau sem hafa byggt félagið upp.“

Þorsteinn Már nefnir sérstaklega nýtt skip, Vilhelm Þorsteinsson EA11 sem bættist í flotann í apríl: „Samherji hefur lagt höfuðáherslu á að fjárfesta í nýjum skipum, tækni og búnaði til sjós og lands. Við höfum varið til þess um 35 milljörðum á síðustu fimm árum. Við lítum svo á að með þessum hætti sé unnt að standast alþjóðlega samkeppni og bjóða upp á áhugaverð og krefjandi störf hér á landi.“

Tölvugerð mynd af landeldisstöðinni nálægt Reykjanesvirkjun

Miklar fjárfestingar í landeldi

Fram hefur komið að Samherji hefur hafið undirbúning að umtalsverðu landeldi á Reykjanesi.

„Það er sannarlega eitt af stóru málunum frá síðasta ári,“ segir Þorsteinn Már.

„Dótturfélagið Samherji fiskeldi hf. undirbýr að byggja upp á næstu árum allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi, sem verður nálægt Reykjanesvirkjun. Heildarfjárfestingin er áætluð hátt í 60 milljarða króna og hefur stjórn Samherja hf. ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins á Reykjanesi með því að auka hlutafé Samherja fiskeldis hf. um allt að 7,5 milljarða króna. Unnið er að stækkun landeldisstöðvar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði, um leið og allur tækjakostur verður bættur. Tvöfalda á eldisrými og framleiðslu, þannig að unnt verði að framleiða allt að þrjú þúsund tonn á ári. Þar verður sömuleiðis byggð ný seiðaeldisstöð. Segja má að stækkunin í Öxarfirði sé nokkurs konar undanfari uppbyggingarinnar á Reykjanesi. Þessar framkvæmdir kosta um fjóra milljarða króna. Í haust hefjast framkvæmdir við nýja seiðaeldisstöð á Stað við Grindavík, áætlaður kostnaður við hana er áætlaður um einn milljarður króna.“

Unnið er að stækkun landeldisstöðvarinnar í Öxarfirði.

Hækkandi olíuverð

„Olíukostnaðurinn hefur rokið upp úr öllu valdi en olía er næst stærsti kostnaður í útgerðinni á eftir launum. Hvernig verðið þróast í framtíðinni er með öllu óvíst og margir utanaðkomandi þættir hafa þar áhrif. Olíukostnaðurinn við útgerð Vilhelms Þorsteinssonar hækkar líklega um 300 milljónir króna á ársgrundvelli, svo dæmi sé tekið.“

Arður ekki greiddur

Á aðalfundinum var ákveðið að greiða ekki út arð vegna síðasta árs og er þetta þriðja árið í röð sem arður er ekki greiddur.

Stjórn til næsta árs var kjörin á aðalfundinum. Í stjórn Samherja hf. eru:

Eiríkur S. Jóhannsson (formaður), Óskar Magnússon (varaformaður), Dagný Linda Kristjánsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson.